Í desember mun Origo greiða hluthöfum sínum 24 milljarða króna i kjölfar á sölu eignarhlut Origo í hugbúnaðarfélaginu Tempo. Þessi tvö félög eru meðal þeirra fyrirtækja sem hafa fengið mikinn og vaxandi skattaafslátt vegna rannsókna og þróunar, á núvirði samtals um 1.289 m.kr. á síðustu þremur árum. Þótt ríkið hafi lagt þetta til félaganna tveggja fær það engan hlut af þessum útgreidda arði.
Þessi skattaafsláttur hefur hækkað mikið í tíð núverandi ríkisstjórnar. Það er liður í einkavæðingu nýsköpunar, að færa áhersluna frá opinberum stofnunum og sjóðum yfir til fyrirtækjanna, sem geta þá sótt beint um styrki með því að framvísa kostnaðarreikningum. Bent hefur verið á að þetta kerfi sé stórgötótt, lítið eftirlit sé með hvort sá kostnaður sem fyrirtækin benda á sé í reynd nýsköpun, rannsókn eða þróun umfram það sem fyrirtækin hefðu hvort sem er staðið fyrir. Í umsögn um frumvarp Viðreisnar, þar sem átti að festa þetta kerfi til langframa, benti Skatturinn á að nánast ómögulegt væri að hafa eftirlit með þessu, að greina á milli venjulegs rekstrar og rannsóknar og þróunar.
Og þetta sést af ásókninni. Fyrir fáum ár nam þessi skattafsláttur um 1,5 milljarði króna en verður 11,6 milljarðar króna í ár. Sem eru um 15% af áætluðum tekjuskatti fyrirtækja í fjárlagafrumvarpi fyrir yfirstandandi ár. Þessi ráðagerð er því í reynd skattalækkun á fyrirtæki þar sem formið er þannig að þeir fá sem sækja um. Og eins og í dæmi Origo þá eru engar kvaðir um endurgreiðslu ef í ljós kemur að fyrirtækin þurfi alls ekki á styrkjum að halda.
Origo er í meirihluta í eign ýmissa lífeyrissjóða. Stærsti einkafjárfestirinn er Frigus II ehf. en það er félag þeirra Bakkavararbræðra Lýðs og Ágúst Guðmundssona og Sigurðar Valtýssonar, fyrrverandi forstjóri fjárfestingarfélags þeirra bræðra Exista, sem fór á hausinn í Hruninu. Eins og oft er í skráðum fyrirtækjum á Íslandi, þar sem lífeyrissjóðir eiga meirihluta hlutafjár, er þetta félag mjög leiðandi innan Origo.
Myndin er af þeim Lýð og Ágústi Guðmundssyni sem njóta bæði skattaafsláttar og hárra arðgreiðslna.