Talið er að yfir 80 þúsund frjóir laxar hafi sloppið úr kvíum Arnarlax á Vestfjörðum en villti laxastofninn hér á landi er aðeins um 50 þúsund laxar svo umhverfisslysið er sem orðið er þykir sumum grafalvarlegt.
Eftir að matvælastofnun lagði 120 milljón króna stjórnvaldssekt á Arnarlax nýverið hafa 25 samtök og fyrirtæki kallað eftir banni við laxeldi í sjókvíum hér á landi og skorað á Svandísi Svavarsdóttur, matvælaráðherra að stöðva það áður en skaðinn verður meiri.
Arnarlax sem er í eigu Norskra auðmanna en rekið í tilraunaskyni á Íslandi, var sektað fyrir að tilkynna ekki um strok á fiski né beita sér við að veiða hann. Fyrirtækið vinnur að því að reyna að fá sektina fellda niður eða dómnum hnekkt á þeim grundvelli að fiskur hafi ekki sloppið úr kvíum þeirra tveimur mánuðum áður en tilkynnt var um það. Tilkynningin barst í ágúst en vegna frávika í fóðrun telur Matvælastofnun að fyrirtækið hefði mátt vita af henni fyrr.
Efnahagslegt virði laxveiða og eldis
Samtökin sem kalla eftir banni við sjókvíaeldi á laxi benda á að á Íslandi séu rúmlega 2.250 lögbýli sem treysta á tekjur frá lax- og silungsveiðiám landsins og að efnahagslegt virði í þeim nemi 13,5 milljörðum. Slys eins og þetta rýri verðmæti auðlindarinnar sem bitni á fjölskyldum á landsbyggðinni. Þá sé einnig verið að sverta orðspor landsins sem treyst sé á sem upprunaland hreinleika.
Í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Landssamband veiðifélaga árið 2018 um efnahagslegt virði lax- og silungsveiða, kemur fram að tekjur hafi þá margfaldast frá árinu 2004 en bein áhrif landsframleiðslu hafi þar aukist um 160%. Verðmæti lax- og silungsveiða á landinu voru þá metin um 170 milljarðar. Þá voru útflutningsverðmæti eldisafurða metin 36,2 milljarðar á síðasta ári.
Ráðherra vill ekki taka afstöðu
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra vill ekki taka afstöðu til áskorunarinnar en segir að hún verði höfð til hliðsjónar í stefnumótun um fiskeldi. Hún segir mikinn þrótt í laxeldi en greinin hefur vaxið töluvert síðustu ár. „Ég tek undir með MAST hvað varðar það að líta svona slysasleppingar mjög alvarlegum augum,“ segir Svandís en atvikið gæti haft áhrif á áhættumat erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna sem ákvarðar aftur hversu mikið sjókvíaeldi sé leyfilegt. Áhættumatið verður skoðað á næsta ári en það er jafnan endurskoðað á þriggja ára fresti.
Ólíkir hagsmunir og auðmenn eignast auðlindir
Umhverfissamtök og laxveiðifyrirtæki vara við laxeldi í kvíum á sjó með þeim rökum að villti laxastofninn sé í hættu og þá sé grafið undan hlunnindum og ferðaþjónustu landsmanna. Á sama tíma gagnrýna formaður Félags sauðfjárbænda og formaður Bændasamtakanna uppkaup auðmanna á jörðum sem innihalda hlunnindi eins og laxa- eða silungsveiðiár. Æ algengara sé einnig orðið að efnamenn kaupi jarðir með möguleika á skógrækt svo hægt sé að áframselja kolefniseiningar sem er mun vænlegri söluvara en hefðbundnar landbúnaðarafurðir. Meðalaldur bænda hækkar stöðugt en nýliðun í stéttinni er lítil þar sem ungt fólk hefur ekki lengur tök á að kaupa jarðir eftir miklar verðhækkanir vegna þessara vinsælu viðskipta. Því mál velta því fyrir sér hvort hagsmunir þeirra sem vilja tryggja matvælaöryggi í landinu stangist á við hagsmuni stangveiðimanna og náttúruvernd sem gengur kaupum og sölum. Formaður bændasamtakanna bendir á að hér séu jarðakaup óheft með öllu og engin búsetu skilyrði þeim tengdum Hver sem er getur keypt hvað sem er hvar sem er fyrir hvað sem er án nokkurra skilyrða. Í dag eru starfsmenn Arnarslax á annað hundrað manns á Vestfjörðum svo hagsmunir heimamanna á Bíldudal og víðar eru einnig í húfi.
Fyrirtækin 25 sem leggja fram áskorunina gætu því verið um margt ólíkir hagsmunahópar einnig en það eru NASF á Íslandi, Landssamband Veiðifélaga, Icelandic Wildlife Fund, Laxinn Lifi, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Ungir Umhverfissinnar, Lax-á, Veiðiflugur, Veiðivön, Höklar, Six Rivers Project, Stóra-Laxá, Fuss, Laxá á Ásum, Starir, Miðfjarðará, Eleven Experience, Norðurá, Stangaveiðifélag Reykjavíkur (SVFR), Hreggnasi, Vatnsdalsá, Veiðifélagið, Fish Partner og Flugubúllan.