Bubbi Morthens lýsti í Helgi-spjalli við Rauða borðið þeim áhrifum sem kynferðisofbeldi hafði á hann sem barn og fram eftir allri ævi. Hann réð ekki við nánd og gat ekki tengst konum. Það var ekki fyrr en Bubbi hitti ofbeldismanninn í fyrra að hann varð frjáls, heill á ný. Eftir langa lífsglímu þar sem Bubbi hefur barist við allskyns andstæðinga, mest innra með sér, segist hann loks orðinn sáttur og frjáls.
Í dag eru þrjú ár síðan 9líf voru frumsýnd. Í viðtalinu lýsir Bubbi hvernig uppfærslan reyndist heilandi fyrir sig og fjölmarga aðra. Hann var reglulega skeyti frá fólki, ekki síst körlum, sem segjast í fyrsta sinn geta rætt um og tekist á við ofbeldið og áföllin sem þeir urðu fyrir sem börn.
Í viðtalinu ræðir Bubbi um ólíka Bubba í sýningunni, þá ólíku Bubba sem hann hefur verið. Fátækur Bubbi sem barn, skrifblindur og forsmáður. Bubbi með kassagítar sem loks fær einhverja viðurkenningu í skóla í Danmörku, kókaín-Bubbi, bólu-Bubbi og allir þeir Bubbar sem bærast innra með honum.
Bubbi segir frá fólkinu sínu, hverfinu, uppvextinum en hann segir líka frá jafnaðarmanninum Bubba sem þolir ekki óréttlætið í samfélaginu og þá græðgisfíkn sem hefur heltekið þær fáu fjölskyldur sem eiga í raun Ísland.
Viðtalið má sjá og heyra í spilarnum hér að ofan.