Íbúar í Kópavogi gagnrýna harðlega hvernig standa á að uppbyggingu miðbæjarins við Hamraborg. Gagnrýnin snýr að því að skipulagið þjóni verktökum frekar en íbúum og að bærinn moki fé í einkafyrirtæki. Kópavogsbær seldi t.d. hús til verktaka og leigir til baka fyrir svo háa leigi að bærinn endurgreiðir kaupverðið á átta árum.
„Við lýsum því yfir að sagan um sölu eigna og gerð skipulags í miðbæ Kópavogs gefi tilefni að spyrja hverjum bæjaryfirvöld í Kópavogi hafi fyrst og fremst verið að þjóna; bæjarbúum eða fjárfestum? Við teljum okkur hafa fært sterk rök fyrir því að fjárfestar hafi verið í fyrirrúmi. Við erum ekki einir um þá skoðun og má jafnvel fullyrða að niðurstaða síðustu bæjarstjórnarkosninga sé til vitnis um það,“ skrifa þeir Tryggvi Felixson og Hákon Gunnarsson í Kópavogsblaðið í dag.
Og þeir taka dæmi: „Bæjarstjóri staðfestir að Kópavogsbær seldi eignir sínar fyrir 1.050 milljónir króna. Það þýðir samkvæmt útreikningum á fermetraverði að Árkór reiddi fram 303 milljónir fyrir eignina Fannborg 6. Fjárfestirinn hefur fram til þessa fengið 200 miljónir króna úr bæjarsjóði sem leigugreiðslu fyrir eignina skv. yfirliti frá bæjaryfirvöldum. Með sama framhaldi tekur það Árkór ehf. 8 ár að borga eignina upp að fullu með leigugreiðslum úr bæjarsjóðnum sem seldi fyrirtækinu eignina. Nánast allt viðhald á eigninni er á kostnað Kópavogsbæjar ef marka má samninga sem við höfum undir höndum.. Þetta teljum við gagnrýnisverð vinnubrögð sem nýir bæjarfulltrúar þurfi að draga lærdóm af.“
Og annað: „Bæjarstjóri staðfestir að Kópavogsbær hefur tekið gamla félagsheimilið (Fannborg 2) að leigu fyrir skólabörn. Það gleður okkur gamla Kópavogsbúa að enn skuli vera not fyrir þetta söguríkasta hús Kópavogs sem áformað er að rífa. Einnig gleður að ástand húsnæðisins skuli vera svo gott að öllum líði þar vel. Í þessu ljósi er óskiljanlegt að bæjaryfirvöld hafi í upphafi síðasta kjörtímabils fallist á að lækka fasteignagjöld nýs eiganda um 6 milljónir kr. á ári með því að samþykkja að húsið væri á fokheldisstigi. Við þá ákvörðun varð bæjarsjóður af um 6 milljónum króna í fasteignagjöld á ári. Á kjörtímabili gera það 24 milljónir króna. Við höfum lengi leitað haldbærra skýringa á þessari ákvörðun, án árangurs. Bæjarstjórinn bætir því miður ekki úr því. Fullyrðing um að fokheldisvottorð hafi verið gefið út vegna þess að húnsæðið var ekki í notkun, er ekki rétt. Allir sem gengið hafa um miðbæjarsvæði Kópavogs undanfarin ár vita betur. Nægir að nefna verkfræðistofuna Örugg og hinn vinsæla sjónvarpsþátt Verið. “
Og enn annað: „Það er athyglisvert að bæjarstjóri réttlætir framangreindan fjármálagjörning með því að upplýsa að mánaðarleiga á Fannborg 6 sé næstum hin sama og Kópavogsbær greiddi áður í Eignasjóð Kópavogsbæjar. Þetta eru ekki boðleg rök. Það var tilfærsla úr bæjarsjóði til Eignasjóðs sem fer með fasteignir og viðhald fasteigna Kópavogs. Eignirnar á Fannborg 2,4 og 6 eru horfnar af efnahagsreikningi Kópavogsbæjar og greiðslur fyrir leigu þeirra eru til utanaðkomandi fjárfesta.
Það kemur fram í athugasemdum bæjarstjóra að 670 milljónir hafi verið settar í „viðhald“ á Fannborg 2. Sex hundruð og sjötíu milljónir í viðhald á sömu eign og er síðan úrskurðuð „fokheld“ árið 2019. Hvernig er slíkt hægt? Fyrir þessa upphæð hefði verið auðvelt að byggja frá grunni nýtt ráðhús sem hefði nýst fyrir alla starfsemi bæjarins. Þetta er annað dæmi um að bæta þarf „fjármálastjórn“ í Kópavogi sem bæjarstjóri dregur sjálf fram. Hefði ekki farið betur á að byggja gott ráðhús í bæjarlandinu fyrir þennan 0,7 milljarð sem fór í gagnslaust viðhald á gamla Kópavogsbíói, sem á að rífa?“
Myndin er af ráðagerðum byggingum í Hamraborg.
Rætt var við Tryggva Felixson við Rauða borðið um þetta mál. Það má sjá og heyra viðtalið í spilaranum hér að ofan.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga