Píratar hafa lagt frumvarp um breytingar á því hvernig þingsætum er úthlutað milli flokka. Miðað við úrslit síðustum kosninga yrði breytingin helst sú að Sósíalistaflokkurinn færi á þing, tæki menn af Framsókn og Sjálfstæðisflokki.
Fyrsti flutningsmaður er Björn Leví Gunnarsson og ber frumvarpið merki þess, er konfekt fyrir áhugafólk um tölfræði og útreikninga. Markmiðið er að laga augljósa galla á kosningakerfinu, en í undanförnum kosningum hefur ekki tekist að ná jafnvægi milli fylgis flokka og þingmannafjölda þeirra. Oftast er það Framsóknarflokkurinn sem græðir á þessu.
Vandinn hefur verið skilgreindur svo að uppbótarmenn séu of fáir eftir að flokkum fjölgaði, lausnin væri að fækka kjördæmakjörnum mönnum og fjölga uppbótarmönnum svo fleiri væru til skiptanna. Björn Leví og Píratar leggja til aðra leið, að breyta reikningsaðferðinni við útdeilingu kjördæmakjörinna manna þannig að þeim sé ekki úthlutað í hverju kjördæmi fyrir sig heldur yrði fjöldi kjördæmakjörinna manna fyrst fundinn út með einföldum hlutfallsreikningi og þeim síðan deilt á milli kjördæmanna.
Björn Leví vill sem sé fella D’Hondt-regluna, sem er aðferð til útdeilingar þingsæta sem hyglir fremur hinum stærri flokkum. Þessi regla hefur ekki raskað mikið úrslitum þingkosninga á Íslandi en hefur haft umtalsverð áhrif á sveitarstjórnarkosningar, jafnvel tryggt áframhaldandi meirihluta sem hefðu fallið ef aðrar reikningsaðferðir hefðu verið notaðar, t.d. Sainte-Laguë-aðferðin sem algengara er að notuð sé á sveitarstjórnarstigi á Norðurlöndum og sem hyglir ekki eins stærri framboðum.
En D’Hondt-reglan er ekki það sem breytir mestu í frumvarpi Björns Leví heldur sú aðferð að deila fyrst kjördæmakjörnum mönnum milli flokkanna og skipta svo kjördæmakjörnum þingmönnum milli kjördæmanna. Þetta er í raun leið til að eyða skaðanum af þröskuldinum við útdeilingu uppbótarþingmanna og því hversu fáir þingmenn eru í hverju kjördæmi og þröskuldurinn því hár að ná inn kjördæmakjörnum manni.
Björn Leví rekur í greinargerð hvaða áhrif þetta hefur haft í liðnum kosningum. Munurinn var mestur 2013: „Sjálfstæðisflokkurinn tvö þingsæti umfram hlutfallslegan atkvæðafjölda. Framsókn fékk fjögur þingsæti umfram hlutfallslegan atkvæðafjölda og Samfylkingin og Björt framtíð eitt. Dögun, Flokkur heimilanna og Lýðræðisvaktin fengu tveimur færri sæti en þau samtök hefðu hlutfallslega átt að fá og Hægri grænir og Regnboginn einu færra sæti,“ segir í greinargerðinni. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem myndaður var eftir kosningarnar hefði því ekki orðið 38 manna heldur 32 manna, minnsti mögulegi meirihluti.
Og áfram: „Í kosningunum 2016 fékk Sjálfstæðisflokkurinn þrjú sæti umfram hlutfallslegan atkvæðafjölda. Píratar, Framsókn og Viðreisn fengu eitt umframsæti. Flokkur fólksins fékk þremur færri sæti og Björt framtíð, Samfylking, og Dögun fengu einu færra sæti.“ Eftir þessar kosningar var myndaður meirihluti Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar með aðeins 32 þingmönnum. Ef aðferð Björns Leví hefði verið notuð hefði það ekki verið hægt.
„Í kosningunum 2017 fékk Framsóknarflokkurinn eitt aukasæti á kostnað Samfylkingarinnar og í kosningunum 2021 fékk Framsókn tvö aukasæti og Sjálfstæðisflokkurinn eitt á kostnað Sósíalistaflokksins,“ segir í greinargerðinni, en þetta hefði ekki raskað ríkisstjórnum Katrín Jakobsdóttur, 2017 hefðu Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Vg verið með 34 manna meirihluta og jafnstóran eftir síðustu kosningar.
Það sem veldur þessum mun atkvæðamagns og þingsætafjölda er fyrst og fremst 5% þröskuldurinn, síðan skortur á uppbótamönnum til að jafna á milli en síst D’Hondt-reglan.
Það má hins vegar breyta D’Hondt með lögum og reyndar líka fjölda uppbótarmanna, en ekki 5% þröskuldinum við útdeilingu uppbótarmanna. Hún er bundin í stjórnarskrá, sem forvígismönnum stórra flokka hefur þótt snjallt á sínum tíma, að gera það erfitt að leiðrétta skaðann.
„Þau stjórnmálasamtök koma þó ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa minnst fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu,“ stendur í 31. grein stjórnarskrárinnar.
Í frumvarpi stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er þetta ekki að finna heldur stendur þar: „Þingsætum skal úthluta til samtaka frambjóðenda þannig að hver þeirra fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu.“ Og almennt er útfærsla kosningalaga að mestu færð frá stjórnarskrá til þings, en þó þannig að 2/3 atkvæða þurfi til og að óheimilt sé að breyta kosningalögum ef minna en sex mánuðir eru til kosninga.
Aðferð Björns Leví er því að fara framhjá 5% þröskuldinum með því að deila út kjördæmaþingmönnum eins og það væri gert af 58 manna landslista. Við það lækkar þröskuldur kjördæmakjörinna þingmanna úr um það bil 9-14% atkvæða í kjördæmi í um það bil 1,7%. Björn Leví leggur til að fyrst sé þessum 58 deilt á milli flokka og síðan kjördæmakjörnum þingmönnum hvers flokks á milli kjördæmanna. Og þannig tekst honum að sveigja framhjá annmörkum 5% þröskuldsins sem forystufólk fjórflokksins svokallaða setti í stjórnarskrá til að verja eigin flokka fyrir lýðræðinu.
Björn Leví birtir töflu í greinargerðinni sem sýnir hvernig niðurstaða síðustu kosninga hefðu orðið ef hans aðgerð hefði verið notuð og ef 5% þröskuldurinn væri ekki fyrir. Hér er sú tafla (og innan sviga breyting frá úthlutun eftir kosningarnar):
Sjálfstæðisflokkur: 15 þingmenn (-1)
Framsókn: 11 þingmenn (-2)
Vg: 8 þingmenn (óbreytt)
Samfylking: 6 (óbreytt)
Flokkur fólksins: 6 (óbreytt)
Píratar: 6 (óbreytt)
Viðreisn: 5 (óbreytt)
Miðflokkur: 3 (óbreytt)
Sósíalistaflokkur: 3 (+3)
Þar sem 5% þröskuldur til útdeilingar uppbótarþingmanna er til staðar yrði niðurstaðan ekki þessi, heldur myndi einn maður flytjast frá Sósíalistum yfir á Miðflokk.
Frumvarp Píratana dregur ágætlega fram veikleika kosningakerfisins á Íslandi. Flest fólk telur að kosningar snúist um að kjósendur velji sér þingmenn. En með kjördæmakerfinu, aðferð við útdeilingu þingmanna og þröskuldum er ekki svo. Kerfið snýst um að láta stærri flokka fá sem flesta þingmenn, þótt kjósendur vilji annað. Það er ekki svo að stærri flokkar vinni hugmyndabaráttuna, þeir breyttu einfaldlega reglunum svo þeir standi betur að vígi.
Frétt Samstöðvarinnar frá í gær fjallar m.a. annars um mun á kosningakerfum Norðurlandanna og Íslands, sjá hér: Sjálfstæðisflokksmenn vilja þrengja að smærri flokkum. Þar kemur fram að Sósíalistar hefðu komist á þing með 4,1% atkvæða í öllum Norðurlandanna: Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, og líka í Færeyjum, á Grænlandi og Álandseyjum.