Spænska þingið samþykkti fyrr í vikunni að framlengja 2% leigubremsu sem hefur verið við lýði frá því í mars á þessu ári. Leigubremsan felur í sér að leiga getur ekki hækkað um meira en 2% óháð verðbólgu, en verðbólga á Spáni er 7.3% um þessar mundir.
Samtök leigjenda á Spáni hafa mætt þessum aðgerðum með miklum fyrirvörum því leigusölum er enn heimilt að hækka leigu við endurnýjun samninga. Þetta hefur gert stöðu margra leigjenda mjög erfiða því leigusalar hafa sýnt leigjendum mikla óbilgirni með kröfum um hækkun húsaleigu. Húsaleiga hefur hækkað á Spáni undanfarið langt umfram verðlag, eða um átján prósent á liðnum þremur árum. Frá árinu 2010 hefur húsaleiga á Spáni hækkað um 28%.
Hafa samtök leigjenda víða á Spáni meðal annars krafist þess að stjórnvöld bregðist við áhrifum bandaríska fasteignarisans Blackstone sem hafa keypt upp rúmlega eitt hundrað þúsund íbúðir á Spáni og hækkað leigu í kjölfarið. Hafa ráðherrar í ríkisstjórn Pedro Sanchez ítrekað að bregðast þurfi við neikvæðum áhrifum félagsins á velferð leigjenda.
Sextíu og sex prósent allra kjósenda á Spáni vilja að sett verði á leiguþak. Stuðningurinn er ívið meiri á meðal kjósenda stjórnarflokkanna eða sjötíu og sjö prósent, eða sama hlutfall og á meðal kjósenda á Íslandi.
Krafa samtaka leigjenda á Spáni er að sett verði á leiguþak, og ef marka má umfjöllun fréttamiðla um yfirvofandi leiguþak á Spáni þá má Blackstone fasteignarisinn gera ráð fyrir því að heimildir til hækkana á húsaleigu verði sett skilyrði og takmörk á næstunni.
„Brýnt ber að leiga verði fryst strax og að ótímabundnir leigusamningar verði skylda svo hægt sé að koma í veg fyrir að leigjendur þurfi að flytja búferlum,“ segir meðal annars í yfirlýsingu samtaka leigjenda í Katalóníu.