Á meðan að gjaldskrár, matarkostnaður og allt annað í samfélaginu hækkar, tekur upphæð fjárhagsaðstoðar ekki breytingum um áramót. Ekkert er fjallað um hækkun fjárhagsaðstoðar í áætlun meirihluta borgarstjórnar fyrir árið 2023. Fjárhagsaðstoð er veitt þeim sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar og grunnupphæðin er nú 217.799 kr. á mánuði fyrir skatt en getur tekið breytingum eftir húsnæðisstöðu og sambúðarformi.
Fjárhagsaðstoð er hugsuð sem neyðarnet þegar allt annað þrýtur. Hún er hugsuð sem framfærsla til skemmri tíma en vegna aðstæðna er oft margt fólk sem þarf að reiða sig á fjárhagsaðstoð til lengdar. Í reglum um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar kemur fram að fjárhæðir skuli vera endurskoðaðar af velferðarráði árlega í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar.
Slík endurskoðun hefur ekki átt sér stað, heldur hefur stýrihópur verið skipaður til að endurskoða reglur um fjárhagsaðstoð. Áætlað er að hópurinn skili niðurstöðu fyrir lok febrúar 2023.
Síðustu ár hafa upphæðir fjárhagsaðstoðar hækkað um áramót og augljóst er að erfitt verður fyrir þau sem treysta á fjárhagsaðstoð að komast í gegnum mánuðina. Fjárhagsaðstoðin er mjög lág og neyðir fólk til að leita til hjálparsamtaka til að fá grunnþörfum sínum mætt.
Frá þessu greinir Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins.