Demókratar eru komnir með 50 þingsæti í öldungadeild Bandaríkjaþing og halda þar með meirihluta sínum með oddaatkvæði varaforsetans. Þeir gætu jafnvel bætt við sig sæti í seinni umferð kosninganna í Georgíu 6. desember. Þar er eina von Repúblikana að vinna öldungadeildarsæti, en í stað þess að sækja tvö eða þrú hafa þeir tapað einu.
Staðan í fulltrúadeildinni verður óvissari eftir sem á líður. Þar þurfa flokkarnir 218 sæti til að ná meirihluta. Þar er staðan sú að Repúblikana hafa unnið 211 sæti og Demókratar 206. Enn eru ótalið í 18 kjördæmum. Til að ná meirihluta þurfa Repúblikana 7 af þessum átján en Demókratar 12.
Munurinn þarna á milli hefur ekki verið minni eftir að talning hófst. Það hefur gerst sem ætíð gerist, atkvæðin sem talin eru síðast eru atkvæði sem kosin eru utan kjörfundar eða með pósti og sagan sýnir að Demókratar eru líklegri til að gera einmitt það. Repúblikanar eru líklegri til að kjósa á kjörstað. Þetta veldur því að það sem virðist góður sigur Repúblikana snemma á kosninganótt fölnar eftir því sem á líður, snýst jafnvel við.
Þau sæti sem úrslit liggja ekki fyrir í eru of jöfn til að hægt sé að fullyrða hver sé sigurvegarinn. Og miðað við þróun talningar má eiginlega gera ráð fyrir að þau séu líklegri til að falla til Demókrata.
Það sem af er hafa Rebúblikanar unnið 21 sæti af Demókrötum en Demókratar unnið 9 sæti á móti af Repúblikönum. Nettó er þetta tólf sæta sigur fyrir Repúblikana. Meðaltalið hefur verið 27 þingsæti frá stríðslokum, ávinningur gegn flokki forsetans í kosningum á miðju kjörtímabili hans. Það er því ljóst að Repúblikanar eru ekki að vinna neinn sigur, þetta eru með lakari kosningum flokksins um langa hríð.
Það getur haft áhrif á flokkinn og val hans á forsetaframbjóðanda. Hið vanalega er að sá frambjóðandi sem tapar forsetakosningum víkur af sviðinu og gefur það eftir fyrir þá sem munu leiða flokkinn til framtíðar. Það gerði Donald Trump ekki. Þessar kosningar voru því sérstakar, háðar af flokki sem var undir forystu frambjóðanda sem tapaði í síðustu kosningum.
Ástæðan er að meirihluti kjósenda Repúblikana hafnar síðustu forsetakosningum, trúir að Joe Biden hafi verið kjörinn með svindli. Það sem ýtti undir þær kenningar var það sama og hér var lýst að framan, að framan af kosninganótt virðist sem Repúblikanar séu að sigra en svo koma inn utankjörfundar- og póstatkvæði sem snú taflinu við.
Þannig getur það að lukkan virðist hafa snúist á sveif með Demókrötum í talningunni einmitt fóðrað þessa sannfæringu enn frekar. Það má því búast við viðbrögðum Repúblikana, fólks sem er sannfært um að verið sé að ræna sig landinu með skipulögðu kosningasvindli.
Myndin er af Catherine Cortez Masto þegar ljóst var orðið að henni hafði tekist að verja sæti sitt í Nevada.