Mikill áhugi á íslenska kvennaverkfallinu á Kvennaþingi Sameinuðu þjóðanna

Kvenréttindi 23. mar 2024

Fulltrúar BSRB sóttu 68. Kvennaþing Sameinuðu þjóðanna sem hluti af sendinefnd Íslands í síðustu viku, en þingið er stærsta jafnréttisráðstefna í heimi sótt af stjórnvöldum, verkalýðs- og almannaheillarsamtökum. Markmið þingsins er að hraða jafnrétti kynjanna og valdefla konur og stúlkur með því að berjast gegn fátækt, styrkja stofnanir og undirbyggja velferð.

BSRB og Stígamót stóðu fyrir viðburði á þinginu um kröfur Kvennaverkfallsins og samspil vanmats á virði kvennastarfa og ofbeldis. Á viðburðinum fjallaði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, um sögu, ástæður og kröfur Kvennaverkfallsins 2023, stöðu jafnréttismála á Íslandi og áherslur og áfangasigra BSRB hvað varðar endurmat á virði kvennastarfa. Drífa Snædal, talskona Stígamóta, fjallaði um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi á Íslandi og leiðir til að stemma stigu við því og Freyja Steingrímsdóttir, samskiptastjóri BSRB, fór yfir hvernig hvernig framkvæmdarstjórn og starfsfólk Kvennaverkfallsins skipulagði þennan sögulega viðburð. Bergrún Andradóttir, skrifstofustjóri Samtakanna 78, Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélags Íslands og Stella Samúelsdóttir, framkvæmdarstýra UN Women á Íslandi héldu einnig stuttar hugvekjur. Anna Pála Sverrisdóttir, sem starfar hjá Fastanefnd Íslands við SÞ, stýrði fundi sem var vel sóttur.

„Það hefur verið magnað að finna þennan mikla áhuga á Kvennaverkfallinu á alþjóðavísu og það rignir enn yfir okkur fyrirspurnum um einhverskonar handrit. Það var því mjög ánægjulegt að fá að deila sögu, kröfum, kveikju og framkvæmd verkfallsins á þessum vettvangi þar sem stjórnvöld og hvers kyns hagsmunasamtök sem vinna að jafnréttismálum koma saman,“ sagði Sonja Ýr um viðburðinn. „Við reyndum að koma gestum í skilning um mikilvægi samstarfs verkalýðshreyfingarinnar og kvenréttinda- og mannréttindasamtaka, því án samstöðunnar hefðum við aldrei náð jafn langt í jafnréttismálum á Íslandi. Okkur fannst líka mikilvægt að ræða aðgengi og inngildingu kvenna af erlendum uppruna, fatlaðara kvenna, trans kvenna og kvára, í baráttuna, því þessir hópar eru mjög jaðarsettir og stóru sigrarnir verða ekki unnir nema með þeirra þátttöku líka,“  bætti Freyja Steingrímsdóttir, samskiptastjóri BSRB, við.

Fulltrúar BSRB tóku einnig þátt í hringborði um launamun kynjanna þar sem var fjallað um leiðir til að loka launamuninum, sérstaklega með tilliti til vanmats á virði kvennastarfa. Sonja Ýr deildi þar áherslum og árangri BSRB hvað varðar jafnlaunastaðalinn og endurmati á virði kvennastarfa á Íslandi. Þá sóttu fulltrúar BSRB fundi um bakslag í jafnréttisbaráttu, kynjaða tölfræði, ólaunaða vinnu kvenna og fjárhagslegt sjálfstæði, aðkomu karla og drengja að jafnréttismálum, fjárhagslegt ofbeldi gegn konum og samstarf milli aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda til að eyða kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum og í samfélaginu, þar á meðal heimilisofbeldi. Þá voru höfuðstöðvar Meta í New York heimsóttar og fræðst um þá tækni sem Meta notar til þess að vinna gegn ofbeldi gegn konum, bæði á vinnustöðum og á miðlum fyrirtækisins.

„Ef ég ætti að draga þetta saman þá fannst mér áhugavert hvernig er búið að gera þessa tengingu á milli ofbeldis, launamunar og fjárhagslegs sjálfstæðis kvenna og hversu mikið var talað um vanmat á kvennastörfum sem og ólaunaða vinnu í samhengi við launamun, það er frekar nýtt“  sagði Dagný Aradóttir Pind, lögfræðingur BSRB, sem sótti Kvennaþingið í fjórða skiptið.

Þá voru tengslin efld milli BSRB og alþjóðaverkalýðshreyfingarinnar en Dagný Aradóttir Pind tók þátt í pallborðsumræðum á viðburði ITUC – heildarsamtaka launafólks á heimsvísu, um það hvernig verkalýðshreyfingin vinnur í þágu jafnréttis með ýmsum hætti.

Meira um 68. Kvennaþing SÞ hér
Meira um aðkomu ITUC að 68. Kvennaþingi SÞ hér

Frétt af vef BSRB.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí