Xi Jinping þarf að verja stefnu sína á flokksþingi

Heimspólitíkin 10. okt 2022

Xi Jinping mun hefja sína þriðju forsetatíð á flokksþingi Kommúnistaflokksins í næstu viku. Mörg spjót beinast að honum. Núll-cóvid stefnan er umdeild. Þjóðin er að eldast og fæðingartíðni er lág. Trump fór mikinn í viðskiptaþvingunum en umfang þeirra hefur ekki minnkað í tíð Biden — nú snúast þær um tækniframfarir og varnarmál. En stærsta vandamálið sem flokkurinn stendur frammi fyrir í dag eru brestir sem eru farnir að birtast vegna mikillar skuldsetningar.

Kínversk heimili fá lítinn lífeyri og litla grunnþjónustu. Það á sérstaklega við um fólk sem enn býr í dreifbýli. Aukin grunnþjónusta fylgir oft skráðri búsetu í borgum. Mörg heimili í Kína spara því stóran hluta af starfstekjum sínum fyrir elliárin – tekjur sem annars gætu farið í aukna veltu verslunar og þjónustu. 

Hagvöxturinn í Kína kemur því ekki með aukinni neyslu fólks heldur er hann skipulagður miðlægt og útfærður niður í héröð og borgir Kína með lántöku og fjárfestingu. Með miklum fólksflutningum og nýjum verksmiðjustörfum hefur verið auðvelt að finna verkefni fyrir opinbera fjárfestingu. Mannvirkjagerð hefur verið gríðarlega mikil en að baki hennar er mikil lántaka kaupenda, verktaka og sveitarfélaga. 

Til að standa undir hagvexti án einkaneyslu hefur verið lagt í gríðarlega skuldsetningu sem vonast er til að rati í þjóðarframleiðslu, sem vænst er svo til að verði næg til að standa undir enn meiri skuldsetningu næsta ár. Michael Pettis, prófessor í Bejing Háskóla og höfundur bókarinnar Trade Wars are Class Wars, hefur fjallað mikið um fjármálakerfi og opinbera fjárfestingu í Kína. Að hans mati er það fyrsta sem gefur sig að lokum í svona vítahring, vilji og geta heimila og fyrirtækja til að standa undir afborgunum lána. Þegar slíkt gerist sé það merki um að fjárfestingar hafi verið of miklar og á röngum forsendum. 

Fyrr á árinu fóru verktakar í Kína að draga lappirnar með afhendingu húsnæðis í yfir 50 mismunandi borgum – að eigin sögn vegna lausafjárstöðu sinnar. En í Kína er algengara en annars staðar að það fáist lán fyrir húsnæði sem á enn eftir að byggja. Fólk sem hafði tekið lán fyrir húsnæðinu hætti að greiða af lánum sínum í mótmælaskyni. Opinberir aðilar brugðust skjótt við þessari atburðarás með því að taka yfir og sameina rekstur verktaka og banka, bjóða hagstæðari lán og klára uppbyggingu húsnæðis með opinberum framkvæmdafélögum. Að mati Pettis voru þessi viðbrögð til marks um reynslu hinna miðstýrðu afla við að halda fjármálakrísum staðbundnum og koma í veg fyrir að þær dreifi úr sér.

Spurningin er hversu mörg slæm lán eru annars staðar í kerfinu og hver vilji og geta hinna miðstýrðu afla er til að skakkast í leikinn þegar þau fljóta á yfirborðið. 

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí