Bríet kúplar frá hækkunarferlinu

Leigufélagið Bríet sem er í eigu íslenska ríkisins og starfar undir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ætlar að draga úr hækkunarferli sínu samkvæmt tilkynningu félagsins. Rekur leigufélagið 250 fasteignir um allt land. Félagið var stofnað í árslok 2018 af þáverandi félagsmálaráðherra sem sagði félagið stofnað til að reka hagkvæma leigufélagsþjónustu og það sé viðbragð við háu verði á leigumarkaði. Yfirtók Bríet tæplega 300 fullnustueignir frá Íbúðalánasjóði við stofnun.

Í tilkynningu Bríetar kemur fram að hækkun á kostnaði félagsins hafi verið minni en sem nemur hækkun neysluvísitölu. Það sem hækkar mest innan vísitölunnar eru matur, eldsneyti og íbúðaverð sem hefur engin áhrif á þau félög sem eru að leigja út eldri eignir. Og þessi rök fyrir lækkun leigu eiga auðvitað við um marga aðra leigusala, þeir taka inn hækkun leigu langt umfram aukningu eigin kostnaðar.

Allt frá stofnun hefur borið á því að leigjendur hjá Bríet hafi kvartað yfir stöðugum hækkunum á húsaleigu. Hefur hækkunin í mörgum tilvikum verið tugi þúsunda umfram vísitöluhækkun. Þær fjölskyldur sem leigðu íbúðir á meðan þær voru í eigu Íbúðalánasjóðs fundu sérstaklega mikið fyrir óhóflegum hækkunum skömmu eftir stofnun leigufélagsins.

Nú ætlar Bríet að slá af hækkunarferli sínu, ferli sem staðið hefur linnulaust yfir í 4 ár. Göfuglyndi félagsins birtist í því að fella út hluta þeirra hækkana sem þau hafa sótt til leigjenda í einn mánuð. Einnig ætlar félagið í kjölfarið að lækka húsaleigu um 4%, eða um það bil einn fimmta af þeim hækkunum sem það hefur sótt frá stofnun. 

Eftir frásagnir leigjenda hjá Bríet undanfarið birtist mynd af félagi sem rekur okurleigustefnu og er óbilgjarnt í samskiptum. Vísir.is fjallaði til að mynda um okurleigu leigufélagsins síðastliðið sumar þegar það ætlaði að leigja út parhús á Fáskrúðsfirði á rúm þrjú hundruð og fimmtíu þúsund. Samstöðin hefur áður greint frá starfsemi þess og birt viðtal við leigjanda sem segir frá hegðun starfsfólksins og yfirlæti, sem og sífelldum hækkunum á leigunni.

Leigjendur hjá Bríet hafa margir látið heyra í sér og eru óánægjuraddir þeirra yfirgnæfandi, virðist mælirinn fullur hjá mörgum þeirra yfir þessum sífelldum hækkunum á húsaleigunni. Jafnvel er verið að hækka húsaleigu reglulega á veðbandalausum íbúðum sem bera lítinn sem engan fjármagnskostnað, allt í nafni óhagnaðardrifins félagslegs reksturs. 

Samstöðin greindi nýlega frá því hvernig félagið dregur vagninn þegar kemur að því að hækka húsaleigu á þeim markaðssvæðum sem það starfar á. Voru tekin dæmi af tveimur íbúðum í rekstri þess, annars vegar á Akureyri og hins vegar í Borgarnesi. Í báðum tilfellum var húsaleiga hjá Bríet yfir tuttugu prósent hærri en markaðsleiga á tilsvarandi íbúðum. 

Frá stofnun hefur félagið hækkað samninga um tugi prósenta, og er komin langt fram úr verðlagi á frjálsum leigumarkaði. Það gerir félagið þrátt fyrir að vera í eigu ríkisins og hafa fengið 300 fullnustuíbúðir frá Íbúðalánasjóði í vöggugjöf. Stjórnendur félagsins komu flestir frá Íbúðalánasjóði og höfðu verið þar þann tíma sem fullnustueignum var mokað út til fjárfesta og leigufélaga á afslætti.

Hvort þetta viðbragðið við hárri húsaleigu sem fyrrverandi félagsmálaráðherra sagði að þyrfti til, kannski var húsaleigan bara ekki nógu há og það þurfti almennilega óáran til að hrella fjölskyldur á leigumarkaði, skal ósagt látið. 

Samtök leigjenda hafa kallað eftir því að opinber rannsókn fari fram á leigufélaginu og hvernig það hefur haft afgerandi áhrif á húsaleigu utan höfuðborgarsvæðisins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí