Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR var vonsvikinn í samtali við Rauða borðið í gærkvöldi. Væntingar hans um góða samninga byggða á sterkri stöðu verkalýðshreyfingarinnar og mikils góðæris hjá fyrirtækjum gengu ekki eftir. Hann skrifaði undir samning sem hann treystir sér ekki að mæla með. Kjaraviðræðurnar fóru eftir forskrift Samtaka atvinnulífsins og lengra varð ekki komist án átaka. Félagar í VR mun greiða atkvæði út frá þessari stöðu. Vilja þeir fara í átök og sækja meira í langtímasamningi eða sætta sig við það sem er í boði til skamms tíma.
Í aðdraganda kjaraviðræðna síðla sumar svöruðu Samtök atvinnulífsins kröfum launafólks með tilboði um 17 þús. kr. launahækkun á lægstu laun, sem er um 4,6% hækkun. Og þá hækkun upp eftir launastiganum en að hámarki 27 þús. kr. og 26 þús. kr. eingreiðslu. Niðurstaðan varð 22 þús. kr. á lægstu laun, 6,75% hækkun upp stigann og flýting hagvaxtarauka sem kostaði 65 þús. kr.
Tilboð SA kom síðsumars þegar reiknað var með að verðbólgan yrði um 7% á þessu ári, en nú stefnir hún í 9,5%. Endanlegir samningar voru því ekki fjarri fyrsta tilboði SA að viðbættri aukinni verðbólgu.
Ragnar Þór sagði þetta sorglega niðurstöðu. Samtökum atvinnulífsins hafi tekist að blása upp hugmyndir um óvissutíð og fengið stjórnvöld og Seðlabankann til að spila með. Þau settu markið á skammtímasamninga með lágmarkshækkunum og fengu sitt í gegn. Þetta kom ekki aðeins í veg fyrir að launafólk fengi eðlilegan hlut af bættum hag fyrirtækjanna og efnahagslífsins almennt, heldur dró úr möguleikum verkalýðshreyfingarinnar að ná fram umbótum á húsnæðiskerfinu, skattkerfinu og öðrum nauðsynlegum umbótum til að bæta kjör almennings.
Markmið SA var að kljúfa verkalýðshreyfinguna og óvirkja róttækari hlut hennar. Það hafi tekist með samningum við Starfsgreinasambandið. VR var fyrst í samfloti með SGS en sagði sig frá þeim þegar ljóst var í hvað stefndi, samning á forsendum SA. Á meðan gengið var frá samningum við SGS voru iðnaðarmönnum og verslunarmönnum haldið frá samningum og ekkert rætt við Eflingu. Viðræðuskipulagið var allt eftir óskum SA. Og þegar samið var við SGS þrengdist staða hinna.
Ragnar Þór metur það svo að félagar í VR verði að fá að kjósa um skammtímasamninginn. Hinn kosturinn er aðgerðir, skæruverkföll til að brjóta upp þá klemmu sem viðræðurnar voru settar í. Slíkt sé ekki réttlætanlegt fyrir skammtímasamning. Árangurinn geti ólíklega vegið upp kostnaðinn við aðgerðirnar. Valkosturinn við skammtímasamning eru því aðgerðir til að knýja á um betri kjarabætur og stærri aðgerðapakka frá stjórnvöldum. Ragnar segir að ekki hafi verið hægt að ná meiru innan þess ramma sem viðræðunum var troðið í.
Ef samningurinn verður samþykktur er það verkefni næstu mánaða að ná saman hreyfingunni svo hún mæti samhent til samninga í vor. Ragnar Þór segist ekki vera farin að hugsa út í hvernig það verður gert. Nú sé verkefnið að leggja nýgerðan samning í dóm félagsfólks.
Það verður kosið um formann VR snemma á næsta ári. Verður Ragnar Þór þá í kjöri? Því svarar hann ekki, segist ekki vita það. Hann ætli að meta stöðuna á aðventunni og ákveða sig um jólin.
Viðtalið við Ragnar Þór má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan.