Starfsgreinasambandið að ljúka samningum, óvissa um þátttöku VR

Samkvæmt heimildum Samstöðvarinnar eru samningar Starfsgreinasambandsins við Samtök atvinnulífsins svo til klárir. Aðeins er deilt um hversu mikið eigi að flýta 13 þús. kr. hagvaxtaraukanum sem er lokahnykkur lífkjarasamningsins. Samið hefur verið um 20 þús. kr. hækkun lægri launa og svo prósentuhækkun upp að 40 þús. kr. hækkun. Og hækkun starfsaldursþrepa sem eru mest rúmar 12 þús. en meta má á rúm 8 þús. kr. að meðaltali.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafnaði þessari stöðu í síðustu viku en mætti samt í karphúsið í gær. Hann er þar hins vegar ekki í dag og enn er óljóst hvort VR muni sætta sig við þessa niðurstöðu. Ljóst er að Efling hefur gert sér vonir um möguleiki væri á að ná fram mun meiri hækkunum. Ef VR fellst á að þessa uppstillingu, sem er að stærstu leyti verk Vilhjálms Birgissonar, formans Starfsgreinasambandsins, verður staðan erfiðari fyrir Eflingu.

Sá samningur sem er á borðinu er um 20 þúsund hækkun lægstu launa undir 500 þús. kr. Síðan 4% hækkun launa upp að milljón en svo 40 þús. kr. hækkun eftir það. Starfsgreinasambandið er auðvitað ekki að semja um laun yfir milljón, í raun ekki um taxta yfir 500 þús. kr. því allir taxtar sambandsins eru þar undir. En þetta eru forsendur sem Samtök atvinnulífsins leggur fram, loforð um að hleypa ekki hækkun hæstu launa hærra.

Grunnhækkanir yrðu þá svona:

LaunHækkunHlutfall
368.00020.0005,4%
400.00020.0005,0%
500.00020.0004,0%
600.00024.0004,0%
700.00028.0004,0%
800.00032.0004,0%
900.00036.0004,0%
1.000.00040.0004,0%
1.100.00040.0003,6%
1.200.00040.0003,3%
1.300.00040.0003,1%
1.400.00040.0002,9%
1.500.00040.0002,7%

Starfsgreinasambandið hefur gert kröfu um að áður umsaminn hagvaxtarauki komi til greiðslu strax en samkvæmt lífskjarasamningunum á hann að leggjast á laun 1. maí næstkomandi. 2019 var samið um að ef hagvöxtur færi fram úr 3% myndu laun hækka um 13 þús. kr. í maí árið eftir. Það er nú löngu orðið ljóst að hagvöxtur 2022 fer langt umfram þetta mark og að 13 þús. kr. munu bætast við laun í maí 2023.

SA bauð í upphafi 27 þús. kr. eingreiðslu til tryggja samninga fyrir jól, einskonar gulrót. Þetta tilboð hefur verið fært inn í flýtingu hagvaxtaraukans til 1. mars og umræðan á lokametrum samninganna snýst af hálfu SGS um að flýta þessu enn frekar, helst til 1. nóvember síðastliðins. Það væri þá ígildi eingreiðslu upp á 78 þús. kr., sem reyndar dreifðist á sex mánuði.

Hjá Starfsgreinasambandinu bætast síðan við hækkun starfsaldursþrepa. Í dag hækkar fólk um 0,5% eftir eitt ár hjá sama fyrirtæki, um 0,5% til viðbótar eftir tvö og aftur um 0,5% eftir fimm ár. Samið hefur verið um að hækkunin verði 1,5% eftir eitt ár og svo 1,5% til viðbótar eftir tvö ár og önnur 1,5% eftir fimm ár.

Heildarhækkunin er þá þessi á launaflokk 10, svo dæmi sé tekið. Þarna er inni umsamin launahækkun nú, hagvaxtaraukinn frá 2019 og starfsaldurshækkanir:

Laun í dagHækkunHlutfall
Byrjunarlaun378.63137.0009,8%
Eftir eitt ár380.73741.12810,8%
Eftir tvö ár382.87645.22411,8%
Eftir fimm ár385.04649.28812,8%

Spurning dagsins er auðvitað hvort þessar hækkanir nái að bæta kaupmáttarrýrnun vegna verðbólgu undanfarna mánuði og misseri. Ef við stillum þessum upp á tímabil lífskjarasamninganna og til ársloka næsta árs sést að þetta eru ekki samningar um kaupmáttaraukningu.

Þarna eru kröfur Eflingar settar inn til viðmiðunar, bláa línan sýnir þær kröfur. Rauða línan sýnir þróun lægstu launa á föstu verðlagi dagsins í dag og síðan hækkun SGS miðað við að umsamndi hagvaxtaraukinn komi strax inn í launin og síðan meðaltals starfsaldurshækkun upp á 8.250 kr.

Þar sést að ef SGS nær að flýta hagvaxtaraukanum þá slær hann upp í launin eins og þau voru best á tíma lífskjarasamningsins en þau hafa síðan fallið niður fyrir lífskjarasamninginn í lok næsta árs miðað við verðbólguspá Hagstofunnar. Rauða punktalínan sýnir stöðuna við lok samningstímans.

Bláa lína Eflngar fer yfir lífskjarasamninginn og ekki undir hann þegar verðbólga næsta árs hefur lamið kaupmáttinn niður, eins og sést á bláu punktalínunni.

Þetta er staðan sem Ragnar Þór og VR eru að meta í dag. Er það rétt mat hjá Vilhjálmi Birgissyni og SGS-lestinni að við séum á óvissu- og krepputímum þar sem ekki er hægt að fara fram á aukinn kaupmátt. Eða er það rétt hjá Sólveigu Önnu Jónsdóttur og Eflingu að hagvöxtur og hagnaður fyrirtækja sýni að það sé hægt að fá launahækkanir sem verja ekki aðeins kaupmátt heldur bæta hann.

Ragnar mun líklega meta hvað stjórnvöld leggja til, en hann hefur lagt mikla áherslu á stórt átak í húsnæðisuppbyggingu. Ekkert slíkt er á borðinu, aðeins lagabreyting sem ítrekar rétt lífeyrissjóða til að fjárfesta í íbúðarhúsnæði. En sá réttur er í reynd þegar í lögum.

Viðræður Alþýðusambandsins, sem leiðir samninga við stjórnvöld, hafa snúist um einhverja hækkun barnabóta og aukinn húsnæðisstuðning, hækkun vaxtabóta til að greiða niður hækkandi vexti og hækkun húsnæðisbóta til að greiða niður okurleigu.

Þetta er ekki það sem Ragnar Þór hefur lagt áherslu á, að ríkið greiði niður okur fjármálafyrirtækja og leigusala. Hann hefur viljað sjá átak í húsnæðismálum. Eins og stefnt var að í upphafi samninga, þar sem húsnæðiskreppan grefur undan lífskjörum fólks eiginlega enn frekar en verðbólgan.

En þetta mun dagurinn snúast. Annars vegar um hvort SA sættist á að flýta áður umsömdum hagvaxtarauka. Og hins vegar hvort eitthvað er í þessum samningum sem Ragnar Þór og VR geta sætt sig við. Og hvort VR hafi í raun aðra kosti, hvort vænta megi meiri hækkana ef VR og Efling fari saman fram og krefjist meiri hlutdeildar í gósentíð fyrirtækjanna. Og hvort félagsmenn í þessum félögum vilji fara í þá baráttu á lægri launum en annað verkafólk í landinu.

Það mat byggir nú ekki aðeins á styrk fyrirtækjanna heldur þeirri stöðu sem verður ef SGS semur á þessum nótum. Þá verður enn þyngra að sækja meiri hækkanir.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí