Samkvæmt skýrslu ÖBÍ réttindasamtaka frá árinu 2020 var heildarsumma greiddra komugjalda inn í heilbrigðiskerfið það árið 1,7 milljarður króna. Ef miðað er við verðhækkanir á árinu í ár má áætla að sú upphæð standi í um 5 milljörðum króna í dag. Það er fé sem mest er sótt í vasa þeirra sem síst hafa efnin.
Hækkun komugjalda eru tilkomin vegna þess að samningar ríkisins við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara runnu út en hafa ekki verið endurnýjaðir. Þessi aukagjöld eru stundum kölluð „leiðréttingargjöld” á reikningum. Upphæðin er misjöfn en kostnaðurinn bitnar mest á þeim sem þurfa mest á þjónustunni að halda. Og sá hópur hefur síst efni á útgjöldunum enda oftast langveikt fólk á örorkulífeyri. Samkvæmt könnun sem Varða gerði fyrir ÖBÍ á síðasta ári neita margir öryrkjar sér um heilbrigðisþjónustu vegna hás kostnaðar.
Þetta kom fram á málþingi sem heilbrigðishópur samtakanna hélt í gær. Þar sagði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra í inngangi að eftir að samningar við sérgreinalækna runnu út í lok árs 2018 hafi ráðuneytið sett á reglugerð um endurgreiðslukostnað sem síðan hafi ítrekað verið framlengd. Hann sagði meira en viljann þurfa til að samningar næðust en biðlistar hefðu lengst vegna uppsafnaðrar þarfar fyrir þjónustu.
Rukkað tvöfalt komugjald
Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður heilbrigðismálahóps ÖBÍ, sýndi fram á há útgjöld með dæmi af einstakling sem hafði farið til sérgreinalæknis daginn áður og þurft að greiða 5.300 krónur auk virðisaukaskatts vegna svokallaðrar „leiðréttingar”.
Þá nefndi hann dæmi þess að einstaklingar hafi verið rukkaðir um tvöfalt komugjald ef verið var að gera tvær aðgerðir í einu þrátt fyrir að þær hafi verið gerðar á sama stað og sama tíma.
Komugjöldin eru aðgengismál
Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur, sagði komugjöldin vera aðgengismál en hann gagnrýndi ríkisvaldið fyrir að spara fjármagn í heilbrigðiskerfinu.
Ragnar segir 400 íslenska lækna vera búsetta í Svíþjóð og vilji ekki koma heim vegna þess að hér séu laun ekki sambærileg við það sem tíðkast ytra. Svipaða sögu er að segja af hjúkrunarfræðingum sem upp til hópa fari í önnur störf. Þá sagði Ragnar að gera þyrfti gangskör þegar kemur að geislafræðingum.
Ragnar sagði að skipuleggja mætti heilbrigðiskerfið á mun hagkvæmari hátt og nefndi í því tilfelli Covid deildina sem sett var upp í faraldrinum en þar kom í ljós að bara við það að tala við fólk í síma, hugga og gefa næringu í æð á göngudeild varð til þess að draga úr innlögnum um 70%. Ef hægt er að minka þjáningu og veikindi með því að auka aðgengi og grípa strax inn í þá sparast peningar. Í því samhengi vísaði hann einnig á Dr. Douglas Eby, sem reisti upp aðgengi að heilbrigðisþjónustu meðal frumbyggja Alaska og dró úr kostnaði þess á sama tíma í gegnum Nuka System of Care.
Þarfagreining bara flott orð
María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga, sagði almennan samhljóm um vilja til samninga, en velti því samt fyrir sér hvað pólitíkin ætlaðist fyrir. Hvort stefnan væri að setja upp kerfi einkatrygginga eða setja meira fjármagn í þjónustuna. Þá var rætt um einingaverð og þarfagreiningar en María sagði þær m.a. mikilvægar til að tryggja mannskap.
„Þarfagreining er flott orð en þegar tvö þúsund manns eru að bíða eftir liðskiptum, 5.700 konur bíða eftir legnámi og þegar hálfur iðjuþjálfi er ráðinn á vesturhluta landsins fyrri 2.700 manns eru þarfagreiningar augljóslega ekki að skila sér” sagði Ragnar Freyr.
Heilbrigðiskerfið varla svipur hjá sjón
„Álagið á lækna er orðið of mikið, þeir eru með of marga sjúklinga hver og því er reynt að skera tímann við nögl til að koma sem flestum að sem bitnar auðvitað á þjónustunni” sagði Geirdís Hanna Kristjánsdóttir öryrki sem var gestur ráðstefnunnar.
„Í mínu tilfelli er ég búin að biðja heimilislækninn minn í þrígang um að vísa mér til sérfræðings út af hálsinum á mér af því ég er með skemmda hálsliði en það gerist ekkert,“ sagði Geirdís Hanna. „Ég er með stöðuga verki og er einu sinni búin að fá lömun í helminginn af andlitinu út af þessu en ég fæ ekki hlustun. Mér finnst tilgangslaust að fara aftur og aftur til læknis ef það er ekki hlustað á mig. Og verandi í minni stöðu þá hef ég ekki efni á því að ganga á milli sérfræðilækna og borga hverjum og einum komugjöld til að leita lausna við mínum vanda. Mér fannst gott á þessu málþingi þegar talað var um hvað eigi að gera við hina sem út af standa og fá ekki þjónustu af því það er aðeins veitt fjármagn fyrir ákveðið marga í hvert verk eða hina og þessa þjónustu. Fólk er ekki að fara til læknis bara af því það er eitthvað leiðinlegt í sjónvarpinu” segir Geirdís og bætir við að henni finnist heilbrigðiskerfið á Íslandi varla vera svipur hjá sjón frá því hún var sjálf barn og unglingur.
Það eru fjögur ár síðan samningar við sérgreinalækna áttu að vera í höfn en ekkert gerist. Hægt er að sjá streymi af málþinginu á vefsíðu ÖBÍ réttindasamtaka hér: Upptaka frá málþingi um komugjöld í heilbrigðisþjónustu.