Virði kvennastarfa lítið vegna þess að þau hafa verið ósýnileg

Kvenréttindi 7. okt 2022

„Virði kvennastarfa er eins og það er í dag því þau hafa verið ólaunuð í gegnum tímans rás. Þau hafa verið ósýnileg og ýmist verið unnin heima eða þegar karlarnir eru farnir úr vinnunni. Konurnar hafa lítið sést,“ sagði Sóley Tómasdóttir ráðgjafi á á fundi BSRB, BHM og KÍ í gær þar sem endurmat á virði kvennastarfa í gær.

Samkvæmt Sóleyju eru viðmið samfélagsins og gildi afleiðingar af uppeldi og sögu sem nær langt aftur í tímann og úr viðmiðum okkar og gildum verða til staðalímyndir. Almennt reyni fólk að brjóta þær, en einungis upp að vissu marki.

„Við reynum eftir fremsta megni að finna staðalímyndir. Við viljum ekki að börnin okkar verði „skrýtin“, svo við hvetjum þau til að fara ekki of langt frá því sem er „venjulegt“. Við hvetjum til dæmis strákana okkar ekki til að klæðast kjólum,“ segir Sóley.

Samfélagið enn að venjast því að greiða konum laun

Við lærum frá upphafi að það sé verðmætara að passa peninga en að passa börn og það sé skemmtilegra að horfa á karlafótbolta en kvennafótbolta. Við lærum í gegnum uppeldi okkar og menningu að hið karllæga er mikilvægara en það kvenlega. Samfélagið innrætir okkur að treysta körlum frekar en konum fyrir ákveðnum þáttum og finnast það sem konur gera síður merkilegt, sagði Sóley í erindinu.

Flestar kvennastéttir í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu eiga uppruna sinn að rekja til ólaunaðra starfa kvenna, þær voru heima með börnin, þrifu og önnuðust sjúka. Þau njóta minni virðingar en hefðbundin karlastörf og samfélagið er enn að venjast því að borga fyrir þau. Í dag fúnkerar samfélagið ekki án þessara starfa, segir Sóley.

Starfshópur leitar verkfæra

Þegar aðildarfélög BSRB undirrituðu kjarasamninga 2020 lýsti ríkisstjórnin því yfir að stofnaður yrði starfshópur sem hefði það hlutverk að leggja fram tillögur að aðgerðum til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði.

„Það er nýtt að ríkisstjórnin viðurkenni vanmat á virði kvennastarfa með yfirlýsingu og ekki mörg önnur dæmi um það á alþjóðavísu,“ segir Sonja Þorbergsdóttir, formaður BSRB. „Rannsóknir sýna að ein besta leiðin til þess felist í að búa til virðismatskerfi, þannig breytist hugsunarhátturinn og menningin smám saman og vanmatið dregið fram.“

Heiður Margrét Björnsdóttir, formaður starfshópsins og hagfræðingur BSRB kynnti niðurstöður hópsins. Helstu niðurstöður snéru að mikilvægi þess að halda vinnunni við endurmat á virði kvennastarfa kerfisbundið áfram. Í þeim tilgangi var aðgerðahópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði skipaður í lok síðasta árs.

Þá var lagt til að komið yrði af stað þróunarverkefni um mat á virði starfa að því markmiði að skapa verkfæri sem fangar jafnvirðisnálgun laganna. Sú vinna er einnig hafin og búið er að velja fjóra vinnustaði hjá ríkinu til að bera saman. Þá lagði hópurinn til þróun samningaleiðar á íslenskum vinnumarkaði um jafnvirðiskröfur með aðilum vinnumarkaðarins í stað þess að leysa mál fyrir kærunefndum eða dómstólum.

„Með þessu virðismatskerfinu sem er verið að þróa er verið að vinna að því að auðvelda samanburð og virðismat starfa þvert á stofnanir,“ segir Sonja. „Þá getur til dæmis konan sem starfar á spítalanum borið sig saman við karlinn hjá Seðlabankanum sem er að sinna sambærilegu starfi.“

Launamunur kynjanna er staðreynd

„Þegar fjallað er um launamun kynjanna er gjarnan litið til mismunandi mælikvarða og sitt sýnist hverjum hvað ber að líta til hverju sinni,“ skrifar Sonja á vef BSRB. „Sú staðreynd að ekki er til einn algildur mælikvarði á launamun kynjanna hefur gert umræðunni erfitt fyrir þar sem hártoganir um tölfræðilegar skilgreiningar vandans hafa tafið fyrir áherslu á lausnir.“

Launamunur er meiri á Íslandi en í OECD-löndunum að meðaltali.

„Launamunur kynjanna endurspeglar flókin samfélagsleg viðfangsefni sem erfitt getur reynst að túlka með einni tölu. Því er þörf á mismunandi mæliaðferðum sem endurspegla mismunandi sjónarhorn,“ útskýrir Sonja.

Í rannsókn Hagstofu Íslands um launamun karla og kvenna frá 2021 kom fram að launamunurinn var til staðar óháð því hvort litið er til atvinnutekna, óleiðrétts eða leiðrétts launamunar.

Bent var á að ein leið sé ekki réttari en önnur heldur þurfi að velja leið eftir því hvað á að skoða hverju sinni en æskilegt sé að skoða mismunandi mælikvarða og athuga vel hvaða þættir útskýra þann launamun sem er enn til staðar og nauðsynlegt sé að horfa á heildarmyndina. Mikilvægt væri að velta upp spurningum á borð við af hverju laun í svokölluðum kvennastéttum séu lægri en laun í hefðbundnum karlastéttum.

Þá væri vert að árétta að leiðréttur launamunur metur atvinnugrein sem málefnalega skýribreytu. Það þýðir að þegar horft er til leiðrétts launamunar er í raun búið að útskýra launamuninn með starfsvali kvenna sem skipa að meirihluta til ákveðnar starfsstéttir sem oft eru nefndar kvennastéttir.

Niðurstaðan var samt ótvíræð, launamunur kynjanna er staðreynd óháð því við hvaða mælikvarða er notast.

Af hverju gengur svona hægt að útrýma launamuninum?

„Ástæðuna fyrir því hve hægt gengur að draga úr launamun kynjanna má meðal annars rekja til þess að fram til þessa hefur verið lögð rík áhersla á jafnrétti innan vinnustaðarins líkt og með jafnlaunavottun en ekki þvert á vinnustaði,“ skrifar Sonja. „Fram til þessa hefur því lítil sem engin áhersla verið lögð á að vinna gegn launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði s.s. að meta þá þætti í störfum kvennastétta sem gjarnan eru vanmetnir líkt og sköpun óáþreifanlegra verðmæta, tilfinningalegs álags, ábyrgðar á velferð fólks og krefjandi vinnuumhverfis.

Þetta er kerfisbundið misrétti og „kerfið“, þ.e. stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins verða að grípa til framsækinna aðgerða sem vinna markvisst að því að útrýma launamisrétti. Fjölmargar erlendar rannsóknir sýna að ein skilvirkasta aðgerðin til að stuðla að jöfnum launum fyrir jafnverðmæt störf felst í virðismati starfa. Konur og karlar vinna ólík störf á ólíkum vinnustöðum og því er næsta skref að útvíkka samanburðinn til að meta megi heildstætt virði ólíkra starfa sem heyra undir sama atvinnurekanda en unnin eru á mismunandi vinnustöðum.“

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí