Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir fyrirtækin í landinu ráða við miklu hærri launahækkanir en Samtök atvinnulífsins hafa boðið, segir að forsvarsmenn SA viðurkenni þetta. Rök SA fyrir litlum hækkunum eru að ekki megi hækka laun af ótta við verðbólgu. Ragnar Þór segir að ekki sé hægt að fallast á þessi rök, að launafólk eigi að taka á sig kjaraskerðingu meðan fádæma góðæri skili eigendum fyrirtækja methagnaði.
Ragnar Þór ræddi stöðuna við Rauða borðið. VR lýsti samningaviðræður árangurslausar í lok síðustu viku en Starfsgreinasambandið kaus að halda viðræðum áfram. Sama má segja um iðnaðarmenn, en viðræður við þá eru ekki komnar eins langt.
Samstöðin sagði frá því sem rætt er um í karphúsinu á miðvikudaginn, sjá hér: Starfsgreinasambandið að ljúka samningum, óvissa um þátttöku VR. Þarna kemur fram að verið er að semja um 20 þús. kr. hækkun lægstu launa og starfsaldurshækkanir sem geta orðið rúmar 12 þús. kr. Við þetta bætist 13 þús. kr. hagvaxtarauki, sem rætt er um að flýta en samkvæmt lífskjarasamningnum á hann að koma 1. maí.
Ragnar Þór gekk frá borði í síðustu viku og taldi alltof lítið boðið. Ekki bara frá eigendum fyrirtækja heldur frá stjórnvöldum. Ríkisstjórnin hefur tekið undir kröfur SA um stuttan samning og sagt jafnframt að það takmarki framlag stjórnvalda.
Staða launafólks er ekki eins alls staðar og hagsmunirnir ólíkir. Til einföldunar má segja að megin glíman sé tvískipt. Annars vegar þarf að semja um launahækkanir til að bæta fólki kjaraskerðingu vegna verðbólgu á undanförnum misserum og sækja eðlilegan hlut launafólks í bættum hag fyrirtækja. Uppgjör fyrirtækja sýna að fyrirtækin geta hækkað laun umtalsvert. Ef það er ekki gert mun hagur eigendanna aukast enn. Í stað þess að launafólk fái peninginn mun hann verða greiddur út sem aukinn arður til eigenda.
Hins vegar kemur staðan á húsnæðismarkaði ólíkt niður á heimili, eftir þvi hvort fólk leigir eða á sitt húsnæði og síðan hvort fólk er með verðtryggða eða óverðtryggða vexti, fasta vexti eða breytilega. Það er ekki hægt að mæta vanda þeirra sem hafa komið verst út úr verðbólgunni og hækkun vaxta nema með samstilltu átaki stjórnvalda, banka og Seðlabanka. Og með stuttum samningi verða þær aðgerðir litlar, ef nokkrar.
Og Ragnar Þór kallar eftir enn breiðari aðkomu. Hann segir að eigendur fyrirtækja verði að taka á sig einhverja ábyrgð gagnvart verðbólgunni. Það sé ekki hægt að velta allri ábyrgð yfir á launafólk. Setja þurfi inn í samninga uppsagnarákvæði ef dagvöruverslanir hækka mat of mikið, ef bankar auka vaxtamun o.s.frv.
Ragnar Þór ræddi einnig stöðuna í verkalýðshreyfingunni. Í haust var hann bjartsýnn um samstillta verkalýðshreyfingu. Hann bauð sig fram sem forseta ASÍ og studdi Kristján Þórð Snæbjarnarson formann Rafiðnaðarsambandsins, Sólveigu Önnu Jónsdóttur formann Eflingar og Vilhjálm Birgisson formann Starfsgreinasambandsins sem varaforseta.
Nú er þetta fólk allt tvístrað í viðræðum við SA. Vilhjálmur er langt kominn með að semja á þeim nótum sem Ragnar Þór taldi ekki nóg. Kristján Þórður er í karphúsinu að bíða eftir niðurstöðum um hvaða svigrúm samningarnir við Starfsgreinasambandið gefa iðnaðarmönnum. Sólveig Anna er ekki komin í karphúsið, hefur viljað lengri samning og mun meiri hækkanir en verið er að semja um. Og Ragnar Þór fundar með sinni samninganefnd um framhaldið.
Ragnar Þór segist helst kjósa að verkalýðshreyfingin nái saman og mæti fyrirtækjaeigendum og stjórnvöldum af styrk. Staðan í dag endurspegli átökin sem birtust á þingi Alþýðusambandinu. Þau átök snerust um ólíkt mat á möguleikum í baráttunni. Og það ólíka mat birtist í stöðunni í dag.
Sjá má og heyra viðtalið við Ragnar Þór í spilaranum hér að ofan.