Kerfinu leyfist að beita ákveðið fólk rosalegu ofbeldi

Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson segir Geirfinns- og Guðmundarmál sýna hversu langt valdið getur gengið í að að beita ákveðið fólk ofbeldi. Og hvað samfélagið er tilbúið að viðurkenna það og styðja. Þótt hann vilji ekki líkja því saman hvað hann gekk í gegnum og dómþolar í Geirfinns- og Guðmundarmálum, þá segist hann hafa fengið forsmekkinn af þessu þegar hann var ákærður sem einn níumenningana eftir Búsáhaldabyltinguna.

Snorri Páll segir að annað hvort sé það svo að enginn skoðar Geirfinns- og Guðmundarmál án þess að hafa tilfinningu fyrir að valdið misbeiti valdi og að fólk sé ekki jafnt í augum þess. Eða að fólk fái þessa tilfinningu og síðar vissu eftir að hafa skoðað málið. Hvort sem er, þá viti hann ekki um neinn sem skoðað hefur málið án þess að komast að þessari niðurstöðu.

Þess vegna leggja menn eins og Brynjar Níelsson áherslu á að fólk lesi aðeins dóminn. Og halda því fram að þar komi fram að niðurstaðan hafi verið rétt. Það sé reyndar enginn vandi að lesa dóminn og sjá að niðurstaðan sé röng, en um leið og fólk les öll málsskjölin og það sem hefur verið skrifað og sagt um þessi mál síðan verður öllum ljóst að þetta mál á aðeins upptök sín hjá lögreglunni og ákæruvaldinu.

Fólkið sem var hneppt í gæsluvarðhald, þau sem voru dæmd og líka hinir horfnu menn soguðust inn í málið, þótt ekkert af þeim hafi í raun tengst því á nokkurn hátt. Það sé eins og sagan hafi orðið til og svo sé persónum og leikendum troðið inn í hana. Atburðirnir hafi meira að segja verið sviðsettir eftir á, til að gefa hugarburðinum raunverulegri svip.

Snorri Páll les upp í viðtalinu brot úr texta Megasar við lag Rúnars Júlíussonar, Í dráttarbrautinni, sem honum finnst lýsa vel málinu:

settu öll þessi brot
saman ef viltu finna
það sem engum reynist þó hollt
né hamingjudrjúgt að sinna
en sjáirðu hvert stefnir hvar
þarftu síður að kvíða
við vorum öll þarna hvert og eitt
þetta kvöld á dráttarbrautinni
hvað sem það átti að þýða

Þarna sé málinu lýst eins og Karl Shütz gerði, en hann sagðist hafa tekið saman brotin og raðað upp mósaíkmynd. Sem síðan varð að ákæru og forsendu dómsins. En það má raða þessum brotum upp allt öðruvísi og fá út aðra mynd.

Og það vinnst Snorra Páli mikilvægt að gera. Hann myndi vilja sjá þá þekkingu sem margt fólk býr yfir á málinu varðveitta og að unnið sé með hana, að við reynum að raða þeirri þekkingu saman til að fá mynd af því sem raunverulega gerðist og um hvað þetta mál raunverulega snýst.

Fyrir þau sem vilja heyra Rúnar syngja þennan texta þá er lagið hér:

Snorri Páll ræddi um hversu augljóst væri að lögreglan hafi talið dómþola seka frá upphafi. Hann fjallaði m.a. um þetta í pistlum í Ríkisútvarpsins fyrir fáeinum árum, sagði að „fullvissan um sök sakborninga — og þar með fullvissan um réttmæti gesamtníðingsverksins sem málið í heild sinni er — hafði ekkert að gera með hina tvo horfnu menn, heldur snerist um þá manntegund sem rannsakendur töldu sig hafa til skoðunar og klæddu í gamla og götótta rökhendu sem engu vatni hélt, en gagnaðist rannsóknarskáldskapnum og hljómar þannig:

  1. Fólk af þessari manntegund myrðir.
  2. Horfnir menn voru hugsanlega myrtir.
  3. Af því leiðir að fólk af þessari manntegund myrti hina horfnu menn.

Þannig lá úrskurðurinn þegar fyrir þegar sakborningarnir voru settir í járn og þaðan í grjótið. Hann var tilbúinn áður en Geirfinnur hvarf, áður en Guðmundur gufaði upp, löngu áður en nokkur þeirra fæddist sem að málinu kom með einum eða öðrum hætti. Dómurinn — hin stílfærða rökvilla — var tilbúinn, vandlega frágenginn og geymdur, líkt og fullunnin hljóðritun úr óskilgreindri og almennri þátíð, sem setja má í gang þegar þörf krefur og láta sem hún tilheyri afmörkuðu núinu,“ sagði Snorri Páll í pistlunum.

Í viðtalinu fjallar Snorri Páll nokkuð um hversu viljugt samfélagið var að trúa lögreglunni og valdinu. Og ræðir þar einnig reynslu sína sem sakborningur í svokölluðu níumenningamáli. Þar voru níu manns ákærð fyrir árás á valdstjórnina, nokkurs konar tilraun til valdaráns, þótt atvik málsins hafi ekki gefið neitt tilefni til þess.

Þegar ákæran var birt var henni fagnað í leiðurum og af álitsgjöfum, því haldið fram að ákæruvaldið ætti ekki annan kost. Þegar dómur svo féll, þar sem megninu af ákærunni var hafnað, þá þögðu þessir fjölmiðlar og álitsgjafar, létu sem þetta hefði allt verið hálfgert grín.

Snorri segir frá í viðtalinu frá því hvernig Pétur Eggerz, síðar sendiherra, fann Shütz. Um það segir í pistlunum á Ríkisútvarpinu:

„Í einni af mörgum skáldævisögum sínum lýsir Pétur fundi þeirra á veitingastað við rætur Akrópólis, þar sem Þjóðverjinn sagðist vera með hárréttan mann í starfið — svo hæfan að tækist honum ekki að leysa málið gæti það enginn. Úr varð að Karl nokkur Schütz kom til Íslands: þaulreyndur rannsóknarlögregluforingi, þá á eftirlaunum, sérlegur sérfræðingur í hneykslismálum og hnútalosun. Ásjónu hans við fyrstu kynni lýstu sakborningar Guðmundar- og Geirfinnsmálsins á ólíkan hátt: blá, barnsleg augu, sagði Erla Bolladóttir; manndrápsaugu, sagði Sævar Marinó Ciesielski. En Schütz tókst, óháð augnsvipnum, að samræma þvingaðar játningar þeirra og búa svo um rannsóknina að kalla mætti hana kláraða og bera á borð fyrir dómara Sakadóms Reykjavíkur og síðar Hæstaréttar — annað afbragðsdæmi um yfirburði skáldskaparins andspænis sannleikanum.“

Viðtalið við Snorra Pál má sjá og heyra ím spilarnum hér að ofan. Það er ný kafli í framhaldssögu Rauða borðsins, sem eru um Geirfinns- og Guðmundarmál, sagt frá fólki sem hefur dregist að málinu. Og sem haft hefur mikil áhrif á það.

Hér má nálgast fyrri kafla sögunnar í öfugri röð:

Hér má sjá og heyra vital við Sigurstein Másson:

Hér er viðtal við Tryggva Rúnar Brynjarsson:

Hér er viðtalið við Jón Daníelsson:

Hér er svo Tryggvi Hübner:

Og Hálmtýr Heiðdal:

Og fyrsta viðtalið var við Soffíu Sigurðardóttur:

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí