Fyrirtæki geta gengið í Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni, og skreytt sig með heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem miða að sjálfbærni, bæði gagnvart náttúru og samfélagi. Meðal markmiðanna er að vinna að auknum jöfnuði og minni fátækt. Alma íbúðafélag er aðili að Festu, þótt meginstarfsemi Ölmu vinni þvert á þessi markmið og auki fátækt og ójöfnuð.
Í ársskýrslu Festu segir að heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun liti allt starf Festu og tengi saman gildi og starfsemi félagsins. Á heimasíðu félagsins má sjá að mest áhersla er lögð á umhverfismál, en heimsmarkmiðin snúast ekki síður um samfélagsmál. Það er ekki sjálfbært samfélag sem níðist á hluta borgaranna, þrýstir þeim niður í fátækt þar sem þau geta ekki notið góðs lífs, missa heilsu vegna of mikillar vinnu, of lítillar hvíldar og félagslífs.
Það er erfitt að átta sig á hvernig fyrirtækin sem standa að Festu ætla að ná árangri í átt að meiri jöfnuði og minni fátækt. Þarna eru saman komin mörg verstu okurfyrirtæki landsins, láglaunafyrirtæki, innheimtufyrirtæki, bankar og braskfélög innan um lífeyrissjóði, VR, háskóla og aðrar stofnanir sem ætlað er að starfa á félagslegum grunni. Ekki aðeins að skila eigendum sínum sem mestum arði.
Festa stendur fyrir útgáfu og fundum og hvetur fyrirtækin sem standa að félaginu til að skreyta sig með merkjum og slagorðum heimsmarkmiðanna. Það má því ætla að þetta sé fyrst og fremst markaðsfyrirbrigði, tæki fyrir fyrirtækin að breiða háleit markmið yfir grunnstarfsemi sem ganga þvert á þessi markmið. Það hefur aldrei gerst að Festi fjalli um brot einstakra fyrirtækja gagnvart þeim markmiðum sem félagið segist stefna að, allra síst félögum sem borga félagsgjöld til félagsins.
Og það á við um Ölmu íbúðafélag. Þótt fram hafi komið fréttir um að félagið vinna markvisst að því að útbreiða fátækt og auka ójöfnuð með því að færa fé frá hinum fátæku til hinna ríku, haldi fólki niður í fátækt sem veldur heilsutjóni og brjóti niður vellíðan, þá þegir Festi. Og öll félögin og fyrirtækin sem standa að baki þessu félagi.
Nema VR. Það var Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR sem sagði fyrst frá máli Brynju Hrannar Bjarnadóttur, 62 ára öryrkja, sem Alma hækkaði leiguna á um 30%, um 75 þús. kr. á mánuði sem er langt umfram það sem Brynja getur borgað. Hún hefur átt erfitt með að borga rúmar 250 þús. kr. fyrir litla íbúð. Oft hefur Brynja ekki átt fyrir mat út mánuðinn eftir að hafa borgað leiguna.
Þögn Festi um alvarleg brot Ölmu gegn heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sýnir að Festi er ekki að vinna að þessum markmiðum. Félag með Ölmu innanborðs, félag sem markvisst vinnur gegn þessum markmiðum, er auðvitað ekki félag um sjálfbærni heldur eitthvað allt annað. Líklegast eitthvað þveröfugt.
Eins og fyrirtækin geta einstaklingar sýnt samfélagslega ábyrgð, farið vel með umhverfið og annað fólk. Og með því að styðja ekki þau fyrirtæki með viðskiptum sínum sem brjóta gegn heimsmarkmiðinum. Hér má sjá helstu vörumerkin sem eigendur Ölmu íbúðafélags eiga og reka.