Hollenska ríkið gaf nýlega út hina árlegu prósentuhækkun á húsaleigu á almennum leigumarkaði. Meðalhækkun í ár á hollenskum leigumarkaði er 3% sem er sú þriðja mesta frá aldamótum. Verðbólga í Hollandi er yfr 17% samkvæmt samræmdri mælingu ESB, en þar veldur mestu hækkun orkuverðs.
Tvennskonar regluverk gildir um leigumarkaðinn í Hollandi, annarsvegar um hinn almenna leigumarkað og svo hinn félagslega rekna markað. Hækkunin á almennum markaði var 3.8% en 2.3% á hinum félagslega. Hagstofan í Hollandi greinir frá þessu.
Hollendingar reka umfangsmikið félagslegt og óhagnaðardrifið leiguhúsnæðiskerfi. Inni í því kerfi eru 75% alls leiguhúsnæðis, en 25% er á almennum markaði sem lýtur ströngu regluverki stjórnvalda.
Réttindi leigjenda eru vel varin samkvæmt húsaleigulögunum, þar sem samningar eru ótímabundinir eða til nokkurra ára í senn sem einungis leigjandinn getur sagt upp með fyrirvara. Einnig eru hækkanir á húsaleigu háðar heimildum stjórnvalda. Það er einungis við endurnýjun samninga sem leigusalar geta hækkað húsaleigu umfram þau prósentustig sem stjórnvöld gefa út, en stjórnvöld tilkynna um heimildir til hækkana 1. júlí ár hvert.
Samkvæmt hollensku húsaleigulögunum er leigusölum á almenna markaðnum heimilt að hækka húsaleigu um 1% umfram verðbólgu. Á félagslega markaðnum fylgja hækkanir verðbólgustigi, en eru samt háðar fyrirframgefnu leiguþaki sem stjórnvöld gefa út og er reiknað út frá einföldu punktakerfi.
Verðbólgan í Hollandi mælist nú yfir 17% en án orkuverðs er verðbólgan um 8%. Leyfð hækkun er töluvert undir verðbólgunni í dag. Hækkun á húsaleigu fer fram einungis einu sinni á ári og er meðalverðbólga liðins árs notuð sem viðmið, og heildarprósentan í kjölfarið tilkynnt.
Þær íbúðir sem teljast til almenna leigumarkaðarins í Hollandi eru allar íbúðir sem leigðar eru fyrir 763 evrur á mánuði, 110.000 íslenskar krónur, eða meira. Þær íbúðir sem leigðar eru á meira en 763 evrur á mánuði falla hinsvegar fyrir utan húsnæðisstuðningskerfið og því minna eftirsóttar en þær íbúðir sem eru innan félagslega húsnæðiskerfisins og innan leiguþaks.
Um 90 þúsund heimili skipta um leigjendur á hverju ári á hollenskum markaði og voru brögð að því að húsnæðisfélög á almenna markaðnum sem og einstaklingar væru að hækka húsaleigu umfram það sem eðlilegt gæti talist. Því greip hollenska ríkið til þess ráðs að takmarka hækkanir á húsaleigu um 1% á almenna markaðnum eins og áður segir og viðhalda leiguþaki félagslega leigumarkaðnum, með minniháttar leiðréttingum.
75% af hollensku leiguhúsnæði er háð leiguþaki. Hins vegar er 25% af hollensku leiguhúsnæði á almennum markaði þar sem meðalfermetraverð er 2.290 kr á mánuði, ívið lægra en á íslenskum leigumarkaði.
Þrátt fyrir að hollenska ríkið hafi hert húsaleigulögin og gert leigusölum erfitt að hækka húsaleigu er engan bilbug að finna á fjárfestum á hollenskum húsnæðismarkaði að sögn hagfræðings ING bankans í Hollandi, sem segir að regluverkið hafi óveruleg áhrif á væntingar stofnfjárfesta á hollenskum húsnæðismarkaði, enda séu hækkanir og leiðréttingar byggðar inn í kerfið.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga