Segir engan vinstrimann á Alþingi

Það eru engar líkur á myndun vinstri stjórnar á Íslandi. Til að mynda vinstri stjórn þarf vinstrimenn á þingi. En það er enginn vinstrimaður á Alþingi í dag, fullyrti Ögmundur Jónasson í helgi-spjallinu við Rauða borðið. Á þingi eru mál aldrei rædd út frá neinu sem kalla mætti sósíalisma eða raunverulega vinstristefnu.

Kvaðst hann hafa verið þeirrar skoðunar á tíunda áratugnum, þegar mikið var rætt um að sameina vinstrimenn, að það ætti að gera með samstarfi milli flokka sem hver hefði sínar áherslur. Og þeir flokkar mættu verða til og síðan deyja þegar þeir hefðu ekki lengur neinn hugsjónaeld.

Og Ögmundur vitnar í sjálfan sig þegar hann segir að þegar ekkert vinstri né grænt sé eftir í Vinstri hreyfingunni grænt framboð, stendur eftir Hreyfingin framboð. Sem skammstafa mætti sem HF.

Ögmundur var að gefa út endurbætta útgáfu af Rauða þræðinum, pólitískri uppgjörsbók sem hann gaf út í fyrra. Hann segir sinn rauða þráð ofinn úr sósíalisma, anarkisma og frelsi einstaklingsins. Frá sósíalismanum kemur krafan um jöfnuð, frá anarkismanum andspyrna gegn valdinu og frá frelsi einstaklingsins, eins og John Stuart Mill fjallaði um frelsi, krafan um að fá að hegða lífi sínu eftir eigin höfði þegar það skaðaði ekki náungann.

Í viðtalinu er farið yfir þætti í baráttusögu Ögmundar sem tengist þessu öllu. Hann var einn af hvatamönnum að stofnun Sigtúnshópsins, þverpólitískra grasrótarsamtaka sem andmæltu hækkun húsnæðiskostnaðar þegar klippt var á víxlverkun launa og verðlags, með þeim afleiðingum að verðlagið hélt áfram að hækka og þar með vísitalan sem hækkaði lánin á meðan launin, kaupmátturinn og greiðslugetan sat eftir. Síðar varð Ögmundur formaður Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins og BSRB, þingmaður Alþýðubandalagsins og óháðra og þingmaður Vg og ráðherra.

Í dag vill Ögmundur vera úti á götunni, fjarri þingflokksherbergjum og öðrum bakherbergjum valdsins. Hann segir mikla þörf fyrir viðspyrnu og vakningu almennings gegn þeim breytingum á samfélaginu sem verið væri að troða upp á fólk.

Ögmundur ræðir um vaxandi afl alþjóðaauðvaldsins á tíma alþjóðavæðingar og nýfrjálshyggju. Á tíunda áratugnum reyndi Ögmundur að benda á þessa hættu meðan hann var formaður BSRB. Samtökin héldu þá úti öflugu starfi til að andæfa þróuninni og draga hingað heim umræðu um þá hættu sem fælist í þeim alþjóðasamningum sem þá var verið að semja um og þeim breytingum sem urðu á Evrópusambandinu á sama tíma. Ef ekki væri fyrir þessa miklu baráttu væri ástandið orðið enn vera en þó er. Barátta skili alltaf árangri. Alltaf.

Það er á þessum grunni sem Ögmundur barðist gegn orkupökkum Evrópusambandsins, sem meðal annars hafa leitt til þess að Reykjavíkurborg má ekki fá rafmagnið sem borgin býr til í í fyrirtæki sínu Orkuveitunni, heldur verður að kaupa það af N1 sem leggur á það álag til að greiða eigendum sínum arð.

Og dæmin eru miklu stærri og verri. Það er í gangi fullveldisbarátta þar sem almenningur glímir við vel skipulagt alþjóðlegt auðvald sem náð hefur undir sig flestum alþjóðlegum stofnunum og hefur fengið kjörna fulltrúa til að aðlaga alla alþjóðlega samninga að sínum þörfum og hagsmunum.

Þetta er ekki þjóðernisleg fullveldisbarátta um Íslandi allt né að við eigum að loka okkur af í okkar litla samfélagi. Ögmundur segist vera svo mikill alþjóðasinni að hann hafni aflokun Evrópusambandsins, sem læsir að sér fyrir öllu öðru en auðvaldinu. Það sé aufúsugestur í Brussel. Baráttan snýst um hver eigi að geta byggt upp samfélagið og mótað það; almenningur með lýðræði eða auðvaldið í krafti auðs, reglna og samninga sem segja rétt þess meiri en almennings, að það geti tekið yfir stærri og stærri hluti samfélagsins.

Það var á þessum grunni sem Ögmundur var á móti Icesave-samningnum og barðist gegn honum inn á þingi. Og hann lagði til sem formaður BSRB við Hrunið 2008 að lánskjaravísitölunni yrði kippt úr sambandi á sama tíma og Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ hafnaði því alfarið, vildi verja lífeyrissjóðina og þar með fjármálakerfið.

Ögmundur fékk sitt fram varðandi Icesave þegar þjóðin hafnaði samningunum í þjóðaratkvæðagreiðslu og Efta-dómstóllinn dæmdi Íslendingum í vil. En Gylfi fékk sitt fram varðandi vísitöluna. Og varð Ögmundur þó ráðherra í ríkisstjórninni sem tók við Hruninu, fyrstu hreinu vinstristjórn Íslandssögunnar. Stjórn sem hefur fengið vond eftirmæli og fáir verja.

Og Ögmundur gerir það ekki. Hann bendir að vísu á nokkur
mikilvæg og góð mál sem náðust fram en segir að stjórninni hafi mistekist að vinna með almenningi að þeim róttæku samfélagsbreytingum sem krafa var um í samfélaginu. Og veltir fyrr sér hvað veldur, hvort vinstrafólki vanti staðfestu þegar það fær völdin að fylgja eftir stefnu sinni, sem í öllum stærri málum er samhljóða vilja mikils meirihluta almennings. Hægrið kemur sínum málum í gegn þótt stefna þess í svo til öllum málum sé öndverð við vilja almennings. Og þegar vinstrið kemst til valda þá hefur það oft og iðulega tekið upp þráðinn frá hægrinu.

Þetta er auðvitað harmleikur Vg. Eina móteitrið er vakandi og öflug hreyfing almennings. Án slíkrar hreyfingar er hætt við að forysta verkalýðshreyfingarinnar og vinstriflokka verði samdauna valdinu. Vinstri stjórnin eftir Hrun náði fyrst að stjórna í takt við öfluga sjálfsprottna og virka grasrótarhreyfingu almennings en þegar á leið þvarr henni erindið.

Sú reynsla er meðal annars ástæða þess að Ögmundur vill vera fyrir utan valdið og reyna að hafa áhrif með skrifum, fundum og þátttöku, leggja sitt til þess að hér vakni upp öflug hreyfing almennings.

Í spilaranum hér að ofan má sjá og heyra viðtalið við Ögmund. Því miður vantar smá bút framan við þar sem Ögmundur rifjar upp þegar hann hóf störf á Ríkisútvarpinu. Þar var Emil Björnsson fréttastjóri, prestur og réttlætissinni sem meðal annars barðist fyrir því á sínum tíma að þeir menn sem ákærðir voru fyrir að mótmæla inngöngu Íslands í Nató á Austurvelli 1949 yrðu sýknaðir. Meðal þeirra voru Stefán Ögmundsson, móðurbróðir Ögmundar og afi Drífu Snædal, og Jón Múli Árnason, faðir Sólveigar Önnu Jónsdóttur, og starfsfélagi Ögmundar á Ríkisútvarpinu. Ögmundur segist bera mjög hlýjan hug til þeirra beggja og finnst sárt að þær geti ekki barist saman í dag. Hann trúir að sá tími komi.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí