Aukin drusluskömmun og bakslag í réttindabaráttu kvenna

Lísa Margrét Gunnarsdóttir, ein skipuleggjenda Druslugöngunnar í ár, var í áhugaverðu viðtali við Heimildina sem birtist í dag. Hún segir aukin merki um bakslag og meira um neikvæð og ofsafengin viðbrögð við Druslugöngunni í ár en áður. Gangan verður haldin í 12. skiptið í Reykjavík á næsta laugardag.

Lísa segir sig og aðra skipuleggjendur hafa tekið eftir mjög neikvæðri orðræðu í sinn garð og þar að auki átt við mjög ofsafengin viðbrögð í eigin persónu vegna kynningar sinnar á Druslugöngunni í ár. Þannig hafi maður á þrítugsaldri veist að þeim í Kringlunni. „Maður á þrítugsaldri vatt sér upp að einni í skipulagsteyminu, sem er kona á miðjum aldri, og hreytti framan í hana að hún gæti troðið dreifiblaðinu okkar upp í rassgatið á sér, alveg brjálaður,“ sagði Lísa við Heimildina.

Einnig hafi þau tekið eftir ótrúlega mikilli gagnrýni og neikvæðni í athugasemdum á nýstofnuðum TikTok-reikningi Druslugöngunnar, en reikningurinn var stofnaður meðal annars til að fræða ungt fólk um gönguna og stemma stigu við bakslagi í umræðunni um rétt kvenna til að vera þær sjálfar.

Ein athugasemdin á TikTok stakk sérstaklega í augu Lísu, þar sem konum var sagt að klæða „sómasamlega“ þar sem það væri til marks um sjálfsvirðingu. Lísa nefndi þá staðreynd að uppruni Druslugöngunnar var vegna atviks í Toronto þegar lögreglumaður sagði við konur að þær ættu ekki að klæða sig eins og druslur svo þeim yrði ekki nauðgað. Því varð heili tilgangurinn með Druslugöngunni sá að skila skömminni heim, að það hvernig konur eru klæddar ætti ekki að þýða neitt um þeirra virðingu eða öryggi, heldur væri ábyrgðin á höndum þess sem beitti þær ofbeldi eða virðingaleysi.

„Okkur finnst aldrei mikilvægara að ganga en þegar þetta er minna í tísku eða verið er að hrópa ókvæðisorð að okkur eða senda okkur ljót skilaboð og segja okkur að þegja,“ sagði Lísa við Heimildina. „Þá finnst okkur enn mikilvægara að hafa hærra.“

Það er vonandi að hægt verði að stemma stigu við þessu skynjaða bakslagi, því á sama tíma berast nöturlegar fréttir frá Bretlandi. RÚV fjallaði um málið í dag. Breska lögreglan hefur miklar áhyggjur af því sem þau kalla faraldur ofbeldis gagnvart konum, en tilvikum ofbeldis gagnvart konum og stúlkum fjölgaði um 37% á tímabilinu 2018-2023. Nauðgunum og heimilisofbeldi hefur fjölgað til muna á tímabilinu.

Neyðarástand er orðið sem lögregluyfirvöld þar í landi kalla þær tölur og hafa þau meðal annars miklar áhyggjur af því hvernig áhrifavaldar á samfélagsmiðlum ali á kvenhatri, fyrirlitningu og rætinni orðræðu. Algóryþmar samfélagsmiðla eru vel þekktir fyrir það að ota að ungum karlmönnum sérstaklega ógeðfelldu efni. Mönnum eins og Andrew Tate, sem sætir nú dómsmálum fyrir nauðgun, mansal og fleiri glæpi, var otað að ungum karlmönnum þar sem hann predikaði kvenhatur og öfgakennda og ýkta útgáfu af karlmennsku. Hann er þó bara einn margra.

Það þarf ekki lengi að leita á samfélagsmiðlum eins og Instagram til að finna mikið magn af klámfengnu efni þar sem athugasemdirnar skipta hundruðum ef ekki þúsundum og eru margar fylltar kvenfyrirlitningu og andúð.

Sanngjarnt er að spyrja hvort slík þróun sé óumflýjanleg líka hér á landi, en vel má vera að svo sé ekki. Þó virða samfélagsmiðlar og algóryþmar þeirra engin landamæri og eru þannig færir um að dreifa ýmsum hugmyndum og straumum óhindrað í heilabú margra.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí