Bjarni og bankasýslan hentu 2.250 milljónum út um gluggann

Þótt skýrsla ríkisendurskoðunar taki enga afstöðu til þess hvort lög hafi verið brotin við söluna á Íslandsbanka er augljóst af atburðalýsingum í skýrslunni að Bankasýslan og fjármálaráðuneytið tóku hagsmuni erlendra brasksjóð fram yfir almannahag. Þrátt fyrir mikla eftirspurn eftir bréfunum var sölugengið lækkað til að gleðja hina erlendu sjóði. Sem þökkuðu fyrir sig og innleystu mikinn hagnað þegar þeir seldu bréfin stuttu síðar.

Undir stofnanalegu orðalagi ríkisendurskoðunar skín í takmarkaða virðingu fyrir Bankasýslunni, sem fær falleinkunn í skýrslunni. Ríkisendurskoðun leggur til að ríkisvaldið komi sér upp hæfri stofnun til að sjá um sölu á eign­ar­hlut rík­is­ins í fjár­mála­fyr­ir­tækjum. Bankasýslan er augljóslega ekki þessi aðili, að mati ríkisendurskoðun. Hæfur aðili til að sinna þessu verki þurfi að mati ríkisendurskoðunar að búa „yfir nauð­syn­legum mannauði til að rækja hlut­verk sitt, sem og grunn­þekk­ingu á þeirri sölu­að­ferð sem ákveðið er að beita hverju sinni. Þá er brýnt að hann gefi þeim sem ráðnir eru til að ann­ast sölu­ferlið skýr fyr­ir­mæli og leið­bein­ingar um fram­kvæmd þess.“

Með öðrum orðum: Bankasýslan sem heyrir undir Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra og sem hann skipaði stjórn yfir, meðal annars sem stjórnarformann sérstakan trúnaðarmann sinn úr Sjálfstæðisflokknum, veit ekkert hvað hún er að gera. Og getur ekki vitað það vegna þess að þar innandyra er ekki fólk sem hefur vit á því sem stofnunin á að sinna.

Lýsingarnar í skýrslunni eru grátlegar. Þegar ljóst er orðið að mikil umframeftirspurn var eftir hlutabréfum í Íslandsbanka á markaðsvirði dagsins og þar yfir, ákvað bankasýslan að leggja til mun lægra verð, 117 krónur á hlut í stað 122 króna sem var markaðsvirðið á söludeginum. Þetta var gert að því er ráða má af skýrslu ríkisendurskoðunar vegna þrýstings erlendra brasksjóða.

Bankasýslan lagði því til þvert á mikla eftirspurn í útboðinu til að hlutirnir yrðu seldir með 4,1% afslætti. Og ráðuneytið samþykkti það möglunarlaust. Þetta var afsláttur upp á 2.250 milljónir króna, fé sem fært var með þessu hætti frá almenningi til kaupenda bréfanna. Það er um það bil tvöföld sú upphæð sem dygði til að draga til baka skerðingu á jólabónus öryrkja.

Rök bankasýslunnar voru að lágt verð myndi forða því að bréfin lækkuðu á markaði dagana á eftir. Sem er hundalógík, því auðvitað hækkuðu bréfin mikið næstu daga þar sem þau voru seld með afslætti. Í fréttum fljótlega eftir söluna kom fram að erlendu sjóðirnir, sem bankasýslan var að þjóna samkvæmt skýrslu ríkisendurskoðunar, hlógu alla leiðina í bankann, eins og sagt er. Þeir seldu hlutinn sem þeir keyptu með miklum hagnaði fáeinum dögum síðar.

Verð í bankanum hélt áfram að hækka næstu vikur og mánuði en lækkaði svo aftur af allt öðrum ástæðum, fyrst og fremst vegna þess að hlutabréf í bönkum fara lækkandi í heiminum, bæði vegna óvissu í efnahagsmálum en líka vegna afhjúpunar á ósiðlegum og ólöglegum viðskiptaháttum banka víða um heim.

Ríkisendurskoðun tekur ekki afstöðu til þess sem gekk fram af þjóðinni við bankasöluna, að meðal kaupenda voru flestir af helstu leikendur bankabólunnar sem leiddi til Hrunsins 2008. Þessir menn voru sérlega handvaldir til að fá að kaupa hlutabréf almennings með afslætti. Ríkisendurskoðun bendir á að hugtakið hæfir fjárfestar sé loðið, erfitt að meta það eða fylgja eftir að við það sé stuðst af verðbréfasölum. Og það hafi slegið ryki í augu þingnefnda, þar sem nefndarmenn gátu talið að aðeins væri átt við langtíma fagfjárfesta.

Ríkisendurskoðun segir að vinnubrögðin og umgjörð við söluna standist ekki þær kröfur sem gera verður til stjórnvalda: „Sölu­ferli eftir til­boðs­fyr­ir­komu­lagi er um margt óform­legt og háð, undir miklu tíma­á­lagi, hug­lægu mati margra aðila sem að söl­unni koma, m.a. aðila sem starfa á mark­aði. Eins og því var beitt 22. mars 2022, gefur til­boðs­fyr­ir­komu­lagið sig ekki vel að end­ur­skoðun og prófun líkt og ákvarð­anir stjórn­valda þurfa jafnan að ger­a.“

Skýrslan verður rædd í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins í fyrramálið. Í kjölfarið má búast við frumvarpi um sérstaka rannsóknarnefnd um söluna, því eins og áður sagði leggur ríkisendurskoðun ekki mat á hvort lög hafi verið brotin. Af atburðarlýsingu er þó ljóst að til álita hlýtur að koma að framin hafi verið umboðssvik, þar sem hagsmunir erlendra brasksjóða voru teknir fram yfir hagsmuni almennings, sem voru að fá hæsta mögulega verð fyrir hlutinn.

Hér má nálgast skýrsluna: Sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka 22. mars 2022

Á myndinni eru Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, sem skipaði stjórn Bankasýslunnar og sem samþykkti söluna; Jón Gunnar Jónsson forstjóri Bankasýslunnar sem sá um söluna, og Lárus Blöndal stjórnarformaður Bankasýslunnar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí