„Það er með ólíkindum að fylgjast með lífeyrissjóði mínum fjárfesta enn meira í flugfélaginu Play en fjárfestingin hefur hlotið mikla gagnrýni af hálfu sjóðsfélaga m.a. vegna mikillar áhættu en einnig vegna samfélagslegra þátta eins og að virða ekki kjarasamninga hér á landi,“ skrifar Kristján Þórður Snæbjarnarson forseti Alþýðusambandsins og félagi í Birtu lífeyrissjóð á Facebook.
„Núna er lífeyrissjóðurinn búinn að setja 1.300 milljónir í þetta,“ skrifar Kristján „þegar flugfélagið er að auka hlutafé, sækja meiri pening til hluthafana þó svo forstjórinn segist “ekki þurfa peninginn núna”. Hlutafé Play hefur lækkað hratt og aldrei verið lægra. Er þetta skynsamleg fjárfesting og er eðlilegt að þetta kasta peningum í þessa áhættufjárfestingu?“ spyr hann í lokin.
Uppgjör Play fyrir þriðja ársfjórðung var slæmt og í tengslum við kynningu á því var tilkynnt að félagið þyrfti að sækja 2,3 milljarða króna til viðbótar til hluthafa. Birta hefur skrifað sig fyrir 300 m.kr. af þessari fjárhæð.
Play samdi ekki við stéttarfélög flugliða og flugmanna heldur hlutaðist til að búið var til nýtt félag, sem síðan féllst á mikla lækkun launa og veikari starfskjara. Alþýðusambandið hefur andmælt þessum aðgerðum, stofnun guls verkalýðsfélags að undirlagi fyrirtækjaeigenda. En þær umkvartanir hafa litlu breytt. Það gengur fram af Kristjáni Þórði að nú sé lífeyrir launafólks aftur notaður til að halda þessu flugfélagi á lofti.
Birta er sá lífeyrissjóður sem á mest í Play, 8,5%. Næstur kemur Lífsverk, sem er gamli Lífeyrissjóður verkfræðinga, sem hefur lengi rekið djarfa fjárfestingarstefnu og oft brennt sig. Hann er með 4,3%. Aðrir lífeyrissjóðir komast ekki á lista yfir tuttugu stærstu hluthafana, og eiga því minna en 1,3%.
Af þessu sést að forsvarsmenn Birtu eru á sérleið í þessu, fáir aðrir sjóður leggja jafn mikið undir að Play takist það sem WOW. Iceland Express eða Arnarflugi tókst ekki, að koma fótum undir flugfélag númer tvö á Íslandi.