„Verðbólga síðustu missera er því fyrst og fremst vandamál tekjulágra, þar sem þeir eyða stærstum hluta tekna sinna í neyslu. Það er því ekki nema tímaspursmál fyrr en nýlegar verðhækkanir fari virkilega að bíta hjá þeim sem minnst mega sín. Ef stjórnvöld vilja lágmarka áhrif verðbólgunnar á fólkið í landinu ættu þau að einblína á tekjulægstu hópana,“ segir Jónas Atli Gunnarsson hagfræðingur.
Jónas Atli mætti við Rauða borðið í gærkvöldi og ræddi m.a. efnisatriði greinar sem hann ritaði á Kjarnann: Boltinn er hjá stjórnvöldum. Þar bendir hann á að vegna þess hversu stór hluti tekna láglaunafólks fer í neyslu þá bíti verðbólgan það fólk fyrst.
Jónas Atli bendir á að þar sem verðbólgan herjar ólíkt á tekjuhópa og harðast á þau sem hafa minnstar tekjur sé óraunhæft að ætla að launahækkanir geti bætt skaðann sem verðbólgan veldur. Hækka þyrfti laun lágtekjuhópa mikið og hætt væri við að sú hækkun færðist upp launastigann og gæti þá enn aukið verðbólgu. Skynsamlegra væri fyrir stjórnvöld að grípa til sértækra aðgerða í gegnum bætur skattkerfisins til að bæta hinum tekjulágu verðbólguna.
Og setja á móti á hvalrekaskatt á þær atvinnugreinar sem njóta nú hærri tekna og betri afkomu, ekki síst útgerðar og fjármálafyrirtækja.
„Hér á landi hafa sumir atvinnuvegir grætt mun meira en aðrir vegna utanaðkomandi aðstæðna,“ segir Jónas Atli og vísar til greinar Gylfa Zoega í Vísbendingu í byrjun mánaðarins þar sem Gylfi sýndi fram á að Úkraínustríðið og verðbólgan sem henni fylgir hafi bætt viðskiptakjör hérlendis, þar sem verð á útfluttum sjávarafurðum hefur hækkað. Þannig hafi styrjöldin orðið til þess að flytja tekjur frá neytendum til sjávarútvegsfyrirtækja, samkvæmt Gylfa.
„Fjármagnseigendur hafa einnig hagnast mikið á því efnahagsumhverfi sem heimsfaraldurinn bjó til síðustu tvö árin,“ segir Jónas Atli. ASÍ benti á það í síðustu mánaðarskýrslunni sinni ójöfnuður jókst hér á landi í fyrra vegna mikillar aukningar í fjármagnstekjum.
Heyra má og sjá viðtalið við Jónas Atla í spilarnum hér að ofan.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga