Rishi Sunak að verða leiðtogi yfir sundruðum Íhaldsflokki

Ef Penny Mordaunt nær ekki meðmælum hundrað þingmanna fyrir klukkan eitt verður Rishi Sunak sjálfkjörinn leiðtogi Íhaldsmanna og þar með forsætisráðherra. Boris Johnson hætti við framboð þar sem flokkurinn er sundraður og engu hægt að ná í gegnum þingið. Og það er einmitt hin vonlausa staða sem Sunak fær í fangið.

Rishi Sunak varaði við efnahagsstefnu Liz Truss í formannskjörinu í haust, sagði þetta óskhyggjuhagfræði sem fyrir löngu hefði verið sannað að virkaði alls ekki. Sem reyndist auðvitað raunin. Hann ætti því að njóta I-told-you-so-augnabliksins. En vandinn er að enginn vill hlusta á I-told-you-so-manninn.

Stærsti hluti þingmanna fagnaði endurkomu nýfrjálshyggju Margaret Thatcher og kjarni flokksins kaus Lis Truss einmitt til að koma henni á. Þótt Sunak hafi notið meira trausts í þingflokknum en Truss þá malaði hún kosningarnar meðal almennra flokksfélaga, sem flestir eru á eða við eftirlaunaaldurinn. Það fólk vildi hina gömlu góðu daga aftur, sem það hefur selt sér að Thatcher-tíminn hafi verið, þótt sá tími sé í reynd niðurbrotstími þangað sem rekja má margt af þeim meinum sem eru að slíta breskt samfélag í sundur.

Sunak þarf nú að mæta þessu fólki sem hafði svo afgerandi rangt fyrir sér og helst tala um eitthvað allt annað til að særa ekki stolt þess. Og þar með ekki ræða mein flokksins, sem hangir nú helst saman á úreltri hugmyndastefnu nýfrjálshyggjunnar, uppblásnum enskum rembingi sem er arfur frá nýlendutímanum, tignun stéttaskiptingar og andúð á útlendingum. Íhaldsflokkurinn er eins og Repúblikanaflokkur Trump að þessu leiti. Munurinn er auðvitað að Sunak er ekki Trump, frekar eitthvað í líkingu í Mitt Romney. Eins og Romney er Sunak vellauðugur. Konan hans er svo rík að hún skráir sig að hálfu ekki til heimilis í Bretlandi til að losna undan sköttum.

Ef Penny Mordaunt nær að safna 100 meðmælum munu almennir flokksmenn kjósa á milli hennar og Sunak. Þá mun koma í ljós hvort indverskur uppruni Sunak fellir hann. Íhaldsmenn hafa þrívegis kosið sér konu sem leiðtoga meðan Verkamannaflokkurinn hefur aldrei gert það. En það er ekki þar með sagt að almennir flokksfélagar séu tilbúinn að kjósa litaðan mann eða konu sem leiðtoga. Ef Mordaunt nær ekki kjöri mun það ekki koma í ljós að sinni.

Annað sem gæti unnið gegn Sunak er að hann er maðurinn sem felldi Boris Johnson. Þótt meirihluti þingflokksins hafi fellt Boris þá var kveikjan afsögn Sunak sem fjármálaráðherra. Og það er nánast regla í breskum stjórnmálum að sá sem hefur árásina á leiðtogann fær enga vegsemd fyrir. Slíkir menn eru eins og böðlar, vinna þarft verk en án alls sóma. Ef Sunak verður valinn er hann undantekningin frá þessari reglu.

Það er því margt sem vinnur gegn Rishi Sunak. Þegar Boris Johnson gaf frá sér að taka þátt í leiðtoigakjörinu sagði hann flokkinn óstarfhæfan vegna sundrungar. Boris sagðist geta unnið leiðtogakjörið en eftir að hafa kannað málið, meðal annars með samtölum við Sunak, hafi hann séð að ekki væri hægt að sameina flokkinn. Hann sjálfur væri eini maðurinn sem mögulega gæti það, maðurinn sem færði flokknum stórsigurinn fyrir þremur árum, en hann hafi séð að ekki einu sinni hann myndi ná þingmönnum saman á þessari stundu svo hægt væri að ná nokkru í gegn.

Ef við gefum okkur að greining Boris sé rétt er staða Sunak hálf vonlaus. Hann mun illa geta sameinað flokkinn. Hann á ekki kosningasigurinn frá 2019, það eina sem flokksmenn allir horfa til með stolti. Gagnvart nýfrjálshyggjuliðinu er hann sá sem opinberlega hefur hafnað Thatcherismanum. Gagnvart aðdáendum Boris er hann maðurinn sem stakk Boris fyrstur allra í bakið. Gagnvart öldruðum þjóðernissinnum er hann brúnn. Gagnvart íhaldssamri millistétt er hann ekki einn af þeim heldur auðugur maður sem kvæntist til enn meiri auðs.

Það er því ekki að undra að rætt sé um endalok Íhaldsflokksins í Bretlandi. Eina leiðin til að bjarga flokknum er að sameina ólíka arma hans undir einum fána. Sá fáni er ekki til og engin sátt um hver mætti halda honum á lofti.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí