„Fulltrúaráð Sameykis mótmælir sveltistefnu ríkisstjórnarinnar sem er til þess ætluð að opna fyrir einkavæðingu grunnstoða velferðarsamfélagsins,“ segir í nýrri ályktun fulltrúaráðsins. Tilefnið er einkavæðing Vífilsstaða.
Fulltrúaráðið ályktaði í gær um einkavæðingu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í heilbrigðiskerfinu. Skorað er á stjórnvöld að efla heilbrigðiskerfið og krefst þess að að ríkisstjórnin snúi af sveltistefnu sinni svo einkavæða megi grunnþjónustuna. Einnig krefst fulltrúaráðið þess að íslenskt heilbrigðiskerfi sé aðgengilegt öllum án tillits til greiðslugetu eða efnahags, enda ber að fjármagna heilbrigðiskerfið úr sameiginlegum sjóðum allra landsmanna.
Tilefnið er einkavæðing Vífilsstaða sem Kristófer Ingi Svavarsson trúnaðarmaður Sameykis hefur skrifað um nokkrar mergjaðar greina, sjá t.d. hér: Hægri stjórn ríkir fyrir þá sem vilja hámarksávöxtun af braski sínu.
Ályktunin er svona: „Fulltrúaráð Sameykis mótmælir harðlega einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðiskerfinu. Á fundi með starfsfólki Vífilsstaða tilkynnti Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs spítalans, að samið hefði verið um yfirtöku Heilsuverndar, einkarekins fyrirtækis í heilbrigðisþjónustu, á rekstri Vífilsstaða. Ekki er langt síðan Heilsuvernd tók yfir rekstur á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafði sagt að heilbrigðisstofnunin á Vífilsstöðum yrði ekki einkavædd. Fulltrúaráð Sameykis gagnrýnir harðlega ríkisstjórnina að ganga á bak orða sinna og næra stefnu frjálshyggjunnar sem birtist í að fjársvelta heilbrigðisstofnanir. Markmið ríkisstjórnarinnar er klárt; að einkavæða opinberar stofnanir með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir skjólstæðinga stofnananna og starfsfólk þeirra.
Fulltrúaráð Sameykis mótmælir sveltistefnu ríkisstjórnarinnar sem er til þess ætluð að opna fyrir einkavæðingu grunnstoða velferðarsamfélagsins. Mikill meirihluti landsmanna vill að heilbrigðisþjónustan sé alfarið í opinberum rekstri og hafnar aukinni einkavæðingu. Aukin einkavæðing mun einungis skila dýrari þjónustu fyrir allan almenning, sem hafður verður að féþúfu fyrir arðsemisfreka einkaaðila.
Fulltrúaráð Sameykis skorar á stjórnvöld að efla heilbrigðiskerfið og snúa af leið einkavæðingarinnar. Fulltrúaráðið krefst þess að íslenskt heilbrigðiskerfi sé aðgengilegt öllum án tillits til greiðslugetu eða efnahags, enda ber að fjármagna heilbrigðiskerfið úr sameiginlegum sjóðum allra landsmanna. Undirfjármögnun heilbrigðiskerfisins er staðreynd, enda útgjöld til málaflokksins hlutfallslega lægst á Íslandi af öllum Norðurlöndunum og vanfjármögnun heilbrigðiskerfisins þarf að stöðva án tafar.“