Unglingasmiðjurnar Stígur og Tröð hafa tekið á móti krökkum sem hafa orðið fyrir einelti, eru óframfærnir eða óvirkir, sýna einkenni kvíða og þunglyndis, eru með lítið sjálfstraust, slaka sjálfsmynd og félagsfærni og búa við erfið uppeldisskilyrði. Meirihlutinn í borgarstjórn ákvað í gærkvöldi að loka þessum smiðjum.
Belinda Karlsdóttir forstöðukona kom að Rauða borðinu meðan borgarstjórn fundaði og sagði frá Stíg og Tröð. Það hefur áður verið þrengt að þessari starfsemi, skorið niður í mannafla og starfið veikt með öðrum hætti. En nú á að loka.
Samstöðin birti í gær ummæli krakka sem höfðu sótt þessar unglingasmiðjur. Hér eru þrjú dæmi:
„Vá ég er ekki sama manneskjan sko. Þegar ég fór þarna inn .. mér leið ógeðslega illa, ég talaði ekki við neinn, átti enga vini. Þegar ég labbaði út, þá var ég ofboðslega leið yfir að þurfa að hætta, en hamingjusöm. Og ég hafði sjálfstraust og ég þorði að tala við fólk, ég átti vini .. eftir að hafa verið í unglingasmiðjunni og fá sjálfstraust og trúa meira á það, að ég eigi rétt skilurðu, þá byrjaði ég að svara fyrir mig þegar mér var strítt.“
„Ég kom náttúrulega út úr því að vera lögð í einelti út í það að vera með vinahóp skilurðu. Ég fór að finna hvað ég get gert og að mér þykir vænt um sjálfa mig. Ég lærði bara smám saman hvað lífið getur verið gott líka. Að eiga góða vini, trausta vini. Það hjálpaði mjög mikið.“
„Eftir að ég prófaði, þá var þetta bara einn æðislegasti staður sem ég hefði einhvern tíman getað ímyndað mér. Allir svo góðir og tilbúnir að taka á móti manni eins og maður var … þá var maður bara svona lítil fjölskylda sem maður gat treyst öllum og gat talað upphátt án þess að það væri hlegið að manni.“
Belinda sagði við Rauða borðið að það væri stórkostlegt að sjá framfarirnar hjá krökkunum. Hún efaðist um að þeir myndu fá sömu þjónustu í félagsmiðstöðvum. Efaðist reyndar um að krakkarnir færu þangað, þeir kæmu á Stíg og Tröð vegna þess að þar væri verndað umhverfi og lokaðir hópar. Þau ættu í erfiðleikum með opna hópa.
Sparnaður Reykjavíkurborgar við að loka unglingasmiðjunum eru um 63 m.kr. Á móti ætti síðan að koma aukinn kostnaður hjá félagsmiðstöðvunum við að þjónusta börnin, ef það er á annað borð ætlunin. Belinda sagði að þetta væru grátlega lágar upphæðir í samanburði við að verið væri að eyðileggja gott starf og fórna mikilli reynslu.
Stuðningsfólki Sigluness tókst að hrinda ætlun meirihlutans að loka starfsemi þar. Fyrrum starfsmenn risu upp og söfnuðu undirskriftum og efndu til mótmæla. Belinda segir að starfið í Siglunesi sé stórkostlegt, margt af krökkunum sem sótt hafa Stíg og Tröð hafi verið í Siglunesi, þótt þau hafi ekki viljað sækja neinar íþróttir hjá íþróttafélögunum.
Belinda sagði að erfitt væri að berjast fyrir þann hóp sem sækir Stíg og Tröð. Þetta er ekki hávær hópur og hann kann illa að vekja athygli á sér. Kannski tekst að vekja athygli á því góða starfi sem er verið að eyðileggja til að spara lítið fé, ef það á annað borð leiðir til nokkurs sparnaðar til skemmri tíma. Til lengri tíma sparast ekkert. Það vita allir sem vilja vita að starf með unglingum á jaðrinum sparar mikið fé til lengri tíma, dregur úr kostnaði heilbrigðis-, félags- og löggæslukerfa.
Viðtalið við Belindu má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan.