Hægrafólkið treystir Katrínu, en vinstrafólkið ekki

Samkvæmt traustmælingu Maskínu eru aðeins fjórir ráðherrar sem fleiri segjast treysta mikið en lítið: Ásmundur Einar Daðason, Katrín Jakobsdóttir, Willum Þór Þórsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. Hinir átta eru í mínus-stöðu gagnvart almenningi. Og þrír ráðherrar eru í þeirri stöðu að meirihluti landsmanna treystir þeim lítið: Lilja Alfreðsdóttir, Jón Gunnarsson og Bjarni Benediktsson.

Það er hefð að spyrja Íslendinga hvort þeir treysti ráðafólki á meðan fólk í örðum löndum er spurt hvort það sé ánægt með störf ráðafólksins. Í dag segjast 42% Bandaríkjamanna vera ánægð með störf Joe Biden forseta en 53% ekki. Þetta er frekar vond staða, til dæmis svipuð og var hjá Donald Trump í kosningunum 2020 þegar hann tapaði fyrir Biden.

Bara Ásmundur Einar (46%) og Katrín (43%) skora hærra í trausti en Biden í sátt um verk hans. Og tveir ráðherra skora lægra í trausti en Biden í óánægju með verk hans: Bjarni (62%) og Jón Gunnarsson (59%).

Ef við notum Biden áfram sem reglustiku þá er hann með -11% sátt við störf hans, það er ef við drögum hina ósáttu frá hinum sáttu. Samskonar meðferð á listanum yfir íslensku ráðherranna kemur svona út:

Ráðherrar í hlýjunni:
Ásmundur Einar Daðason: +20%
Katrín Jakobsdóttir: +6%
Willum Þór Þórsson: +3%
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir: +1%

Ráðherrar í kuldanum:
Bjarni Benediktsson: -39%
Jón Gunnarsson: -38%
Lilja Alfreðsdóttir: -32%
Svandís Svavarsdóttir: -21%
Guðmundur Ingi Guðbrandsson: -17%
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir: -13%
Sigurður Ingi Jóhannsson: -11%
Guðlaugur Þór Þórðarson: -3%

Samkvæmt þessu er Sigurður Ingi í svipaðri stöðu og Biden en Guðlaugur, Þórdís, Willum, Katrín og einkum Ásmundur í betri stöðu. Á þennan mælikvarða er Ásmundur eiginlega í sérflokki.

Og Áslaug Arna, Guðmundur Ingi og Svandís er í lakari stöðu en Biden, en þó einkum Lilja, Jón og Bjarni. Þeirra staða er nálægt pólitísku alkuli. Í flestum löndum væru þau nú að leita að nýju starfi.

En skoðum aðeins stöðu formannanna:

Katrín nýtur trausts frá hægri

Ef við skiptum stjórnmálaflokknum í hægri (Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn, Miðflokkur og Framsókn) og vinstri (Samfylkingin, Píratar, Vg, Sósíalistar og Flokkur fólksins) þá mælist Katrín með 29% traust hægra megin en aðeins 16% vinstra megin, þótt hennar flokksfólk sé þar.

Og þetta speglast hjá fólki sem treystir Katrínu lítið. 27% vinstra fólksins segist treysta henni lítið en 13% hægra fólksins.

Nettóstaða Katrínar er því +16% hægra megin en -11% vinstra megin. Þetta er sveifla upp á 27%. Það virðist vera að gerast hjá Katrínu sem gerðist hjá Ólafi Ragnari Grímssyni, að með tímanum skiptir vinstrimaðurinn um stuðningsfólk, rennur til hægri.

Það er ekki mikill munur á afstöðu til Katrínar eftir búsetu, tekjum eða menntun. Ekki heldur eftir kynjum, þar er munurinn sáralítill. Það má hins vegar sjá að því eldra sem fólk er því betur treystir það Katrínu.

Sigurður Ingi er hægri maður

Ef marka má þá sem treysta Sigurði Inga þá er hann hægri maður. Hann er með +15% traust hjá hægrinu en -22% hjá vinstrinu. Þetta er mikill munur, 37%.

Það má sjá þetta sama hjá Willum, hann skorar fyrst og fremst hægra megin, betur en Sigurður Ingi en fær á móti enn minna traust frá vinstrinu. Munurinn er minni hjá Lilju og minnstir hjá Ásmundi Einari, sem er sá ráðherrann sem nær að höfða best til beggja átta. Í raun sá eini sem nær eitthvað yfir miðjuna, hinir eru allir hægra megin.

Traustið á Sigurði Inga vex eftir því sem fólk er eldra, með hærri tekjur og býr fjær höfuðborginni.

Bjarni nær ekki út yfir eigin rann

Bjarni Benediktsson fær 74% traust frá eigin flokksmönnum, örlítið meira en Sigurður Ingi (73%) en miklu minna en Katrín (95%). Það sem er sérstakt við Bjarna er að hann fær sáralítið traust frá stuðningsfólki annarra flokka.

Aðeins 10% kjósenda Viðreisnar treysta Bjarna, þótt Viðreisn sé í huga marga næsti bær við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta er mun lægra en aðrir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins: Þórdís (41%), Guðlaugur Þór (39%) og Áslaug Arna (34%). Bara Jón Gunnarsson skorar verr hjá Viðreisn (5%)

Bjarni er með næst mest traust hjá kjósendum Framsóknar (25%). Næst besta skor hjá Sigurði Inga er hjá Sjálfstæðisflokknum (54%). Hjá Katrínu er það meðal Framsóknarmanna (64%).

Með stuðningi sinna flokksmanna nær +3% trausti hjá hægri mönnum en er með -39% hjá vinstri mönnum.

Traustið á Bjarna skiptist líka mest eftir samfélagshópum. Því eldri sem fólk er því meira dregur úr vantrausti á Bjarna og því tekjuhærra sem fólk er.


Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí