Leigufélag ÖBÍ lokaði fyrir umsóknir árið 2018 vegna langs biðslista og sá félagið ekki fram á að geta afgreitt nýjar umsóknir næstu árin á eftir. Þá voru nær 600 manns á bið en síðustu ár hefur tekist að vinna töluvert á biðlistanum svo hann er nær 300 í dag. Þá hefur verið opnað fyrir rafrænar umsóknir í gengum mínar síður á vef félagsins en þar er einnig að finna nýjar úthlutunarreglur varðandi reglur um úthlutun leiguíbúðanna.
Stutt er síðan stjórn Brynju ákvað að frysta leiguverð í þrjá mánuði en leigan í desember, janúar og febrúar mun þannig haldast óbreytt frá nóvember 2022. Allir leigusamningar félagsins eru bundnir vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.
Á vefsíðu félagsins segir að tilgangur Brynju sé að kaupa, eiga og reka íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja sem leitast er við að leigja þeim gegn eins hóflegu gjaldi og kostur er. Viðskiptavinir Brynju, eins og allir, þurfa að kljást við hækkandi verðbólgu og vexti. Mánaðarleg leiga hefur hækkað um 8,3% á árinu 2022 sem svarar til þess að búið sé að bæta 13. mánuðinum við árið. Þá segir Guðbrandur Sigurðsson framkvæmdastjóri félagsins að verðbólga og hækkandi vextir setji þrýsting á alla í samfélaginu, en mest þó á þá sem hafa minnst á milli handanna. Brynja vill styðja við bakið á sínu fólki með því að gefa leigjendum sínum verðbólgufrí þessa þrjá mánuði.
Leiguverð og fjöldi eigna
Leiguverð hjá Brynju er frá 76.000 til 184.000 króna á mánuði auk hússjóðs, frá einstaklingsíbúðum til fjögurra herbergja íbúða en húsnæðisbætur og sérstakar húsnæðisbætur koma svo til frádráttar þeim upphæðum.
Félagið á og rekur í dag um 833 íbúðir en fyrirætlanir eru um að auka þær um a.m.k. 70 íbúðir á ári næstu árin.
Sveitarfélög eiga að sinna skyldum við fatlað fólk
Eitthvað hefur verið um samstarf sveitarfélaga við Brynju leigufélag vegna stofnstyrkja en Sveitarfélög eru bundin lögum um að sinna húsnæðisskyldu við fatlað fólk bæði í gengum stofnstyrki og lóðaúthlutanir auk þess að sinna félagsþjónustunni með félagslegum leiguíbúðum. Þá þekkjast þess dæmi að ákveðin sveitarfélög veiti fötluðu fólki af sínum biðlista húsnæði hjá Brynju í gegnum samkomulag við félagið um stofnstyrki í stað þess að sinna eigin skyldum um félagslegt húsnæði.