Lágmarkslaun eru í dag 368 þúsund krónur. Ef þau myndu hækka um 112 þús. kr. svo þau yrði 480 þús. kr. í lok þriggja ára samningstíma myndi það aðeins setja þau í sömu stöðu og þau voru í ársbyrjun 2020, fyrir cóvid, sé miðað við verðlag og aukningu landsframleiðslu miðað við hagspár.
Þegar kröfur verkalýðsfélaga eru metnar verður að hafa í huga að þær eru í reynd lagðar fram í framtíðarverðmæti krónunnar, þeim er ætlað að bæta liðna verðbólgu og verjast ókominni verðbólgu. Og þeim er ætlað að tryggja hlut launa af þjóðarkökunni, sem að jafnaði vex milli ára. Til að ná þessu tvennu þarf hækkun sem kann að hljóma há í dag, en er ef til vill ekki til annars en að setja launin á þann stað sem þau voru fyrir stuttu síðan, miðað við verðlag og landsframleiðslu.
Það má skýra þetta með þessu grafi, sem sýnir lágmarkslaun frá ársbyrjun 2014 á föstu verðlagi í árslok 2025, miðað við nýbirta hagsspá Landsbankans. Kjarasamningar með fastri krónutölu eru í raun gerði á framtíðarverðmæti krónunnar.
Bláa línan sýnir lágmarkslaun frá 2014 á verðlagi ársloka 2005. Þau hækkuðu síðast í ársbyrjun 2022, það er síðasta hakið á línunni. Eftir það sígur línan vegna verðbólgunnar, verðmæti launanna minnka. Línan sýnir örlög lágmarkslauna ef engar hækkanir verða til ársloka 2025. Þetta er ekki spá um samninga.
Til að hækka lágmarkslaun svo verðmæti þeirra verði í árslok 2025 eins og best var á tíma lífskjarasamninganna þarf að hækka lágmarkslaun um 93.555 kr.
En laun eiga að hækka meira en verðlag vegna þess að landsframleiðsla á mann hækkar að jafnaði meira en verðlag. Þess vegna er önnur lína á grafinu sem sýnir lágmarkslaunin frá 2014 á föstu verðlagi en auk þess að teknu tilliti til hækkunar landsframleiðslunnar. Fram til dagsins í dag er miðað við landsframleiðslu á mann, en spá um landsframleiðslu almennt til ársloka 2025 í hagspá Landsbankans. Sú spá fól ekki í sér mannfjöldaspá.
Línurnar skerast í febrúar á næsta ári. Þá munu lágmarkslaunin falla undir það sem þau voru í ársbyrjun 2014, að teknu tilliti til verðlags og aukinnar landsframleiðslu. Launafólk er því við það að falla niður á einskonar byrjunarreit.
Samningarnir frá 2015 náðu ekki að auka hlutdeild lágmarkslauna í landsframleiðslunni. Það tókst hins vegar í lífskjarasamningunum 2019. Þá var samið um að lægstu laun myndu hækka umfram landsframleiðslu, að hlutur hinna verst stæðu yrði leiðréttur sérstaklega.
Og ef við lítum fram hjá cóvid, þegar landsframleiðsla féll, og tökum árangurinn sem var kominn í ársbyrjun 2020, þá þurfa lágmarkslaun að hækka um 18.600 kr. á verðlagi ársloka 2025 til að ná yfir hækkun landsframleiðslu umfram verðlag.
Samanlögð hækkun lágmarkslauna þarf því að verða rúmlega 112 þúsund bara til að ná þeim árangri sem lífskjarasamningarnar höfðu náð. Sá núllpunktur merkir að lágmarkslaun þurfa að vera 480 þús. kr. við enda samingstímans eftir þrjú ár.
Kröfur Eflingar sem lagðar voru fram í gær voru um 167 þús. kr. hækkun launa. Segja má að 112 þús. kr. af þessu sé sjálfsögð leiðrétting. Þá sitja eftir 55 þús. kr. hækkun á verðlagi við enda samninganna, sem eru um 47.400 kr. á verðlagi dagsins í dag.
Þessi krafar er aðeins tæplega 13% hækkun miðað við lágmarkslaunin í dag og aðeins 11,5% sé miðað við verðlag við lok samningstímans, miðað við hagspá Landsbankans.
Það er krafan um aukinn hlut láglaunafólks af þjóðarkökunni. Krafan á hendur eigenda fyrirtækja um að þeir taki til sín aðeins minna svo launafólkið geti lifað út mánuðinn. Það er krafan sem forystusveit fjármagns- og fyrirtækjaeigenda hefur verið að hneykslast á í viðtölum í gær og í dag.