Tímabært að Reykjavík segi sig úr Strætó bs

Pétur Karlsson vagnstjóri hjá Strætó bs og trúnaðarmaður Sameykis á vinnustaðnum telur að tímabært sé að Reykjavík fari að skoða hug sinn alvarlega og dragi sig úr byggðasamlagi Strætó. Hann hefur keyrt Strætisvagna í yfir 25 ár og tekur eftir mikilli hnignun á leiðarkerfi, vagnaflota og þjónustu strætó. „Þessi mannlegi þáttur sem að var og sem hafði jákvæð áhrif á farþega er ekki til staðar lengur.“

Pétur hefur keyrt strætisvagna frá því árið 1997 þegar Reykjavíkurborg rak sitt eigið strætófélag, Strætisvagna Reykjavíkur (SVR). Árið 2001 gekk það félag inn í Strætó bs, byggðasamlag sem stofnað var af sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins til að reka sameiginlegan strætó. Ekki er einhugur um ágæti byggðasamlagsins sem hefur orðið fyrir mikilli gagnrýni vegna skerðingar á þjónustu, hækkandi gjaldskrár og krafna um “hagræðingu í rekstri”. 

Endurskoðun á byggðasamlaginu nauðsynleg

Hann segir tímabært að endurskoða byggðasamlagið og að jafnvel sé tímabært að Reykjavík dragi sig úr því. Millistjórnendum hafi fjölgað en vögnum og leiðum fækkað á sama tíma. Ánægja með þjónustuna sé í molum og strætó sé talaður niður af þeim sem reka hann.

„Hvað mig varðar, þá hefði ég talið orðið tímabært að það yrði endurskoðun á þessu byggðasamlagi og Reykjavík fari að skoða hug sinn alvarlega, að jafnvel taka sitt út fyrir sviga og verði bara sér. Þegar ég byrja hjá SVR (Strætisvagnar Reykjavíkur) þá voru átta millistjórnendur með framkvæmdastjóra. Það hefur töluvert breyst og innviðurinn stækkað. Á sama tíma fækkar vögnunum og leiðunum. Við vorum með 12-13 leiðir 2010 og svo hefur þeim fækkað niður í sjö og vagnaflotinn telur um 75 vagna,“ sagði Pétur, og tók fram að fjöldi vagna hafi áður verið í kringum 100 þegar SVR var og hét. 

Pétur lýsir hrörnun þjónustunnar síðustu árin. Segir að á síðustu sjö árum hafi þjónustustigið legið niður á við.

„Það er engin aðstaða fyrir farþega til að bíða inni eftir vögnunum. Það eru engar sérstakar miðasölur eftir eins og var. Það er enginn munnleg þjónustu. Þjónustan sem þú sækir í dag er aðallega í gegnum app. Þessi mannlegi þáttur í þessu sem að var, og sem hafði jákvæð áhrif á farþega er ekki til staðar lengur. Það sem snýr að akstrinum sjálfum, við erum með lélega vagna orðið og þreytta. Það fæst ekki fjármagn í endurnýjun og svo bara öll þessi umræða um Strætó, þ.e.a.s. opinbera hlutann”. Þar vísar hann til stjórnenda sem honum finnst tala niður strætó. “Strætó er svolítið talaður niður af þeim sem reka hann. Það er stóra málið í dag finnst mér.“

Farþegi tekur í sama streng

Sturla Freyr Magnússon hefur verið farþegi strætó í yfir 20 ár og fer allar sínar ferðir með strætó. Hann varð að hætta við að taka bílpróf í kreppunni 2008 og fer allar sínar ferðir með strætó. Sturla tekur undir með Pétri að þjónusta strætó hafi versnað síðan hann byrjaði fyrst að taka hann.

„Það er varla hægt að setja þetta í samanburð lengur. Það er ekkert fólk sem maður getur lengur talað við ef það er eitthvað sem bjátar á. Ég lenti einmitt í því um daginn að ég var að bíða eftir strætó sem var orðinn seinn, þannig að ég kíki í gamla appið til að sjá hvar hann er og hann er hvergi. Hann er ekki í appinu. En hann kemur samt á endanum tíu mínútum seinna. En af því að ég er ekki að taka strætó á skrifstofutíma þá get ég ekki einu sinni reynt að hringja í þjónustuverið. Ég þarf bara að vona að mælirinn í strætónum sé bilaður og að hann komi á endanum.“

Sturla hefur tekið strætó í yfir 20 ár og fer allar sínar ferðir með honum

Klapp annað dæmi um þjónustu sem skilar sér ekki

Bæði Pétur og Sturla eru sammála um að Klapp appið hafi ekki verið að virka. Sturla segir að farþegar þurfi oft að bíða lengi í röð fyrir utan strætó því það taki svo langan tíma að stimpla sig inn með því.

„Vandamálið við þetta Klapp app er það að eina sem þú getur gert er að borgar. Vandinn er að það tekur svo langan tíma að skanna þetta inn. Við bíðum því lengur úti í röðinni þegar það er mest að gera. Við getum getum ekki fundið hvar vagnarnir eru, við getum ekki leitað eftir ferðum nema að við séum með gamla appið,“ segir Sturla.

Segja ríkið hafi svikið loforð

Pétri finnst umræðan um strætó vera orðin skrítin. Hagfræðin sé undarleg og þeir sem fari með málefni strætó séu að sýna virkilegt ábyrgðarleysi.

„Þegar að heimsfaraldurinn byrjar að þó dró Strætó úr þjónustunni fyrstu vikurnar og misserin. Eðlilega fækkaði farþegum í samræmi við faraldurinn og fargjalda innkoma varð mjög lítil. Strætó átti þá í sjóði 600 milljónir sem voru ætlaðar til vagnakaupa. Þeir þurftu að fara að ganga á þennan sjóð til að halda rekstrinum áfram. Ríkið hafði lofað tæpum milljarði rétt áður en faraldurinn byrjaði, en það komu bara 120 milljónir. Börnum yngri en 11 ára er síðan gefið frítt í strætó en sveitarfélögun juku ekki framlagið í það sem gengið var á tekjustofninn. Svo koma kosningar í vor og næturstrætó settur á í sumar. En Strætó þurfti að fjármagna þetta allt innan frá. Strætó er því alltaf með höfuðstól sem er verið að ganga á en fær ekkert á móti. Mér finnst þetta ábyrgðarlaust, virkilega ábyrgðarlaust bæði gagnvart starfsmönnum og svo bitnar þetta á farþegum í leiðinni.“

Hvorki samráð við farþega né vagnstjóra

Bæði Pétur og Sturla svara afdráttarlaust þegar þeir eru spurðir hvort eitthvað samráð hafi verið við farþega og vagnstjóra um mótun leiðarkerfisins. 

„Nei,“ segja þeir báðir. Eins og fram hefur komið er Pétur trúnaðarmaður Sameykis fyrir vagnstjóra. Hann segir að allir þeir vagnstjórar sem hann hafi rætt við séu með sömu gagnrýni og hann á strætó. Það er því ljóst að mikil óánægja er með stöðuna. Í nýlegu viðtali við framkvæmdastjóra Strætó er talað fyrir enn frekar útvistun. Ólíklegt má telja að þær fyrirætlanir komi til með að auka ánægju með fyrirkomulag Strætó bs. 

Viðtalið við Pétur Karlsson og Sturlu Frey Magnússon má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí