Danmörk hefur lent ofarlega á listum yfir besta heilbrigðiskerfi í heimi á síðustu árum en þjónustan hefur þótt góð fyrir þær sakir að vera hátæknileg og ókeypis þ.e. fjármögnuð með skattfé íbúanna svo hún hefur ekki innihaldið beinar greiðslur. Þá hafa Covid bólusetningar verið gjaldfrjálsar hingað til en í September ákváðu stjórnvöld í Danmörku að innleiða gjaldskylduáætlun fyrir þá hópa sem ekki teljast vera með undirliggjandi áhættuþætti hvað varðar það að veikjast illa af veirunni.
Fólk mun nú geta keypt sér fjórðu bólusetninguna eða annan örvunarskammtinn í gegnum lækna, apótók og fleiri aðila. Danska ríkið niðurgreiðir bóluefnið en danska heilbrigðisráðuneytið segir að verðið geti þó verið mishátt eftir því hvar það er verslað.
Covid-19 smitum hefur farið fjölgandi í Danmörku eins og hér heima en telst ekki lengur samfélagsógn þar í landi fremur en á Íslandi.
Sóttvarnarlæknir segir frá því á vefsíðunni covid.is að hér á landi hafi 219 látist af völdum veirunnar og af þeim fjölda hafi 180 látist á þessu ári. Þar af voru 129 andlát á tímabilinu febrúar-apríl og létust 25 manns í júlí og 5 í ágúst og september. Þetta er rakið til þess að tvær stærstu Covid bylgjurnar frá upphafi gengu yfir fyrr á þessu ári.
Í alþjóðlegum samanburði er fjöldi andláta vegna Covid-19 á Íslandi árin 2020-2022 lágur miðað við mannfjölda þrátt fyrir aukninguna á þessu ári.
Tölur frá Peoples Vaccine Alliance sýna að fyrirtækin á bak við tvö af vinsælustu Covid-19 bóluefnunum Pfizer, BioNTech og Moderna voru með samanlagðan hagnað upp á $65,000 eða um 9,5 milljónir á hverri mínútu árið 2021. Tölurnar byggðu á nýjustu skýrslum fyrirtækisins sem gefnar voru út fyrir hinn árlega STAT leiðtogafund sem segja má að sé einskonar „Big Pharma Davos“ og var haldinn dagana 16.-18. nóvember á síðasta ári.
Bósuetning á Íslandi er fólki enn að kostnaðarlausu og hvetur heilsugæslan fólk og þá sér í lagi eldra fólk og fólk í áhættuhópum almennt til að koma og þiggja örvunarskammta.