Auðfólk fær aftur að fara huldu höfði í Evrópu

Nokkur Evrópuríki hafa lokað fyrir upplýsingar um eigendaskráningu fyrirtækja innan sinna landamæra en þar á meðal lokuðu Lúxemborg og Holland fyrri eigendaskráningu sinna fyrirtækja í morgun. Þetta þykir risa skref afturábak í baráttunni fyrir gegnsæi í stjórnsýslu og viðskiptum. Dómstóll Evrópusambandsins úrskurðaði á dögunum um að aðgengi almennings að slíkum skráningum um eignarhald fyrirtækja sé ólögmætt og brjóta gegn friðhelgi einkalífsins.

Haft er eftir Maíra Martini, sérfræðingi hjá samtökunum Transparency International, að þessi þróun sé margra ára afturhvarf til fortíðar en hún segir að aðgengi almennings að gögnum um eignarhald fyrirtækja sé algjörlega ómissandi þegar kemur að því að greina spillingu og peningaþvætti.

„Því meiri upplýsingar þeim mun auðveldara er að kortleggja hlutina og tengja. Við höfum séð það aftur og aftur frá Tékklandi og Danmörku til Túrkmenistan, hvernig aðgengi almennings að upplýsingum um eignarhald fyrirtækja hefur ítrekað flett ofan af spillingu og vafasömum samningum. Á tímum sem þessum hefur aldrei verið mikilvægara að uppræta peningaþvætti og spillingu,“ segir Maíra í yfirlýsingu sem Transparency International birti í kjölfar þessa.

Þarna fara hagsmunir fjármagnseigenda og almennings engan veginn saman en dómstóll í Lúxemborg vísaði málinu til Evrópudómstólsins eftir að fyrirtækjaskrá þar í landi tók málið fyrir vegna óánægðra einstaklinga og fyrirtækja sem sættu sig ekki við að skattyfirvöld birti gögn um fjárhag og eignarhald þeirra. Haft er eftir lögmanni úr þeirra hóp að skipulagður þröngur hópur sem berjist fyrir auknu gagnsæi reyni að koma í veg fyrir það að meðalhófsreglum sé fylgt.

Roland Papp yfirmaður stefnumála hjá Transparency International sagði einnig að með álitsgerð dómsins hefði hann viðurkennt mikilvægi og réttmæti tilvistar almannasamtaka sem berjast gegn peningaþvætti og því ætti Evrópusambandið nú að sjá til þess að tryggja betur lagaheimildir til upplýsingagjafa innan aðildarríkja sinna með hliðsjón af persónuverndarsónarmiðum þar sem mikilvægi gagnsæis vægi þyngra.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí