Orkuveitan vill fá einkafjárfesta inn í ljósleiðarkerfið

Nýfrjálshyggjan 3. okt 2022

Borgarstjórn hefur samþykkt óskir stjórnenda Orkuveitunnar um að fá einkafjárfesta inn í dótturfélagið Carbfix, sem fangar koldíoxíð úr andrúmsloftinu og dælir því niður í jörðina. Nú vilja stjórnendur Orkuveitunnar taka næsta skref og fá einkafjárfesta inn í grunnnet ljósleiðarans.

Þetta kemur fram í fjárhagsspá OR-samstæðunnar 2023-2027 sem stjórn félagsins hefur samþykkt, þar sem meirihlutaflokkarnir hafa meirihluta. Það má því ætla að samþykktin sé gerð með samþykki flokkanna í meirihlutanum.

Um Ljósleiðarann segir í fjárhagsspánni: „Ljósleiðarinn hefur leitt uppbyggingu öflugra heimilistenginga fjarskipta hér á landi og á síðustu misserum brugðist við breyttum aðstæðum á fjarskiptamarkaði með aukinni áherslu á þjónustu við fjarskiptafyrirtæki. Uppbygging nýs landshrings fjarskipta er þáttur í þeirri aðlögun. Fyrir liggja hugmyndir um að fjármagna þessa og aðrar nauðsynlegar fjárfestingar með auknu hlutafé í fyrirtækinu. Hömlur eru á því að OR leggi það til. Því er í spánni gert ráð fyrir aukningu hlutafjár með aðkomu annarra fjárfesta en OR, fáist til þess heimild eigenda OR.“

Spáin gerir ráð fyrir að um 40 milljarðar króna verðir sóttir í nýtt hlutafé inn í Carbfix og um 10 milljarðar króna inn í ljósleiðarann. Stjórn Orkuveitunnar er því með plön um að einkafjárfestar kominn inn í þessi dótturfyrirtæki sín með um 50 milljarða króna og eignist hlut sem því nemur.

Carbfix er áhættu- og nýsköpunarfyrirtæki byggt á tilgátum og tækni sem reiknað er með að hægt sé nota á stórum skala víða um heim. Ljósleiðarinn heldur hins vegar utan um grunn-fjarskiptakerfi landsmanna. Stjórnendur Orkuveitunnar eru að leggja til að það kerfi verði einkavætt að hluta.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí