Fulltrúadeildin að falla og öldungadeildin á bláþræði

Fastlega má búast við að Repúblikana náði ágætum meirihluta í Fulltrúadeildinni í kosningunum í Bandaríkjunum í dag. Og það er heldur líklegra en ekki að þeir nái líka meirihluta í Öldungadeildinni. Og þá mun Joe Biden eiga erfitt með að ná nokkru í gegnum þingið sem máli skiptir.

Kosningabaráttan hefur ekki dregið úr skautun bandarískra stjórnmála, þvert á móti magnað hana. Báðir flokkar halda því fram að þetta séu mikilvægustu kosningar sögunnar. Repúblikanar segjast vera að bjarga Bandaríkjamönnum frá því að Joe Biden geri landið að sósíalísku ríki. Demókratar vilja stoppa Repúblikana í að sveigja Bandaríkin í átt að fasisma, undirbúa endurkomu Donald Trump eftir tvö ár.

Þetta eru kannski ystu jaðrar umræðunnar. Gallinn er að það sem sagt er þarna á milli kaffærist í hávaðanum.

Miklar líkur á að Repúblikanar vinni í Fulltrúadeildina

Í fulltrúadeildinni sitja 435 þingmenn, sex þeirra reyndar án fulls atkvæðaréttar. Það eru fulltrúar frá höfuðborginni Washington og yfirráðasvæðum Bandaríkjanna í Karíbahafinu, Puerto Rico og bandarísku Jómfrúareyjunum, og Kyrrahafinu, Guam, Samoa og Norður-Maríanaeyjar. En látum það liggja milli hluta.

Til að ná meirihluta þurfa flokkarnir að fá 218 fulltrúaþingmenn kjörna. Demókratar fengu 222 þingmenn í kosningunum 2020 og Repúblikanar 213. Meirihluti Demókrata var níu manns.

Í gegnum tíðina hefur það gerst undantekningarlaust að flokkur forsetans tapar fylgi í þingkosningunum á miðju kjörtimabili hans. Meðaltalið frá stríðslokum er 26 þingmenn. Joe Biden og Demókratar þurfa því að sigra söguna, ef þeir ætla að halda meirihluta í fulltrúadeildinni.

Vefur tölfræðingsins Nate Silver, FiveThirtyEight, tekur saman meðaltal skoðanakannana og það segir að Repúblikanar muni fá 230 þingmenn í Fulltrúadeildina en Demókratar 205. Meðaltalið segir að 9 manna meirihluti Demókrata muni snúast í 25 manna meirihluta Repúblikana.

En þetta er bara meðaltal skoðanakannana. Kannanir mæla bæði stærri meirihluta og minni. Þegar fólkið hans Nate Simver hefur greint þær og skoðað segir það að líkurnar á meirihluti Demókrata falli séu 84%. Það eru enn 16% möguleiki á að Repúblikönum takist ekki að ná meirihluta í Fulltrúadeildinni.

Svona er framtíðin og hin óorðna tíð, aldrei hægt að slá neinu föstu. Í hverju augnabliki býr möguleikinn á að eitthvað óvænt gerist.

Meirihlutinn í öldungadeildinni hangir á bláþræði

Fyrstu dagana eftir að Hæstiréttur sneri við Roe vs. Wade dóminum í júní töldu Demókratar að sú reiðibylgja sem sá dómur vakti myndi fleyta þeim til varnarsigurs hið minnsta. Það gekk ekki eftir. Og síðustu vikurnar hefur skilið á milli flokkanna, Repúblikanar eru í sókn.

Fram á síðustu vikur sagði meðaltal kannana að Demókratar gætu náð meirihluta í Öldungadeildinni, í það minnsta haldið óbreyttri stöðu þar sem hvor flokkur hefur 50 þingmenn og atkvæði Kamala Harris varaforseta nær að tryggja Demókrötum meirihlutann. En nú segir Nate Silver og félagar að 56% líkur séu á því að Repúblikanar nái meirihlutanum í deildinni. Sem er eiginlega 50/50, allt getur gerst. En staða Repúblikana hefur batnað að undanförnu. Fyrir tveimur mánuðum var möguleiki þeirra á að ná meirihlutanum í Öldungadeildinni aðeins metinn 30%.

Kjörtímabil öldungadeildarþingmanna er sex ár svo nú er aðeins kosið um 35 sæti. Af þeim segja kannanir að Repúblikanar gætu helst af öllu náð manni af Demókrötum í Georgíu.

Raphael Warnock demókrati hreppti þetta sæti í annarri umferð aukakosninga í janúar í fyrra, felldi Kelly Loeffler sem hafði verið skipuð en ekki kosinn þegar Johnny Isakson sagði af sér af heilsufarsástæðum. Nú er komið að vanabundnum kosningum um þetta sæti og þá sýna kannanir að 2/3 líkur séu á að Repúblikaninn Herschel Walker sigri Warnock. Reyndar er munurinn svo lítill að nokkrar líkur eru á að úrslitin ráðist ekki í dag, að hvorugur fái 50% atkvæða plús eitt og því þurfi að kjósa á milli þeirra í janúar.

Repúblikanar gætu líka náð sæti af Demókrötum í Nevada, en líkurnar eru minni í öðrum fylkjum.

Fylkisstjórar í hættu

Það er einnig kosið um fylkisstjóra. Í Kansas stendur Laura Kelly demókrati nokkuð tæpt en hún sækist eftir endurkjöri.

Í Arizona hefur Repúblikaninn Doug Ducey verið fylkisstjóri frá 2015 en má ekki bjóða sig fram aftur svo flokkurinn bíður upp á sjónvarpsfréttakonuna Kari Lake sem er heitur Trumpisti, hefur meðal annars haldið því fram að kosningasvindl hafi tryggt Joe Biden sigur yfir Danald Trump 2020. Hún keppir við Katie Hobbs utanríkisráðherra Arizona. Kannanir benda til að Lake muni sigra, en kosningabaráttan hefur verið hörð.

Við Rauða borðið í kvöld ræðum við stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum á kosningadegi við Magnús Helgason sagnfræðing.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí