Seðlabankinn hlustar ekki á fólkið í Karphúsinu

Þrátt fyrir óskir svokallaðra aðila vinnumarkaðarins, forystufólk í Samtökum atvinnulífsins og forystufólk í verkalýðshreyfingunni, hækkaði Seðlabankinn stýrivexti í morgun upp í 6%. Hækkunin er ekki mikil, 0,25 punktar, og mætti kannski túlka sem skilaboð í Karphúsið, þar sem samningar standa yfir: Það er Seðlabankinn sem ákveður vexti, ekki fólkið í Karphúsinu.

Hækkun vaxta og þar með hækkun greiðslubyrði þeirra sem eru með breytilega óverðtryggða vexti á íbúðalánum sínum dregur ekki síður niður kaupmátt launafólks en hin almenna verðbólga. Stýrivextir eru í dag nærri hinni almennu verðbólgu, sem var 6,4% í síðasta mánuði. Með húsnæðisliðnum inni er verðbólgan 9,4%.

En þessi mismunur sýnir ekki hvernig hækkun húsnæðiskostnaðar birtist. Hjá sumum hækkar hann í takt við neysluvísitöluna, þeim sem eru leigjendur og þeim eigendum sem eru að greiða af verðtryggðum lánum. Hjá þeim sem eru með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum hækkar greiðslubyrðin miklu meira. Á þeim heimilum er hækkun vaxta Seðlabankans stærsta efnahagslega ógnin. Fólk á þessum heimilum var kvíðakast þegar það sér ásjónu Ásgeirs Jónssonar Seðlabankastjóra.

Þessi staða blandast inn í samningaviðræðurnar. Án aðkomu Seðlabanka og ríkisstjórnar þarf verkalýðshreyfingin að sækja bætur vegna kaupmáttarrýrnunar til fyrirtækjanna. Og það getur verið snúið. Hjá fólki með verðtryggð lán geta 50 þús. kr. á mánuði dugað til að bæta fyrir verðbólguna. Hjá þeim sem eru með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum getur þurft 150 þús. kr. til að ná fyrri kaupmætti.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, skrifaði hálfgert bænabréf til Seðlabankans fyrr í vikunni um að hækka ekki vexti, bað um svigrúm til að gera samninga sem væru Seðlabankastjóra að skapi. Halldór sagði að Seðlabankinn hefði sent boltann til aðila vinnumarkaðarins og spurði svo hvort þeir mættu ekki reyna að spila honum.

Túlka mætti hækkun stýrivaxta sem svar við þessum bænum og öðrum. Með hækkuninni segist Seðlabankinn eiga þennan bolta. Vaxtaákvarðanir eru til að lækka verðbólgu, ekki til að liðka fyrir samningum.

Við tilkynninguna um hækkun vaxta sagði Ásgeir Seðlabankastjóri að hún væri skilaboð til samningsaðila um að bankinn ætlaði sér að ná niður verðbólgu, það væri því óþarft að semja um hækkanir vegna verðbólgu. Hætt er við að þessi skilaboð fari öfugt ofan í marga í Karphúsinu.

Það er erfitt að sjá einhvern árangur af miklum hækkunum vaxta síðasta árið. Íslendingar flytja inn verðbólgu, þó ekki hækkun orkuverðs nema að hluta. Vaxtahækkanir Seðlabankans hafa ekki og geta ekki haft áhrif á þennan hluta verðbólgunnar.

Annar þáttur verðbólgunnar er eignabólan á húsnæðismarkaði, sem með vaxtalækkunum Seðlabankans yfir cóvid-tímann spannst upp úr öllu valdi. Í haust reyndi fólk með góðum vilja að lesa einhverja lækkun húsnæðisverðs inn í upplýsingar frá markaðnum, í það minnsta að hægt hefði á taumlausri hækkun. En þetta hefur orðið erfiðara að undanförnu.

Svo virðist sem miklar vaxtahækkanir Seðlabankans nái ekki að stöðva húsnæðismarkaðinn. Á honum stýra þeir verðinu sem ætla sér miklu meiri hagnað en svo að fáeinir punktar í vöxtum eyði honum. Það er illa falið leyndarmál að það eru fyrst og síðast braskarar sem stjórna verðmyndun á húsnæðismarkaði, fólk og fyrirtæki sem eru að kaupa íbúðir til að leigja við okurleigu, taka inn af því góðan hagnað en þó aðallega til að sigla á linnulausri hækkun húsnæðisverðs í von um að ná inn hækkun á eignaverði seinna meir. Það raskar ekki mikið hagnaðarvon þessa liðs hvort vextir eru 5% eða 6%. Árleg arðsemi svona brasks á baki leigjenda hefur verið yfir 20% á síðustu árum.

Vaxtahækkanir Seðlabankans hafa því ekki lækkað húsnæðisverð heldur aðeins aukið við greiðslubyrði fjölskyldna og lokað húsnæðismarkaðinum fyrir venjulegu fólki sem getur ekki keppt við braskarana.

Þriðji þátturinn er svo innlend verðbólgu sem byggir á þenslu í hagkerfinu. Sem er þó nokkur. Ferðaþjónustan fór yfir fyrri hátinda í sumar og reiknað er með umtalsverðum hagvexti í ár. Vinnumarkaðurinn er líka ofþaninn, flest fyrirtæki að leita að starfsfólki og atvinnuleysi lítið. Og það má sjá viss merki um launaskrið í haust af þessum sökum.

Það er kannski þessi þriðji þáttur verðbólgunnar sem Seðlabankinn er að reyna að sigra. En hættan er að hann eigi eftir að steypa þúsundum heimila í gjaldþrot á leiðinni, með því að skrúfa upp greiðslubyrði lána. Það er það sem fólkið í Karphúsinu er að benda á.

Ísland sker sig nú síður frá öðrum löndum varðandi stýrivexti en var fyrir ári eða svo. Þetta eru stýrivextir dagsins í völdum löndum:

Brasilía13,75%
Ungverjaland13,00%
Chile11,25%
Tyrkland10,50%
Mexíkó10,00%
Rússland7,50%
Tékkland7,00%
Pólland6,75%
Indónesía6,50%
Suður Afríka6,25%
ÍSLAND6,00%
Indland5,90%
Sádi Arabía4,50%
Bandaríkin4,00%
Kanada3,75%
Kína3,65%
Nýja Sjáland3,50%
Ísrael3,25%
Suður-Kórea3,00%
Bretland3,00%
Ástralía2,85%
Noregur2,50%
Evrusvæðið2,00%
Svíþjóð1,75%
Danmörk1,40%
Sviss0,50%
Japan-0,10%

Þarna má sjá hvernig ólík lönd bregðast við ástandinu. Nýmarkaðsríki hækka vexti til að forða fjárflótta út úr hagkerfinu. Þar sem hagvöxtur er þó nokkur hækka lönd vexti til að hægja á hagkerfinu. En þar sem hann er veikur, eins og í Evrópu, þar veigrar fólk sér við að hækka vexti því slíkt myndi keyra hagkerfið niður í kreppu.

Ísland er á milli tveggja efri flokkanna. Seðlabankinn vill hafa vexti háa til að forðast flótta út úr krónunni, sem myndi fella hana og auka þar með við verðbólgu vegna hækkunar innflutnings. En Ísland er líkara Bandaríkjunum en Evrópu þegar kemur að hagvexti. Á meðan Evrópa getur ekki hækkað vexti til að slá á verðbólgu af ótta við kreppu, þá er sú hætta ekki eins afgerandi hér.

Það sem sker Ísland síðan frá öðrum löndum er að víðast hafa stjórnvöld kynnt aðgerðir til að vinna gegn áhrifum verðbólgunnar, t.d. með niðurgreiðslu orkuverðs. Það er gert vegna þess að almennar aðgerðir eins og vaxtahækkun virka illa gegn sérstæðum vanda. Það dugar ekki að hækka vexti í 20% til að vinna gegn verðbólgu vegna hækkunar orkuverðs. Þú læknar kannski meinið en drepur sjúklinginn í leiðinni.

Á Íslandi er braskvæðing húsnæðismarkaðarins sama mein og orkumarkaðurinn í Evrópu. Stjórnvöld hér bregðast hins vegar með engum hætti við þessum vanda, styðja braskvæðinguna og telja hana framför.

Það mætti því túlka vaxtahækkun Seðlabankans í morgun sem skilaboð til ríkisstjórnanarinnar, ekki síður en til Karphússins. Ef ríkisstjórnin er ekki með neinar aðgerðir til að vinna á verðbólgu, ástæðu hennar og afleiðingum, þá verður Seðlabankinn að beita sínum tækjum.

Það er hins vegar ekki að vænta neinna aðgerða frá ríkisstjórninni. Bjarni Benediktsson efnahagsmálaráðherra er kominn í fullt starf við að bjarga pólitískri framtíð sinni og kemst ekki í að hugsa um annað.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí