Panik yfir góðum fréttum úr hagkerfinu

Markmið Samtaka atvinnulífsins er að klára samning við samflot Starfsgreinasambandsins og iðnaðarmanna sem allra fyrst og áður en fleiri fréttir berast af því hversu sterkt efnahags- og atvinnulífið stendur. Það varð því nokkur paník í herbúðum SA þegar Hagstofan birti í morgun upplýsingar um 7,3% hagvöxt á fyrstu níu mánuðum ársins þegar Seðlabankinn hefur spáð 5,2% hagvexti yfir allt árið. Hagfræðiráðunautur SA var því sendur í að skrifa frétt Hagstofunnar niður.

Konráð S. Guðjónsson, fyrrum hagfræðingur Viðskiptaráðs og nú sérstakur hagfræðiráðunautur SA í tengslum við kjarasamninga skrifaði grein á Vísi og hélt því fram að þessi bullandi hagvöxtur gæfi ekki tilefni til launahækkana. Konráð segir hann byggðan á fjölgun starfa en ekki aukinni framleiðni. Og hann bendir á óvissuna í framtíðinni, eins og Samtök atvinnulífsins hafa gert í þessari samningalotu og notið við það stuðning stjórnvalda.

Þrátt fyrir að Hagstofan hafi í raun kippt fótunum undan taktík SA þá reyna samtökin áfram að halda lífi í skuggamyndum sínum. Þetta er kapphlaup fjármagns- og fyrirtækjaeigenda. Að ná að semja áður en fleiri góðar fréttir komi fram, sem stangast á við þá skuggamynd sem SA hefur dregið upp af framtíðinni. Markmiðið er að halda þeirri trú að fólkinu í karphúsinu að í raun sé um ekkert að semja, launafólk eigi að sætta sig við að taka á sig kjaraskerðingu vegna óvissunnar.

Það er ekki bara fréttir um miklu meiri hagvöxt sem hafa sloppið út. Níu mánaða uppgjör fyrirtækja sýna einstaka gósentíð, sem minnir æ meira á góðærið 2007. Eins og reyndar hagvöxturinn, hann hefur ekki mælst meiri en það ágæta ár. Uppgjör Landsvirkjunar sýndi ekki aðeins methagnað þess fyrirtækis heldur að sá hagnaður byggði á háu álverði og þar með frábærri afkomu stóriðjunnar. Uppgjör sjávarútvegsfyrirtækja hafa sýnt methagnað og það sama má segja um svo til öll fyrirtæki á landinu. Nema kannski Play. Í ár verður slegið met í földa gistinátta erlendra ferðamanna.

Þessi gósentíð kom líka fram í upplýsingum Hagstofunnar um fjölda gjaldþrota fyrirtækja. Þau hafa aldrei verið færri. Og þau eru ekki rétt aðeins færri heldur aðeins um fjórðungur af því sem er í venjulegu árferði.

Launavísitalan sýnir merki um launaskrið enda vantar flestum fyrirtækjum starfsfólk. Vinnuaflsþörfin hefur aldrei verið meiri. Það hafa aldrei verið fleiri starfandi á Íslandi. Og atvinnuleysi er við sögulegt lágmark.

Allar þessar upplýsingar grafa undan áróðri SA um vofeiflega tíma og myrka framtíð. Og af snöggum viðbrögðum samtakanna í morgun, að senda hagfræðiráðunautinn strax í að berja niður góðar fréttir, sést að allt kapp er lagt á að klára samninga undir óvissuskýinu áður en fleiri góðar fréttir brjótast fram.

Skammtíma samningar eru oft gerðir þegar óvissa er mikil. Samningar eru þá gerðir á grundvelli þess sem er þekkt. Þegar fram vindur kemur svo í ljós hver óvissan var, og þá er samið að nýju. Taktík SA í þessum samningum er að ná skammtíma samningum, en alls ekki á því sem er þekkt, sem er mikil geta fyrirtækja til launahækkana, heldur einmitt út á óvissunni. Að ekki sé hægt að semja út frá upplýsingum dagsins vegna þess að upplýsingar morgundagsins gætu orðið aðrar.

Stjórnvöld og Seðlabanki hafa fallist á þessa taktík og hluti samningsfólk launafólks, sem situr nú undur óvissuskýjum hönnuðum af SA og reynir að búa til samning sem fellur að þeirri veðurspá. Sér ekki sólina sem skín af svo til öllum mælum sem mæla mátt atvinnulífsins.

Markmið SA er að sannfæra fólk um að höfuðvandinn sé ekki kaupmáttarrýrnun fólks vegna verðbólgu og óáran á húsnæðismarkaði, heldur eitthvað allt annað. Mögulega óvissa um hagnað fyrirtækja eftir eitt ár eða tvö.

Myndin er af Halldóri Benjamín Þorbergssyni framkvæmdastjóra SA og Konráð S. Guðjónssyni hagfræðilegum ráðunaut samtakanna.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí