Fyrirmynd sótt til ills ástands á finnskum húsnæðismarkaði

Meirihlutinn í Reykjavík fékk fyrrum borgarstjóra Helsinki til að ávarpa fund sinn um húsnæðisstefnu borgarinnar. Það er eilítið sérstakt, því staða láglauanfólks á leigumarkaði er verri í Finnlandi en á Íslandi.

Staða húsnæðismála í Finnlandi hefur lengi verið sveipuð ljóma félagslegs réttlætis, öryggis og velferðar. Í áratug hafa yfirvöld bæði hjá ríki og sveitarfélögum dásamað árangur frænda okkar í Finnlandi fyrir uppbyggingu á íbúðarhúsnæði. Margar heimsóknir hafa verið farnar austur yfir Eystrasaltið með það að markmiði að læra þessa kúnstina af finnum. Sérstakt hefur þó þótt að kjörnir fulltrúar úr öllum stjórnmálaflokkum hafa mært finna á sviði húsnæðismála, þrátt fyrir að aðhyllast að því er virðist gjörólíkar stefnur í þeim málum hér heima fyrir. Það gæti kannski verið að staða húsnæðismála í Finnlandi sé eitthvað málum blandin.

Borgarstjórinn í Reykjavík sá sig knúinn til þess að bjóða Jan Vapaavuori fyrrverandi borgarstjóra Helsinki og efnahagsráðherra Finnlands á nýyfirstaðinn fund um stöðu húsnæðismála í borginni. Vapavuori er álitinn mikil stjarna á meðal fjárfesta og aðila sem sinna þróun á fasteignaverkefnum, hann er í stjórn World Economic Forum og líka einn helsti ráðgjafi samtakanna. Erindi hans á fundinum í ráðhúsinu var að tala um mikilvægi þess að þjónusta fjármagnið í húsnæðismálum með ábatasamri samvinnu við hið opinbera og tryggja góða arðsemi fjárfestinga. Eitt af helstu áherslum Jan í starfi sínu sem borgarstjóri Helsinki var að tryggja góða virkni borgarinnar, sjálfbærni, alþjóðavæðingu og nýsköpun. Hans hefur verið minnst sem borgarstjóranum sem kom Helsinki á kortið fyrir mörg nýsköpunarfyrirtæki og fyrir að innleiða stafræna þjónustu í borginni.

Efnahags- og framfarastofnunin OECD hefur mælt stöðu húsnæðismála hjá aðildarríkjum sínum um árabil og býr yfir nokkuð umfangsmiklum greiningum á þeirri stöðu. Hefur stofnunin sérstaklega safnað gögnum um húsnæðiskostnað og þ.á.m. frá Íslandi og Finnlandi. Markmið OECD er að hafa áhrif á stefnu ríkjanna í efnahagsmálum þannig að það leiði til velferðar, jafnréttis, jafnra tækifæra og auðlegðar. Og þar með á húsnæðisstefnu ríkjanna. Gæði húsnæðisstefnu felst ekki síst í hversu aðgengilegt húsnæði er fyrir þá sem eru á leigumarkaði og láglaunahópa. Það leiðarljós kemur kannski skýrast fram í fyrirsögn húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar sem ber heitið “Öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði.”

Í nýlegri skýrslu frá stofnunni sem ber heitið Housing cost over income eða húsnæðiskostnaður í hlutfalli við tekjur og kom út fyrir nokkrum mánuðum er dregin upp mynd af stöðu húsnæðiskostnaðar og launafólks í aðildarríkjunum. Í skýrslunni er sjónum beint að íþyngjandi húsnæðiskostnaði hjá þremur mismunandi hópum, þ.e. fasteignaeigendum, leigjendum á almennum markaði og leigjendum á félagslegum markaði. Íþyngjandi húsnæðiskostnaður er samkvæmt skilgreiningum OECD þegar að kostnaðurinn fer yfir 40% af ráðstöfunartekjum heimila.

Í niðurstöðum OECD um íþyngjandi húsnæðiskostnað kemur Finnland verst út af öllum aðildarríkjunum. 31% af öllum heimilum á leigumarkaði í Finnlandi bera íþyngjandi húsnæðiskostnað og um 14% fasteignaeigenda. Ísland er í fimmta sæti listans. En ef litið er á íþyngjandi húsnæðiskostnað láglaunahópa á meðal leigjenda á félagslega reknum leigumarkaði er Ísland í 3ja sætið en Finnland vermir enn fyrsta sætið. Það virðist sem svo að einhverskonar sveltistefna sé rekin í húsnæðismálum í Finnlandi. Finnar eru þó þekktir fyrir að útrýma heimilisleysi og að sveitarfélögin eiga mikið af leiguhúsnæði á almennum markaði, sem rekin eru sem sjálfstæð fyrirtæki.

Aðspurður af hverju Finnar rækju svona harkalega stefnu í húsnæðismálum og veltu svona miklum kostnaði yfir á láglaunahópa þar svaraði Jan Vapaavuori því til að líklegast væri það vegna þess að íbúðirnar væru af miklum gæðum og kostnaður því hár, að það væri kalt í Finnlandi líkt og á Íslandi.

NREP sjóðurinn, langstærsti fjárfestingarsjóður Norðurlanda sem fjárfestir í fasteiganverkefnum tryggði sér nýlega starfskrafta Vapaavuori og starfar hann nú sem helsti ráðgjafi sjóðsins varðandi fjárfestingar í húsnæði, hjúkrunarheimilum og innviðum borga. Sjóðurinn safnaði nýlega 1.9 milljörðum evra fyrir næstu áfanga í fjárfestingum sínum sem meðal annars eru húsnæðismarkaðir í Póllandi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí