Stýrivextir í Evrusvæðinu hækka í 1,5%

Tilkynnt hefur verið um hækkun stýrivaxta Evrópska seðlabankans úr 0,75% í 1,5%. Ársverðbólgan á evrusvæðinu er nú 10,9%. Til samanburðar er verðbólgan á Íslandi með sömu mælistiku 5,9% en stýrivextir 5,75%.

Eins og fram hefur komið á Samstöðinni er verðbólgan mjög mismikil milla landa innan evrunnar. Hún er rúm 6% í Frakklandi en yfir 20% í Eystrasaltslöndunum, svo dæmi séu tekin. Meginástæða verðbólgunnar er hækkun orkuverðs vegna stríðs Úkraínu og viðskiptaþvingana tengdu því. Verðbólgan er hæst í þeim löndum sem minnstar bjargir hafa í orkumálum. Þannig er verðbólgan 17% í Hollandi en aðeins 6% rétt sunnar, í Frakklandi þar sem mikil og öflug kjarnorkuver eru starfrækt.

Hér má sjá samanburð á verðbólgu á evrusvæðinu og Íslandi frá ársbyrjun 2005, mælt á samræmdan máta og án húsnæðisliðs. Þarna sést að litla Íslandskreppan 2006 bjó til verðbólguskot vegna gengisfalls og síðan Hrunið 2008. En síðan ferðamannasprengjan byrjaði að hafa viðvarandi áhrif um 2014 hefur verðbólga á Íslandi verið viðlíka og oft lægri en á evrusvæðinu.

Verðbólga byrjaði að hækka hér fyrr við fall WOW 2019 en hefur verið lægri síðustu tólf mánuði.

Samt eru stýrivextir hér mun hærri en í Evrópu. Réttlætingin fyrir því er að hér er atvinnuleysi minna og hagvöxtur meiri, það er meira eldsneyti fyrir verðbólguna en í Evrópu þar sem er efnahagsleg stöðnun og umtalsvert atvinnuleysi.

Þetta er rök Seðlabankans. Gagnrýnendur benda á að hann sé að glíma við mælda verðbólgu þar sem eignahækkun á fasteignamarkaði og innflutt verðbólga ræður mestu, annars vegar sjálfsakparvíti bankans sjálfs og síðan það sem hann ræður ekkert við. Vandinn á húsnæðismarkaði er skortur á framboði. Kæfing eftirspurnar með hækkun vaxta mun stöðva verðhækkun á íbúðum en ekki samt tryggja fleirum húsnæði.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí