Þjóðhagsráð lét leigusala stýra starfshópi um leigumarkaðinn

Þjóðhagsráð fól leigusala að stýra starfshópi um leigumarkaðinn. Sá er ekki bara leigusali heldur sonur hans einnig og eiginkonan sat í stjórn Heimavalla. Á fundi starfshópsins var aðeins einn leigjandi boðaður og var reynt að gera sem minnst úr sjónarmiðum hans. Vinna þessa starfshóps miðaði að því að vernda og styrkja stöðu leigusala.

Síðastliðið vor var settur saman átakshópur á vegum þjóðhagsráð til að finna lausnir á húsnæðisvandanum. Tveir undirhópar voru starfræktir undir stjórn Ragnars Þórs Guðgeirssonar stjórnarformanns fyrirtækisins Expectus. Stýrði hann meðal annars undirhópi um málefni leigumarkaðarins.

Hildur Árnadóttir eiginkona Ragnars sat um árabil í stjórn Heimavalla, allt þar til félagið var selt til norska fasteignarisans Heimstaden. Einnig sat Hildur í stjórn Viðskiptaráðs og situr núna í stjórn fasteignafélagsins Íþöku ehf. og tryggingafélagsins Sjóvá auk annarra félaga. Saman eiga Ragnar og Hildur svo ráðgjafafyrirtækið Argyron ehf. sem hefur fjárfest í húsnæði og rekið leigustarfssemi. Sonur þeirra hjóna er einnig leigusali.

Guðmundur Hrafn Arngrímsson formaður Leigjendasamtakanna sat tvo vinnufundi í undirhópnum um málefni leigjenda ásamt tuttugu og einum hagsmunaaðila. Guðmundur Hrafn var sá eini á fundunum sem er leigjandi. Aðrir voru fulltrúar leigufélaga, stjórnvalda, annarra félagasamtaka eða launþegahreyfingarinnar og voru fasteignaeigendur. Það má líka taka fram að þessi eini fulltrúi leigjenda var líka sá eini sem sat fundinn launalaust og í sjálfboðavinnu.

Það einkenndi þessa fundi að þessi eini fulltrúi leigjenda átti ítrekað í orðaskaki við verkefnastjórann, sem átti einungis að hafa það hlutverk að taka á móti sjónarmiðum og athugasemdum fundargesta. Á fundinum voru fundargestir beðnir um að greina áskoranir á leigumarkaði og vildi svo til að um 85% athugasemda sem komu fram voru sameiginlegar hjá þeim sem ekki voru á leigumarkaði. Hin 15% kom frá fulltrúa leigjenda og átti hverfandi lítið sameiginlegt með athugasemdum hinna. Þótti verkefnastjóranum fulltrúi leigjenda vera helst til mikið á skjön við aðra fundargesti og gerði góðlátlegt grín að því. Eins og það væri undarlegt og ætti sér frekar rót í persónuleika Guðmundar Hrafns en gerólíkri stöðu leigjenda á húsnæðismarkaði en þeirra sem eiga sitt húsnæði. Að ekki sé talað um þá sem eiga húsnæði og leigja það út.

Ragnar Þór leiddi úrvinnslu þeirra athugasemda sem fundargestir báru upp. Þær voru flokkaðar í nokkra yfirflokka og raðað í áhersluröð út frá því hversu breið samstaða var um þær á fundinum. Það segir sig sjálft að þar vigtaði afstaða eina leigjandans mikið. 

Þessi vinna er náttúrlega ónýt. Það gengur ekki að Þjóðhagsráð standi fyrir tillögugerð um leigumarkaðinn án þess að fjöldinn á þeim markaði, leigjendur, nái að koma sínum sjónarmiðum á framfæri án truflunar. Leigusalar eru mikill minnihluti á leigumarkaði, aðeins brot af þeim fjölda sem leigjendur eru. Hugsanlega er þetta hugsanaleysi af Þjóðhagsráði, forréttindablinda þeirra sem ekki þekkja á eigin skinni þá stöðu sem leigjendur eru í. Eða fordómar gagnvart leigjendum, afstaða velsettra gagnvart þeim sem eru verr stæðir.

En með vali á verkefnastjóra er líklegasta skýringin að Ragnar Þór hafi verið valinn til að beina umræðunni í þá átt sem stjórnvöldum eru hagfelld. Ragnar Þór var ráðin sem framkvæmdarstjóri fjárfestinga hjá SPRON í ársbyrjun 2008 og tók þá jafnframt við sem framkvæmdarstjóri Kistu fjárfestingafélags Sparisjóðanna, eins og lýst er í Rannsóknarskýrslu alþingis. Kista fjárfestingafélag fór í þrot árið 2013 og við gjaldþrotið fengust aðeins 1 milljón af fjórtán milljarða kröfum greiddar eða 0,01%. Ragnar komst líka í fréttirnar árið 2009 þegar að Guðlaugur Þór Þórðarson þáverandi heilbrigðisráðherra greiddi honum tæpar 11 milljónir fyrir ráðgjöf og úttekt á heilbrigðisstofnunum og skipulagi þeirra. Á þeim tíma sátu Ragnar og Guðlaugur saman í stjórn Ungmennafélagsins Fjölnis og tók Ragnar við formennsku af Guðlaugi þegar hann lét af henni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí