Frítekjumark öryrkja hækkað og eingreiðsla eins og í fyrra

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram tillögur að breytingum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2023 þar sem gert er ráð fyrir hækkun frítekjumarks öryrkja upp í 200 þús. kr. Þá hefur náðst samkomulag um að hækka jólabónus öryrkja á þessu ári svo hann verði sá sami og í fyrra.

Fjárveitingar hækka til ýmissa stórra málaflokka svo sem til heilbrigðismála, löggæslumála, málefna fatlaðs fólks og nýsköpunar. Framlög til félags-, húsnæðis og tryggingamála skulu hækkuð um 3,7 ma.kr. og af þeim fari 1,1 milljarðar kr. til hækkunar frítekjumarks á atvinnutekjur öryrkja svo það verði 200 þús. kr. á mánuði í stað tæplega 110 þús. kr. eins og nú er.

Öryrkjar mega því vinna sér inn rúmlega 90 þús. kr. hærri tekjur án þess að örorkulífeyrir þeirra skerðist. Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður ÖBÍ réttindasamtaka fagnar þessu á FB síðu sinni og minnir á að frítekjumark öryrkja hefur verið óbreytt frá árinu 2009.

„Einnig berast fregnir af því að skattlausa eingreiðslan verði 60.000 kr. í ár. Hvoru tveggja hafa ÖBÍ réttindasamtök barist kröftuglega fyrir á hverju einasta ári. ÖBÍ náði fram skattlausu eingreiðslunni fyrst árið 2019 sem var mikið sanngirnismál og er enn þá,“ segir Þuríður sem einnig þakkar Guðmundi Inga Guðbrandssyni fyrir að sýna í verki að hann sé ráðherra fatlaðs fólks.

Þá segir hún gríðarlega mikilvægt að örorku- og endurhæfingarlífeyrir hækki um amk 10% um áramót, til að mæta þeirri verðbólgu sem mest bitni á þeim sem verst standa. Þá þurfi að passa að bilið á milli lágmarkslauna og örorkulífeyris aukist ekki heldur dragist saman í komandi kjaraviðræðum. Örorku og endurhæfingarlífeyrir verði að hækka að minnsta kosti jafnmikið og auðvitað helst talsvert meira svo á Íslandi búi ekki fólk við framfærslu undir lágmarkslaunum.

Eftir sem áður eru skerðingar við líði í örorkulífeyriskerfinu og við fyrstu atvinnutekjur skerðist framfærsluuppbót enn að fullu.

Auk hækkunar á tekjuviðmiðum er gert ráð fyrir að sveitarfélög auki framlög við málaflokk fatlaðs fólks en með endurskoðun tekjuáætlunar er gert ráð fyrir því að ríkissjóður gefi eftir 5 milljörðum króna. af tekjuskatti einstaklinga á móti sambærilegri hækkun á útsvarstekjum sveitarfélaga, eins og greint frá fyrir nokkrum vikum. Þannig eigi að bæta tekjustofn þeirra svo þau geti aukið fjármagn í málaflokkinn. Gert er ráð fyrir sérstöku samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga sem komi fram sem viðauki við fyrri samninga um fjármögnun málaflokksins.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí