„Satt best að segja hélt ég ekki að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur myndi ganga svo blygðunarlaust á bak orða sinna! En á fundinum var starfsfólki tilkynnt að samið hefði verið um yfirtöku Heilsuverndar, einkarekins fyrirtækis í heilbrigðisþjónustu, á rekstri Vífilsstaða,“ skrifar Kristófer Svavarsson, trúnaðarmaður Sameykis á Vífilsstöðum, eftir fund með stjórnendum spítalans þar sem einkavæðingin var kynnt.
Kristófer segir að Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs spítalans, hafi mætt á fundinn til að segja frá þessu og voru sýnilega slegin.
„Þetta kom flatt upp á alla,“ skrifar Kristófer. „Engin útboðsauglýsing hafði verið birt eftir að sú gamla, með ítrekuðum tilboðsfresti, rann út. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur semur sem sé við Heilsuvernd um yfirtöku Vífilsstaða útboðslaust (í einu af þessum frægu reykfylltu bakherbergjum?). Og án nokkurs samráðs við stjórnendur og starfsmenn Landspítalans. Er það löglegt? Eða bara siðlaust?“
Kristófer rifjar upp að þann 16. maí síðastliðinn hafi starfsfólk Vífilsstaða verið boðað á mikilvægan fund í hátíðarsal sjúkrahússins. Þar var tilkynnt, klippt og skorið, að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, hefði ákveðið að bjóða út, eða einkavæða, þá starfsemi sem væri í húsinu. Nýir rekendur tækju við í haust eða um áramót.
Föstudaginn 2. september var svo starfsfólk Vífilsstaða enn boðað á fund um rekstur og framtíð þeirra. Á fundinum var mönnum tjáð að ekkert yrði úr áformum um að bjóða út þá starfsemi sem þar færi fram um „fyrirsjáanlega framtíð“. Engin skýring var gefin á þessari kúvendingu. Í Vísi sagði heilbrigðisráðherra ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur svo 6. september að ekkert yrði „úr þessu á þessu ári.“
Á þriðja fundinum var svo tilkynnt um kúvendingu númer tvö. Stjórn Landspítalans fengi enga fjóra mánuði til að rýma húsið og flytja sjúklinga burt, eins og heitið hafði verið, heldur rúma tvo. Allir ættu að vera á bak og burt um áramótin. Hvert ættu þeir að fara? 15 kæmust sennilega á nýja öldrunardeild á Landakoti. Hvort hinir 30, allir með „gilt færni- og heilsumat“, fengju þá dvalarpláss á hjúkrunarheimili er óvíst. Þeim plássum fjölgar lúshægt!
Grein Kristófers má lesa hér: Vífilsstaðir og óheilindi ráðamanna.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga