Friðarsamkomulag í höfn í Eþíópíu

Stríðið í norðanverðri Eþíópíu sem hófst fyrir réttum tveimur árum er núna lokið með algjörum sigri ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherrann Dr. Abiy Ahmed stendur með pálmann í höndunum, en TPLF hefur fórnað hundruðum þúsunda mannslífa til einskis. Enn er þó mörgum mikilvægum spurningum ósvarað.

Olego Obasanjo fyrrum forseti Nígeríu, tilkynnti um friðarsamkomulagið á blaðamannafund í gærkvöldi. Helstu atriði samningsins er að TPLF og aðrar vopnaðar sveitir innan Tígraí afvopnast með öllu innan 30 daga; að sambandsherinn fari einn með löggæslu og öryggisgæslu um allt Tígraí; að TPLF liðar í Mekelle gefist upp innan sjö daga; að fylkisþing og fylkisstjórn sem kosin var ólöglega 2020 skyldi leyst upp; að bráðabirgða fylkisstjórn taki við þar til nýjar kosningar hafa verið haldnar. Sameiginleg yfirlýsing samninganefndanna hvatti alla til að hlíta ákvæðum samningsins og sérstaklega var óskað eftir því að útlendir aðilar, ekki síst Eþíópíubúar erlendis, skyldu hætta stríðsáróðri og hatursorðræðu.

Rezwan Husein sendiherra og yfirmaður öryggismála í Eþíópíu tekur í hendina á Getache Reda talsmanni TPLF.
Cyril Ramaphosa forseti Suður Afríku fagnar í bakgrunni. Samningurinn er algjör uppgjöf fyrir TPLF enda er greinilegur munur á hversu breitt þeir brosa.

Stórar spurningar standa þó enn ósvaraðar, einkum hvað varðar framtíð umdeildra héraða innan Tígraí sem almennt kallast Welkeit og Raya, og hins vegar (og ekki síst) hvort háttsettir TPLF liðar verði dregnir persónulega til saka fyrir landráð og stríðsglæpi. Sakaruppgjöf er hvergi nefnd, og sameiginlega yfirlýsingin endurtekur þá stöðu Eþíópíustjórnar að öll mannréttindabrot verði rannsakað til fulls og þeir sem hafi gerst brotlegir verði látnir sæta refsingum. En getur verið að yfirmenn TPLF sleppi svona vel – að þeir verði ekki ákærðir fyrir landráð og fyrir að hafa att hundruðum þúsunda út í opinn dauðann sjálfum sér til framdráttar?

Landráð

Að kvöldi 3. nóvember 2020 hélt fylkisstjórn Tígraí undir stjórn TPLF mikið samkvæmi en meðal boðsgesta voru yfirmenn Norðurhers sambandshersins, rúmlega þúsund manns. Þegar leið á kvöldið kom hið sanna tilefni samkvæmisins í ljós: yfirmönnum sambandshersins var sagt að TPLF hefði ákveðið að hefja stríð gegn ríkisstjórninni, að TPLF hefði mikla yfirborði í mannafla og vopnum, og að Norðurher sambandshersins (sá rúmlega helmingur sambandshersins sem staddur var í Tígraí) væri best að lýsa nú þegar yfir stuðningi við TPLF og taka þátt í stríðinu þeirra megin.

Háttsettir TPLF menn voru búnir að ræða þetta sín á milli og við stuðningsmenn sína erlendis eins og sést á því sem hin svokallaða International Crisis Group (ICG, harðir stuðningsmenn TPLF gegnum allt stríðið) höfðu að segja örfáum dögum áður en stríðið hófst: „Tígraí er reiðubúið til átaka. Vel vopnaður fylkisher er undir stjórn fyrrum hershöfðingja sambandshersins. Fylkisherinn skipa að auki mikill fjöldi stríðsreyndra hermanna. Leiðtogar TPLF segja að margir foringjar í Norðurhernum, sem verji landamærin að Eritreu, séu ekki líklegir til að styðja ríkisstjórnina, og að sumir myndu jafnvel láta snúast og ganga til liðs við herlið Tígraí.“ (“Steering Ethiopia’s Tigray Crisis Away from Conflict”, Africa Briefing no. 162, International Crisis Group 30. október 2020)

Hér misreiknuðu foringjar TPLF sig illa eins og á mörgum öðrum sviðum. Herforingjar sambandshersins neituðu að horfa í hina áttina, hvað þá að þeim gæti hugnast að ganga TPLF á hönd. En á sama tíma voru hersveitir TPLF þegar búnir að umkringja bækistöðvar sambandshersins í Mekelle og um morguninn hófust einnig árásir á bækistöðvar hersins meðfram landamærunum að Tígraí. Þeir síðarnefndu gátu flúið yfir landamærin, en í Mekelle var það ekki í boði og yfir 10.000 hermenn enduðu sem gíslar TPLF næstu vikurnar en þungavopn sem geymd voru í búðunum féllu í hendur TPLF.

Eftir frelsun Mekelle þremur vikum síðar kom hinn kaldi raunveruleiki í ljós. Viðtal við grátandi stúlku úr sambandshernum var kannski það sem vakti hvað mesta athygli og reiði: Hún var ein léttvopnaðra varðliða sem gættu hliðsins inn í bækistöðvarnar. „Þegar skotfærin voru búin urðum við að gefast upp“, sagði hún. TPLF hafi þá ráðist inn í bækistöðvarnar og drepið talsverðan fjölda óvopnaðra hermana. „Þeir keyrðu yfir þá á skriðdrekum og trukkum“, sagði hún, „og hentu líkunum nöktum út fyrir hliðið.“

Viðtöl við lækna í Mekelle bendir til að mannfall aðfaranótt 4. nóvember megi telja í þúsundum. Eþíópíubúar annars staðar í landinu voru slegnir skelfingu yfir mannvonsku TPLF. Sambandsherinn hafi verið þarna til að verja Tígraí ekki síður en aðra hluta landsins, þeir tóku virkan þátt í samfélaginu og átt þar vini og fjölskyldur. Aðrir bentu á að það mátti öllum vera ljóst að til stríðs myndi koma og hvernig stæði á því að alríkisstjórnin hafi ekki verið betur undir slíkar árásir búnar? Til að skilja betur aðdraganda stríðsins má hafa gagn af því að lesa grein undirritaðs frá 27. október,  Friðarviðræður hefjast í stríði sem þegar er búið

Stríðsglæpir

Að TPLF skyldi ekki hafa tapað stríðinu við fall Mekelle 28. nóvember 2020, var ekki síst að þakka þeirri gríðarlegu áróðursherferð sem þeir hófu strax á fyrsta degi stríðsins. Nánast allur umheimurinn snerist á þeirra band, þeir voru fórnarlömbin í þessu stríði, aumingja litla héraðið sem bara vildi frelsi og sjálfstjórn í hetjulegri varnarbaráttu við hina illu ríkisstjórn Dr. Abiy Ahmed sem hafði byrjað stríð til þess hreinlega að útrýma þeim.

Fjölmiðlar um allan heim, og furðu margir einstaklingar innan stjórnkerfis vestrænna ríkja, einkum Bandaríkjanna, Írlands og Finnlands (!) keyptu algjörlega þessar lygasögur og héldu uppi linnulausum þrýstingi á Eþíópíustjórn, meðal annars með efnahagsþvingunum og hótunum um enn fleiri þvinganir, en einnig tilraunir til að koma í veg fyrir að Eþíópíustjórn gæti keypt sér vopn erlendis til að verja tilvist sína.

Enn í dag, núna þegar stríðinu er lokið, má sjá í fjölmiðlum á borð við Washington Post og The Guardian í Englandi furðulegar staðhæfingar um þjóðarmorð, fjöldamorð og alls kyns mannréttindabrot, og einnig hið nýjasta í ásökunum, að Eþíópíustjórn hafi sett Tígraí í herkví og meinað hjálparsamtökum aðgang að héraðinu.

Sameinuðu Þjóðirnar rannsökuðu hvort stríðsglæpir hefðu verið framdir frá því stríðið hófst og fram að því að sambandsherinn yfirgaf Tígraí um mitt sumar 2021. Bent var á nokkurn fjölda afbrota sem framin höfðu verið af einstaklingum meðal allra stríðsaðila en ekkert sem benti til meira en gengur og gerist í vopnuðum átökum. Ekkert sem staðfesti eða benti til skipulagðra mannréttindabrota.

Amnesty International birti mikinn fjölda skýrslna, meðal annars um einu sannreyndu fjöldamorð stríðsins þegar TPLF liðar á flótta drápu rúmlega 1000 óbreytta borgara í Mai Kadra við landamærin að Súdan. Amnesty hefur einnig birt skýrslur sem staðfesta margvísleg mannréttindabrot TPLF herliðsins í árásarhernaði gagnvart nágrannafylkjum. Þeirra helst má telja skipulagða eyðileggingu og þjófnað, en einnig fjölda dæma um aftökur án dóms og laga. Hvort tveggja virðist skipulagt að ofan. Nauðganirnar sem fylgja TPLF hvar sem þeir fara virðist frekar vera afleiðing af þeirri nauðgunarmenningu sem virðist alltaf hafa verið ríkjandi innan TPLF eins og baráttufólk fyrir mannréttindum í Tígraí hefur ítrekað bent á. Mótmælagöngur gegn nauðgunum voru haldnar 2018, þegar íbúar Tígraí héldu að lýðræði og virðing fyrir mannréttindum væri einnig komið til Tígraí. Því miður voru TPLF enn við stjórntauminn þar.

Eina skýrsla Amnesty sem náði eyrum vestrænna fjölmiðla var líklega sú lélegasta, þar sem þeir höfðu talað við einhvern fjölda manns í gegnum síma og þóttust á grundvelli þess geta staðfest nauðganir Eþíópískra hermanna á konum í Tígraí. Þeir virðast helst hafa talað við flóttamenn í Súdan, sem voru einmitt þeir sömu TPLF liðar og höfðu flúið sambandsherinn á fyrstu viku stríðsins. Á meðal þeirra voru fjöldamorðingjarnir frá Mai Kadra. Kanadíski blaðamaðurinn Jeff Pearce hefur birt viðtöl við starfsmenn Amnesty sem lýstu því hversu gríðarlegur þrýstingur hefði verið á þá að birta þessa skýrslu þrátt fyrir afskaplega léleg vinnubrögð og vafasamar niðurstöður.

Stríðsglæpir TPLF hafa einnig verið rannsakaðir af Ann Fitz-Gerald sem er virtur kanadískur prófessor á sviðið alþjóðaöryggismála. Skýrslur hennar hafa staðfest það sem allir gátu séð (en enginn á Vesturlöndum vildi vita af). TPLF beitti óspart fyrir sig barnahermönnum, og þeir þvinguðu íbúa Tígraí til stuðnings við sig með matargjöfum. Hver fjölskylda skyldi skila einum hermanni í mannhafsherinn mikla sem átti að sigra sambandsherinn haustið 2021, í skiptum fyrir matargjafir, en með hótunum um ofbeldi ella.

Mannréttindasamtök Eþíópíu (EHRC) eru sjálfstætt starfandi og langt frá því að vera einhverjir leppar ríkisstjórnarinnar. Formaður þeirra sætti pyntingum á meðan TPLF var enn við völd í landinu og er skiljanlega ekki heldur hrifinn af þeim dólgum. EHRC hefur verið duglegt að benda á allt sem misjafnt má teljast í framferði stjórnvalda, ekki bara í Tígraí heldur einnig annars staðar í landinu.

kisstjórn Eþíópíu hefur ávallt tekið á móti skýrslum mannréttindasamtaka og lofað rannsókn í hvert skipti. Hundruð hermanna hafa verið dregnir fyrir dómstóla og sitja nú í fangelsi. TPLF hefur alltaf neitað að taka á móti skýrslum mannréttindasamtaka.

Aðilar innan Sameinuðu Þjóðanna voru óhressir með að ekki skyldi finnast neitt fjöldamorð og þvinguðu í gegn að sérstök sérfræðinganefnd skyldi skipuð til að rannsaka framferði Eþíópískra stjórnvalda. Sérfræðinganefndin hefur enn ekki skilað af sér skýrslu, en bráðabirgðaskýrsla var gefin út sem endurtók ýmsa áróðurspunkta TPLF án sérstaks rökstuðnings. Sú ásökun sem mönnum fannst helst bíta var að ríkisstjórnin hefði sett Tígrái í herkví og væri að beita hungri sem hernaðartækni. Enn fannst þó ekkert sem benti til þjóðarmorðsins sem stuðningsmenn TPLF byrjuðu að básúna strax á fyrsta degi stríðsins.

Þrátt fyrir staðhæfingar hefur ekkert sannast sem bendir til þess að Eþíópíustjórn hafi á nokkurn hátt komið í veg fyrir aðgengi hjálparsamtaka (eða erlendra fjölmiðla) að Tígraí. Flugi var haldið uppi allan tímann til Mekelle, og vörubílalestir keyrðu óhindrað frá birgðastöðvum í Afar héraði. Árásarhernaður TPLF hefur orðið til þess að þessar samgöngur hafi stöðvast tímabundið, en ekkert sem bendir til þess að ríkisstjórnin hafi valdið neinum töfum. Samt virðast fjölmiðlar núna geta leyft sér að halda þessu fram og vísa í einhverja skýrslu sérfræðinganefndarinnar – bráðabirgðaskýrsluna sem endurtók áróður TPLF án rökstuðnings.

Uppgjafa-TPLF liðar með matvælabirgðir sem þeir voru búnir að koma sér upp. Á myndinn má sjá minnst 20 tonn af hveiti í 50kg. sekkjum merktum USAID. Svipaðar matvælabirgðir finnast alls staðar þar sem TPLF hefur gefist upp, mest 300 tonn á einum stað.

Umdeild héruð

Þegar TPLF ásamt frelsisher Eritreu samdi núverandi stjórnarskrá Eþíópíu eftir sigurinn gegn Derg 1991 skiptu þeir landinu upp í fylki á grundvelli þjóðerna, eða svo var sagt. TPLF ákvað að hið nýja Tígraí fylki skyldi stækkað á kostnað nágranna, í vestur yfir hið frjósama svæði að landamærunum að Súdan (Welkeit), og yfir hið ekki síður frjósama svæði sem teygir sig suður eftir hálendisbrúninni (Raya).

Strax á fyrstu viku stríðsins, í upphafi nóvember 2020, lagði sambandsherinn Welkeit undir sig og hefur haldið síðan, með aðstoð fylkishers Amhara fylkis og Eritreuhers. Þegar sambandsherinn dróg sig frá Tígraí í júní 2021 var það í raun aðeins að gömlu héraðsmörkunum frá því fyrir 1991. Í kjölfarið hóf TPLF árásir úr norðri inn í Raya og úr bæði austri og vestri inn í Welkeit svæðið. Súdan megin voru það um 50.000 TPLF liðar sem höfðu flúið í upphafi stríðs sem hófu árásir sem hafa staðið nokkuð linnulaust.

Það virðist nokkuð ljóst að Welkeit svæðið, sem er aðskilið Tígraí héraði hinu forna af djúpum árgljúfrum Tekeze fljóts, hafi lengi verið byggt Amhara mælandi. Hvað Raya og svæðið þar suður af varðar er staðan alls ekki eins skýr. Þar tala heimamenn oftar en ekki bæði Tígraí og Amhara sem eru enda náskyld tungumál. Einnig býr þar einhver fjöldi Oromo múslíma. Þetta er alls ekki óalgeng staða í Eþíópíu, þjóðerni er sveigjanlegt og teygjanlegt og vestrænar hugmyndir um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og þjóðarbrota eiga illa við.

Líklegasta niðurstaða friðarsamkomulagsins er sú að ekkert breytist hér í bráð, sérstaklega í Welkeit. Svæðið verður ekki formlega aðskilið frá Tígraí en fylkisstjórnin mun væntanlega hafa lítið um gang mála að segja frekar en verið hefur undanfarin tvö ár. Flestir sem líta til framtíðar Eþíópíu telja að núverandi fylkjaskipulag verði leyst upp og aðrar sögulegri fylkjaskiptingar teknar upp í staðinn, þar sem ekkert fylki verður með meira en 10% íbúa, og fylki skilgreind á grundvelli landafræði frekar en þjóðerni.

Eþíópíu var skipt upp í fylki 1991 af undirlagi TPLF sem hafði unnið stríðið gegn Derg ásamt frelsisher Eritreumanna. Svæðin sem nefnd eru Welkeit og Raya voru áður hlutar af tveimur héruðum sem runnu inn í hið nýstofnaða Amhara fylki. Eyðimörkin í Afar var aðskilin frá Tígraí héraði og hið nýstofnaða Tígraí fylki fékk í sinn hlut Welkeit og Raya svæðin. Íbúar hins nýstofnaða Amhara fylkis mótmæltu þessu um leið og bentu á að meirihluti íbúa væri Amhara mælandi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí