Frá því janúar 2011 og fram til dagsins í dag hefur húsaleiga hækkað tvöfalt meira en verðlag. Þrátt fyrir að ítrekað hafi verið rætt um að húsaleiga á Íslandi hafi farið lækkandi undanfarin misseri þá sýnir vísitala húsaleigu hjá Þjóðskrá Íslands hið gagnstæða með áberandi hætti. Enn heldur húsaleiga áfram að hækka umfram verðlag, í maí 2020 var vísitalan í 195,3 punktum er situr núna í 218,9 pkt, sem er hækkun uppá 12,2%.
Þetta er framhald af hækkunum á húsaleigumarkaði sem byrjuðu á árunum 2010-2011, eða á sama tíma og fyrirferð stóru leigufélagana Heimstaden og Alma jókst á leigumarkaði og uppkaup eignafólks og lögaðila á húsnæði. Frá ársbyrjun 2011 hefur vísitala húsaleigu á Íslandi hækkað um 118,9%, á sama tíma og meðalhækkun húsaleigu á meginlandi Evrópu var 16%. Hækkun á íslenskum leigumarkaði er tæplega áttfalt meiri en á meginlandinu.
Verðsjá húsaleigu mælir einnig 12.8% hækkun á fermetraverði á 80-110 fm íbúðum í Reykjavík frá því í maí 2021 og er því um nokkuð áreiðanlega mælingu að ræða. Á sama tíma hefur verðlag hækkað um 10.5%.
Frá því í janúar 2011 hefur verðlag hins vegar hækkað um 52,9% en húsaleiga um 118,9%. Húsaleiga hefur því hækkað tvöfalt meira en verðlag og einnig fjórðungi meira en lágmarkslaun sem hafa hækkað úr 197 þús. kr. árið 2011 í 368 þús. kr. í ár, eða um 87%.
Dregið hefur úr hækkunum á húsaleigu sem og samfylgni húsnæðisverðs og húsaleigu undanfarið ár, þrátt fyrir að hækkun húsaleigu sé enn umfram hækkun verðlags. Á tímabilinu 2011–2021 var samfylgni húsaleigu við hækkandi húsnæðisverðs á Íslandi ríflega helmingi hærri en meðaltalið á meginlandinu. Mátti þá greina í ræðu og riti á Íslandi að ástæða hækkandi húsaleigu væri hækkandi fasteignaverð, það þrátt fyrir að hverfandi hluti þeirra íbúða sem komu inn á leigumarkaðinn báru þann fjármagnskostnað sem notaður var til að réttlæta hækkanir.
Framundan eru fyrirsjáanleg töluverð lækkun á fasteignaverði sem gæti þýtt að húsaleiga fari einnig lækkandi ef sömu kraftar virka í báðar áttir.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga