Í bók sinni Álfadalur segir Guðrún Jónína Magnúsdóttir sögu móður sinnar, Sigurbjörgu Oddsdóttur, sem var nauðgað sem barni af föður sínum og eignaðist síðar með honum tvö börn. Hún sagði þessa sögu við Rauða borðið, sögu ofbeldis, grimmdar og þöggunar. Og tilraunum móður sinnar að komast frá föður sínum sem fylgdi henni alla ævi eins og myrkur skuggi.
Sigurbjörg var send í vist að Kirkjubóli í Valþjófsdal þegar hún var fimm ára og þurfti þar að vinna fyrir sér þar til hún flúði úr vistinni þegar hún var ellefu ára. Hún stökk um borð í bát þar sem bróðir hennar var og fór með honum til Álfsdals á Ingjaldssandi þar sem foreldrar hennar bjuggu. Þá var hrópað á eftir henni að hún væri að fara úr öskunni í eldinn.
Sigurbjörg sagði dóttur sinni löngu síðar að þegar hún kom í Álfsdal hafi eldri systur sínar sagt að hún gæti þá farið í húsin með helvítis karlinum. Og það varð. Daglega tók faðir hennar, Oddur Valgeir Gísli Guðmundsson, Sigurbjörgu með sér í fjárhúsinu þar sem hann nauðgaði henni.
Guðrún Jónína, segist halda að amma sín, Vilhelmína Jónsdóttir, hafi ekki vitað af ofbeldi Odds gagnvart dóttur þeirra. Fyrr en Sigurbjörg varð ólétt eftir föður sinn þegar hún var fimmtán ára. Þá vildi hún skilja við Odd og þau brugðu búi og fjölskyldan leysist að mestu upp, ellefu systkina hópur. Oddur réð sig að Andakílsárvirkjun en Vilhelmína og Sigurbjörg fluttu til Akranes ásamt einum af yngri bræðrunum. Þar fæddist Valgeir, sonur Sigurbjörgu og Odds.
En nokkru síðar flutti Vilhelmína aftur til Odds. Og innan tíðar var Sigurbjörg komin að Andakílsárvirkjun með barnið, var ráðin í vist til starfsfólks þar. Eitt kvöldið þegar heimilisfólkið hafði farið til Reykjavíkur braust Oddur inn í húsið og nauðgaði Sigurbjörgu sem varð aftur ólétt eftir föður sinn. Níu mánuðum síðar fæddi hún veikburða dreng sem lifði aðeins þrjá mánuði.
Þá hafði Sigurbjörg kynnst Magnúsi Sigurjóni Guðmundssyni sem tók hana að sér. Þau giftu sig og Magnús gekkst við barninu sem hún gekk með. Magnús átti eftir að reynast konu sinni vel. Þau eignuðust átta börn saman og Magnús sinnti Sigurbjörgu þegar hún veiktist á geði. Guðrún Jónína er elsta barn þeirra hjóna.
Í bók sinni rekur Guðrún Jónína þessa sögu og hvaða áhrif hún hafði á móður sína og fjölskyldu. Þótt margir hafi vitað af ofbeldinu var Sigurbjörgu aldrei hjálpað. Þegar hún reyndi að komast frá föður sínum þá elti hann. Hann bjó nærri henni allt þar til hann dó þegar Sigurbjörg var 33 ára.
Guðrún Jónína rekur þessa sögu ofbeldis og grimmdar við Rauða borðið, en einnig sögu þöggunar sem skemmir út frá sér og eyðileggur líf. Það má heyra og sjá viðtalið í spilaranum hér að ofan.
Myndin sem fylgir er af Álfsdal á Ingjaldssandi. Fyrir ofan eru Oddur Valgeir Gísli Guðmundsson og Sigurbjörg dóttir hans.