Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsmálaráðherra hafnaði í morgun á Alþingi leiguþaki eða leigubremsu til að verja leigjendur fyrir svívirðilegum hækkunum eins og ganga yfir leigjendur Ölmu leigufélags þessa dagana. Þess í stað vill Bjarni hækka húsnæðisbætur, sem eru í reynd styrkur til okrara svo þeir geti haldið áfram að okra.
Húsnæðisbætur á óheftum leigumarkaði magna í raun upp okrið. Fátækasta fólkið sem fer með allt sitt til leigusalans fær þá styrk á móti okrinu til að eiga fyrir mat fram eftir mánuðinum. Víða erlendis er annað hvort leiguþak, hámarksverð á húsleigu, eða leigubremsa til að koma í veg fyrir svívirðilegar hækkanir eins og Alma stendur nú fyrir. Sums staðar hefur verið bannað að hækka húsaleigu í ár eða tvö. Annars staðar leyfir leigubremsan 2% hækkun í 14% verðbólgu, sem er í reynd aðgerð stjórnvalda til að lækka raunleiguna.
Ríkisstjórnin lofaði leigubremsu í tengslum við lífskjarasamninginn 2019. En sveik það. Í vor reyndi starfshópur á vegum forsætisráðherra að halda því fram að ekki þyrfti að setja leigubremsu, að skráning leigusamninga gæti á einhvern hátt komið í stað hennar. Það skal tekið fram að í þessum hópi var enginn leigandi, en hins vegar nokkrir leigusalar.
Verkalýðshreyfingin hefur gert kröfur um vörn fyrir leigjendur gegn okrinu. Ekkert slíkt er þó í nýgerðum kjarasamningi Starfsgreinasambandsins.
Bjarni upplýsti á þingi hvað ríkisstjórnin er til í að gera. Annars vegar að hækka lítillega húsnæðisbætur og hins vegar að auka framlög til svokallaðra óhagnaðardrifinna leigufélaga.
Þessar aðgerðir hjálpa ekki Brynju Hrönn Bjarnadóttur sem sagði sögu sína við Rauða borðið á þriðjudagskvöldið. Húsaleigan hennar hækkaði um 75 þús. kr. en hámarksbætur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er 35 þús. kr. Og framlög ríkisins til uppbyggingar á leiguhúsnæði hefur aðeins skilað 200 íbúðum á ári hingað til.
Hér má sjá viðtalið við Brynju: