Sjálfstæðisflokksfólk hefur að undanförnu gagnrýnt framlög ríkisins til stjórnmálaflokka og ekki síst að Sósíalistaflokkurinn fái styrk. Samanburður á kosningalögum og styrkjum til stjórnmálasamtaka á Norðurlöndunum sýnir að styrkur Sósíalista sker sig ekki úr heldur hitt að kjósendur flokksins voru sviptir þingsætum. Sósíalistar hefðu náð á þing á öllum öðrum Norðurlöndum með 4,1% fylgi.
Flokkar sem ekki ná á þing eru styrktir á öllum hinum Norðurlöndunum. Þar sem mörkin er hörðust liggja þau við 2,5% eins og í núgildandi lögum á Íslandi. Í Danmörku er miðað við fjölda atkvæða, það framboð sem fær þúsund atkvæði eða fleira fá styrk. Hugmyndir Sjálfstæðisflokksfólks að þrengja íslensku lögin eru því á skjön við það sem tíðkast á Norðurlöndunum.
Mesti munurinn á íslenska kerfinu er 5% þröskuldurinn á Íslandi. Það er þröskuldur á útdeilingu uppbótarmanna á þremur Norðurlandanna; 4% í Svíþjóð, 3% í Noregi og 2% í Danmörku. Á Finnlandi eru ekki uppbótarþingmenn en kjördæmin það fjölmenn að flokkar með um 2% fylgi á landsvísu ná inn mönnum. Í Færeyjum, á Grænlandi og Álandseyjum er landið eitt kjördæmi og þröskuldar því lágir, miklu lægri en á Íslandi.
Í þessum löndum eru sautján flokkar á þingi sem hafa minna en 5% fylgi, þar af ellefu með minna fylgi en Sósíalistaflokkurinn fékk í kosningunum í fyrra. Í engum þessara landa er umræða í gangi um að að þrengja að smærri flokkum. Aðeins Sjálfstæðisflokksfólki dettur það í hug.
Hvergi nema hér á landi stendur stærsti flokkurinn fyrir umræðu um að óréttlátt sé að smæstu flokkarnir fái styrk úr opinberum sjóðum eins og þeir stóru.
Framsóknarmaður og Pírati í þingsætum Sósíalista
Sósíalistaflokkurinn kæmist inn á þing á öllum hinna Norðurlandanna og hefði fengið tvo þingmenn í kosningunum í september í fyrra. Ef jafnræði væri milli flokka í útdeilingu þingsæta hefði Sósíalistaflokkurinn átt að fá tvo þingmenn á kostnað Framsóknar og Pírata. Fólk getur velt fyrir sér hversu mikilvægur þröskuldurinn er, hvort landið sé betur sett með því að Pírati og Framsóknarmaður séu fulltrúar Sósíalista á þingi.
Þar sem Sósíalistar fengu ekki þessa tvo þingmenn lækkaði framlag ríkisins til flokksins úr 170,3 m.kr. á kjörtímabilinu í 104,2 m.kr. Styrkir til annarra flokka hækkuðu, mest til Framsóknar og næst mest til Sjálfstæðisflokksins.
Það er því blekkjandi að stilla málum þannig upp, eins og Sjálfstæðisflokksfólk gerir, að Sósíalistar fái styrk án þess að vera á þingi. Réttara væri að segja að reglurnar hafi tekið tvo þingmenn af Sósíalistum og fært 66 m.kr. frá Sósíalistum til annarra flokka, mest til þeirra stærstu. Það gera rúmlega 264 m.kr. á kjörtímabilinu.
En við skulum skoða hvernig lýðræðið virkar á Norðurlöndunum. Við skoðum þingmannafjölda og fylgi og opinbera styrki til flokkanna. Hér er um styrki til stjórnmálaflokkanna sjálfra að ræða, ekki stuðningur við störf þingflokka. Sá stuðningur er umtalsverður, en er ekki til umræðu hér heldur aðeins þeir styrkir sem veittir eru stjórnmálahreyfingum til að halda uppi lýðræðislegu starfi og umræðu.
Danmörk: Fjórir flokkar á þingi undir 5%
Miðað við kosningalög í Danmörku vantar Sósíalistum á Íslandi tvo þingmenn. Og miðað við reglur um styrki til stjórnmálaflokka í Danmörku myndi Sósíalistar hafa fengið rúmt 31% af þeim styrk sem Sjálfstæðisflokkurinn fengi, í stað tæplega 14% eins og reyndin er samkvæmt íslenskum reglum.
Í Danmörku er þröskuldurinn við útdeilingu þingsæta 2%. Í nýafstöðnum kosningum fengu fjórir flokkar sæti á Þjóðþinginu sem ekki hefðu náð á þing samkvæmt íslenskum kosningalögum: Radikale Venstre (3,8%), Nye Borgerlige (3,7%), Alternativet (3,3%) og Danski þjóðarflokkurinn (2,6%). Allir fengu þessi flokkar minna fylgi en Sósíalistaflokkurinn fékk í kosningunum í fyrra. Samlangt fengu þessir fjórir flokkar 24 þingsæti, tæp 14% þingsæta á danska þjóðþinginu. Það jafngildir tæpum 9 þingsætum á Alþingi.
Engar umræður eru um það í Danmörku að hækka þröskuldinn og fækka með því þingflokkum á þingi. Enda væri það ólýðræðislegt, að taka þingmenn af þeim 13,4% kjósenda sem kusu þessa fjóra flokka.
Starf stjórnmálaflokka í Danmörku er styrkt af hinu opinbera. Til að öðlast rétt á styrk þurfa flokkar að hafa fengið fleiri en þúsund atkvæði í þingkosningum. Þetta á við um alla þingflokkana og auk þess Frjálsa græningja (0,9%) og Kristilega demókrata (0,5%).
Árið 2020 nam styrkur á hvert atkvæði 33,50 dönskum krónum eða 655 íslenskum. Heildarframlag til þessa stuðnings væri þá 356 m.kr. miðað við kosningarnar fyrr í mánuðinum.
Minnsti flokkurinn til að fá styrk voru Kristilegir demókratar sem ættu samkvæmt þessu að fá tæpar 12,0 m.kr. fyrir 0,5% af atkvæðum kosninganna og Frjálsir græningjar 20,8 m.kr. fyrir sín 0,9%. Stærsti flokkurinn, Sósíaldemókratar, ætti að fá 636,7 m.kr.
Auk styrkja byggðum á atkvæðamagni fá flokkar styrki í takt við stærð þingflokka. Þingflokkarnir fá hver um sig rúmar 436 þúsund danskar (rúmar 8,5 m.kr.) og svo rúmar 19 þúsund danskar (rúmar 380 þús. kr.) á þingmann.
Minnsti þingflokkurinn, Danski þjóðarflokkurinn, fær því í styrk 10,4 m.kr. vegna þingstyrks og 61,2 m.kr. vegna atkvæðamagns, samtals 71,6 m.kr. Stærsti þingflokkurinn, Sósíaldemókratar, fær í styrk 25,7 m.kr. vegna þingstyrks og 636,7 m.kr. vegna atkvæðamagns, samtals 692,4 m.kr.
Ef við færum dönsku reglurnar yfir á úrslit kosninganna fyrir ári yrði styrkurinn þessi (innan sviga mismunurinn á núgildandi íslenskum reglum):
Sjálfstæðisflokkur: 46,5 m.kr. (-143,9 m.kr.)
Framsókn: 35,7 m.kr. (-104,4 m.kr.)
Vg: 28,0 m.kr. (-75,7 m.kr.)
Samfylking: 23,8 m.kr. (-63,9 m.kr.)
Flokkur fólksins: 22,4 m.kr. (-58,4 m.kr.)
Píratar: 21,7 m.kr. (-57,7 m.kr.)
Viðreisn: 21,3 m.kr. (-54,3 m.kr.)
Miðflokkurinn: 16,8 m.kr. (-34,7 m.kr.)
Sósíalistar: 14,6 m.kr. (-11,4 m.kr.)
Styrkirnir lækka um tæpar 673 m.kr. Hlutfallslega minnst hjá Sósíalistum en mest hjá Framsókn og Sjálfstæðisflokki. Danski styrkurinn sem miðast við úrslit kosninga er 655 kr. á atkvæði en íslenski styrkurinn er allt upp í 4.257 kr. á hvert atkvæði til Miðflokksins og niður í 3.184 kr. á hvert atkvæði greitt Sósíalistum.
Noregur: Fjórir flokkar á þingi undir 5%
Miðað við kosningalög í Noregi vantar Sósíalistum á Íslandi líka tvo þingmenn. Og miðað við reglur um styrki til stjórnmálaflokka í Noregi myndi Sósíalistar hafa fengið rúmt 21% af þeim styrk sem Sjálfstæðisflokkurinn fengi, í stað tæplega 14% eins og reyndin er samkvæmt íslenskum reglum.
Í Noregi er þröskuldurinn við útdeilingu þingsæta 3%, var lækkaður fyrir skömmu úr 4%. Á Stórþinginu eru fjórir flokkar sem ekki hefðu komist inn á Alþingi: Rautt (4,7%), Venstre (4,6%), Græningjar (3,9%) og Kristilegir demókratar (3,8%). Þeir tveir síðartöldu fengu minna fylgi en Sósíalistar í kosningunum fyrir ári. Ef íslenskar reglur giltu hefðu 17,1% kjósenda misst 22 þingmenn, sem jafngildir rúmum 8 þingmönnum á Alþingi.
Eins og áður sagði hafa Norðmenn nýlega lækkað þröskuldinn. Þar eru engar ráðagerðir um að hækka hann.
Í Noregi fá flokkar sem fá meira en 2,5% atkvæða í þingkosningum styrki. Þetta hlutfall var sett þegar þröskuldurinn fyrir úthlutun uppbótarmanna var 4% svo augljóst er að markmiðið er að flokkar fái styrki þótt þeir nái ekki inn á Stórþingið.
Upphæðin sem ákveðin er við fjárlög skiptist annars vegar jafnt á milli allra flokka og hins vegar eftir atkvæðamagni. Grunnupphæðin í fyrra var rúmlega 3,6 milljónir norskra króna á flokk eða tæplega 51,8 m.kr. Við þetta bætist síðan 102 norskar krónur fyrir hvert atkvæði eða tæplega 1.460 kr. íslenskar.
Það er ekki hægt að beita þessu beint á íslenskar kosningar því þá myndi fasti styrkurinn vega miklu þyngra, jöfnun á milli flokka yrði miklum mun meiri en í Noregi. En ef við tökum norska styrkinn og beitum á íslenskar kosningar til að fá út heildarupphæðina, en notum síðan norska aðferð til að skipta á milli flokka (10%) og atkvæða (90%) er niðurstaðan þessi (innan sviga er mismunur frá íslensku styrkjunum):
Sjálfstæðisflokkur: 175,1 m.kr. (-15,3 m.kr.)
Framsókn: 126,5 m.kr. (-13,6 m.kr.)
Vg: 94,3 m.kr. (-9,4 m.kr.)
Samfylking: 76,2 m.kr. (-11,5 m.kr.)
Flokkur fólksins: 68,9 m.kr. (-11,9 m.kr.)
Píratar: 67,4 m.kr. (-12,1 m.kr.)
Viðreisn: 65,3 m.kr. (-10,3 m.kr.)
Miðflokkurinn: 45,6 m.kr. (-5,8 m.kr.)
Sósíalistar: 36,4 m.kr. (10,3 m.kr.)
Þarna kemur fram munur á íslenska kerfinu og því norska. Norsku styrkirnir eru ívið lægri, munar tæplega 80 m.kr. á ári, en munurinn er helst sá að styrkir Norðmanna dreifast jafnar þannig að smærri flokkar fá hlutfallslega meira. Samkvæmt norsku kerfi fengi Sjálfstæðisflokkurinn rúmlega 15 m.kr. minna á ári en Sósíalistar rúmlega 10 m.kr. meira.
Svíþjóð: Einn flokkur á þingi undir 5%
Miðað við kosningalög í Sviþjóð vantar Sósíalistum á Íslandi líka tvo þingmenn. Og miðað við reglur um styrki til stjórnmálaflokka í Svíþjóð myndi Sósíalistar hafa fengið rúm 27% af þeim styrk sem Sjálfstæðisflokkurinn fengi, í stað tæplega 14% eins og reyndin er samkvæmt íslenskum reglum.
Í Svíþjóð er þröskuldurinn við útdeilingu þingsæta 4%. Einn flokkur á sænska þinginu, Liberalerna, hefði ekki náð inn á Alþingi með sin 4,6%. Í Svíþjóð fékk flokkurinn 16 þingsæti á Riksdag, sem jafngildir tæpum 3 þingmönnum á Alþingi. 2018 hefðu Græningjar (4,4%) ekki náð inn ef íslenskra reglur giltu og 2014 hefði það átt við Kristilega demókrata (4,6%).
Flokkar hafa rétt á opinberum styrk ef þeir hafa fengið meira en 2,5% atkvæða í að minnsta kosti öðrum af tveimur síðustu kosningum. Styrkirnir eru ríflegir, samtals 498 milljónir sænskra á ári eða 6.676 m.kr.
Styrkjunum er deilt út eftir þingstyrk. Hver þingflokkur fær tæplega 77,8 m.kr. og síðan tæplega 4,6 m.kr. á þingmann ef flokkurinn er í stjórn en tæplega 4,7 m.kr. á þingmann ef flokkurinn er í stjórnarandstöðu. Minnsti flokkurinn á þingi, Liberalerna, fær þannig tæplega 151 m.kr. en stærsti flokkurinn, Sósíaldemókratar, fær rúmlega 1.327 m.kr. árlega.
Flokkar sem ekki ná inn manni fá styrk sem nemur grunnstyrk á þingmann fyrir hvert 0,1% umfram 2,5%. Flokkur sem fær 2,5% atkvæða fær þannig rúmar 4,3 m.kr. en flokkur sem fær 3,9% atkvæða fær 60,9 m.kr., sem er um 40% af því sem Liberalerna fá fyrir sín 4,6% og 16 þingmenn.
Til að flytja þetta yfir á íslenskan raunveruleika skulum við minnka fasta stuðninginn um sem nemur þingmannafjöldanum á Riksdag og Alþingi, hann verður þá rétt rúmar 14 m.kr. á flokk en halda styrknum á þingmann, enda einn maður einn maður hvort sem hann er sænskur eða íslenskur.
Ef við færum sænsku reglurnar með þessum hætti yfir á úrslit kosninganna fyrir ári yrði styrkurinn þessi (innan sviga mismunurinn á núgildandi íslenskum reglum):
Sjálfstæðisflokkur: 87,2 m.kr. (-103,2 m.kr.)
Framsókn: 68,9 m.kr. (-71,2 m.kr.)
Vg: 50,6 m.kr. (-53,1 m.kr.)
Samfylking: 42,1 m.kr. (-45,6 m.kr.)
Flokkur fólksins: 42,1 m.kr. (-38,6 m.kr.)
Píratar: 37,4 m.kr. (-42,0 m.kr.)
Viðreisn: 37,4 m.kr. (-38,2 m.kr.)
Miðflokkurinn: 28,1 m.kr. (-23,4 m.kr.)
Sósíalistar: 23,4 m.kr. (-2,7 m.kr.)
Með því að lækka fasta styrkinn með þessum hætti verður niðurstaðan sú að íslensku styrkirnir eru mun hærri. Flestir flokkar myndu lækka um meira en helming. Nema Sósíalistar sem fengju svo til sömu upphæð og samkvæmt íslenska kerfinu.
Finnland: Fjórir flokkar á þingi undir 5%
Í Finnlandi eru engir uppbótarmenn, allir þingmenn kjördæmakjörnir. Kjördæmin eru hins vegar fjölmenn, allt upp í 36 þingmanna. Í síðustu kosningum náðu flokkar inn á þing sem voru með 2,8% atkvæða Uusimaa-kjördæminu, sem er Kraginn utan um Helsinki, og 4,8% inn í Helsinki.
Þetta dregur athygli að öðrum þröskuldi í íslenski kosningalögunum. Með því að kljúfa Reykjavík er það gert erfiðara að ná inn kjördæmakjörnum manni. Þetta er ekki gert á neinu hinna Norðurlandanna. Það eru 17 þingmenn í einu kjördæmi í Kaupmannahöfn, 20 þingmenn í einu kjördæmi í Osló, 22 þingmenn í einu kjördæmi í Helsinki og 34 þingmenn í einu kjördæmi í Stokkhólmi. Á Íslandi eru 18 kjördæmakjörnir menn í Reykjavík, en borgin er klofin í tvö kjördæmi til að gera smærri flokkum erfiðara fyrir að ná inn kjördæmakjörnum manni. Sósíalistar hefðu þannig náð inn kjördæmakjörnum manni í Reykjavík fyrir ári, ef borgin hefði ekki verið klofin í tvennt. Það er aðgerð sem sérstaklega er ætlað að takmarka möguleika smærri framboða. En þetta ruglar líka niðurstöðurnar. Í dag er kjördæmakjörnir þingmenn Reykjavíkur frá Viðreisn og Flokki fólksins þar sem ættu að vera Framsóknarmaður og Sósíalisti.
Á finnska þinginu, Suomen eduskunta, eru nú fjórir flokkar með minna fylgi en 5%: Sænski þjóðarflokkurinn (4,5%), Kristilegir demókratar (3,9%), Hreyfingin Núna (2,2%) og Fyrir Álandseyjar (0,4%). Sá síðastnefndi tók eina þingmann Álandseyja og bauð bara fram þar.
Finnar deila út til flokkanna tæpum 4,3 milljörðum íslenskra. Það jafngildir tæplega 21,5 m.kr. á þingmann. Flokkar sem fá 2,5% atkvæða á landsvísu en ná ekki inn manni eiga rétt á styrk sem jafngildir 1/3 þingmanni en þar sem þröskuldur í kjördæmunum er lágur þá kemur sjaldan til þess. Flokkar sem fá 2,5% atkvæða á landsvísu ná yfirleitt inn þingmönnum.
Og svo Færeyjar, Grænland og Álandseyjar
Í Færeyjum er landið eitt kjördæmi og þar eru því enginn þröskuldur. Þingmenn á Lögþimnginu eru 33 og því ná flokkar að jafnaði inn á þing sem fá um 3% atkvæða. Í dag eru tveir flokkar á Lögþinginu sem eru með minna en 5% fylgi, Framsókn (4,6%) og Sjálvstýrisflokkurin (3,4%).
Sama kerfi er á Grænlandi. Þar eru valinn 31 þingmaður í einu kjördæmi og enginn þröskuldur. Flokkar sem ná 3,2% fylgi ættu að ná inn manni. Minnsti flokkurinn á Inatsisartut, þingi þeirra Grænlendinga, er Atassut með 7,1% og stærsti sem ekki komst inn er Nunatta Qitornai með 2,4%. Eftir kosningarnar 2018 náði tveir flokkar inn á þing sem voru með minna en 5% fylgi: Samvinnuflokkurinn Suleqatigiissitsisut (4,1%) og Nunatta Qitornai (3,4%).
Það er líka kosið af einum landslista á Lögþingið á Álandseyjum. Þar sitja 30 þingmenn og áætla má að mörkin liggi við 3,2% en það getur færst til eftir því hvernig atkvæði raðast á framboð. Í dag eru tveir flokkar á Lögþinginu með minna en 5% fylgi: Framtíð Álandseyja (4,7%) og Lýðræði Álandseyja (2,9%).
Af þessu má sjá að íslensk kosningalög og kjördæmaskipan er sérstaklega grimm smærri framboðum. Og þar með gjafmild við þau stærri. Eins og styrkjakerfið sem stóru flokkarnir hafa smíðað um sjálfan sig. Nú vill Sjálfstæðisflokkurinn ganga lengra og auka enn við stuðning kerfisins við stóra flokka, með því að tryggja að kerfið haldi niðri hinum smærri.