VR og iðnaðarmenn hafa gert kröfu um tryggingu fyrir verðbólgu þannig að laun myndu hækka ef verðlag hækkaði umfram 6% eða samningar yrðu þá lausir. Þótt krónutölur í nýjum samningi Starfsgreinasambandsins séu kannski háar ná þær varla að bæta launafólki verðbólguna á þessu ári né verja launin fyrir fyrirsjáanlegri verðbólgu næsta árs.
Um þetta er deilt. Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, bendir á miklar hækkanir í krónum talið. En gagnrýnendur samnings benda á móti á að verðbólgan sé há og því þurfi mikla hækkun til að bæta þá kaupmáttarskerðingu sem þegar hefur orðið og sem fyrirsjáanlegt er að verði á næsta ári.
Verðbólgan heldur áfram að éta kaupmátt
Í þjóðhagsspá Hagstofunnar frá fyrra mánuði var gert ráð fyrir 8,6% verðbólgu í ár og 5,6% verðbólgu á næsta ári. Verðbólgan var hins vegar 9,3% í nóvember og því ljóst að spáin fyrir þetta ár stenst ekki og þar með er ólíklegra að spáin fyrir næsta ár standist.
Hagstofan gerði ráð fyrir að verðbólgan hefði náð hámarki seint í sumar og færi að lækka með haustinu og myndi síðan lækka jafnt og þétt þar til hún yrði 3,5% yfir árið 2024. Til að von sé um að þetta gangi eftir þyrfti verðbólga um áramótin að vera komin niður í 7,7% eða svo. Svo mun ekki verða. Verðbólgan verður 1,5% meiri hið minnsta.
Ef við miðum við að verðbólguspá Hagstofunnar standist þá mun verðlag hækka um 6,2% yfir samningstímann, frá nóvember 2022 til janúar 2024. Samningarnir þurfa að lágmarki að verja launin fyrir þessari kaupmáttarrýrnun.
En frá síðustu launahækkun, í maí á þessu ári, hefur verðlag hækkað um 4,0%. Ef það er viðmiðunarpunktur þá má ætla að verðlag hækki frá maí á þessu ári fram til janúar 2024 um 10,4%. Það er sú hækkun sem þarf að ná svo launafólk sé jafnsett.
Nær ekki að verja lægstu laun fyrir verðbólgunni
Til að ná þessu þyrftu lægstu taxtar Starfsgreinasambandsins að hækka um rúmar 38 þús. kr. en samið var um 22 þús. kr. grunnhækkun auk þess að flýta áður umsömdum 13 þús. kr. hagvaxtarauka. Með hagvaxtaraukanum vantar upp á að launin haldi verðgildi sínu.
Þetta á við um byrjunarþrep allra flokka. Starfsfólk með eitt ár hjá sama fyrirtæki er svo til jafn stett en fólk sem hefur starfað lengur en þrjú ár fær að meðaltali um 4 þús. kr. raunhækkun launa og þau sem hafa starfað lengur en fimm ár hjá sama fyrirtæki um 10 þús. kr. Og er þá miðað við raungildi við lok samningstímans.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar hefur gagnrýnt Vilhjálm og Starfsgreinasambandið fyrir að telja hagvaxtaraukann með í þessum samningum, en hann er hluti af lífskjarasamningnum og því samið um hann vorið 2019 en ekki núna. Ef hagvaxtaraukinn er tekinn til hliðar ná umsamdar launahækkanir og starfsaldurshækkanir ekki að tryggja kaupmátt. Hann fellur á samningstímanum.
Er þessi betri en lífskjarasamningurinn?
Vilhjálmur Birgisson hefur bent á að nýir samningar með hagvaxtaraukanum meðtöldum hækki laun fólks í hæsta flokki með lengstan starfsaldur um rúmar 53 þús. kr. og það sé hærri upphæð en samið var um í lífskjarasamningnum, sem þó gilti í þrjú og hálft ár. Nýi samningurinn er aðeins til loka í janúar 2024 eða í fimmtán mánuði frá 1. nóvember í ár.
Þótt 53 þús. kr. sé hæsta hækkun er meðaltalshækkunin tæplega 44 þús. kr. sé tekið meðaltal allra flokka og þrepa.
Umsamdar kauphækkanir í lífskjarasamningnum voru 90 þús. kr. til þriggja og hálfs árs. Við þetta bættist hagvaxtarauki í ár upp á 10.500 kr. og svo 13 þús. kr. á næsta ári, samtals 113.500 kr. Og þá verðum við að taka 13. þúsund kallinn af nýju samningunum, en bæta við 5.200 kr. sem er verðmæti flýtingar hagvaxtaraukans.
Við erum þá annars vegar með 113.500 kr. í lífskjarasamningnum og rétt tæplega 36 þús. kr. í nýja samningnum. Nú er verðbólgan 9,3% en þegar skrifað var undir lífskjarasamninginn var verðbólgan 3,3%.
Ólík sjónarmið og taktík ræður ólíku mati
Ástæðan fyrir að forystufólk í verkalýðshreyfingunni metur nýja samninga Starfsgreinasambandsins svona ólíkt er að það horfir á þá út frá ólíkum forsendum, bæði hver staðan er í samfélaginu, hversu mikið góðærið er og hvort verkalýðshreyfingin sé í sóknarfæri eða verði að sætta sig við vörn.
Vilhjálmur vill meta hagvaxtaraukann sem hluta samningsins en Sólveig Anna segir þegar hafi verið samið um hann, að með því að fella hann inn í samning sem rétt nær að halda verðgildi launa sé í reynd verið að falla frá honum.
Hörður Guðbrandsson formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur segir að þótt hækkanir hjá fólki með mesta starfsreynslu sé ágæt þá er engin trygging gegn verðbólgunni. VR og iðnaðarmenn hafa sömu afstöðu, að nýjum samningum verði að fylgja vörn gegn verðbólgu.
Vilhjálmur nefnir hversu háar upphæðirnar eru en þær verður að meta í ljósi verðbólgunnar. Því hærri sem verðbólgan er, því hærri þurfa launahækkanirnar að verða til að verja kaupmáttinn.
En kannski eru sjónarmiðin ólíkust þegar kemur að mati á hversu mikið er að sækja. Sólveig Anna og ekki síður Ragnar Þór hafa bent á að allir mælar sýni mikið góðæri hjá fyrirtækjum. Þau telja að launafólk verði að sækja fram núna því annars sé það í raun að fallast á að eigendur fyrirtækja stækki sína sneið á kostnað launafólks.
Ragnar Þór telur upp nokkrar staðreyndir sem hann segir að hafa beri í huga í yfirstandandi kjaraviðræðum á Facebook-síðu sinni: „Staða efnahagslífsins er gríðarlega sterk og staða útflutningsgreina sjaldan eða aldrei verið betri. Þróun launa hefur ekki haldið í við framleiðnivöxt frá aldamótum Ekki er hægt að sýna fram á marktæk áhrif launahækkanna á verðlag á sama tímabili. Greining á ársreikningum 13.900 fyrirtækja sýnir gríðarlegan afkomubata og hagnaður nær yfir allar atvinnugreinar og allar stærðir fyrirtækja. Á sama tíma hafa gjaldþrot fyrirtækja aldrei verið færri. Met afkoma fyrirtækja varð árið 2021, árið 2022 lítur enn betur út. Markmið lífskjarasamnings um að styðja við efnahagslíf hafa gengið eftir. Aukin verðbólga og vaxtahækkanir hafa þurrkað út ábata launafólks. Óvissan er hjá fólkinu í landinu. Ekki hjá fyrirtækjunum þar sem sannkallað góðæri ríkir.“
Þetta eru hækkanirnar
Þessar eru taxtahækkanirnar samkvæmt samningnum, hagvaxtaraukinn innifalinn:
Flokkur | Byrjun | 1 ár | 3 ár | 5 ár |
---|---|---|---|---|
4 | 35.000 | 37.207 | 41.461 | 47.837 |
5 | 35.518 | 37.724 | 41.982 | 48.380 |
6 | 36.024 | 38.222 | 42.490 | 48.907 |
7 | 36.514 | 38.710 | 42.984 | 49.329 |
8 | 36.990 | 39.180 | 43.370 | 49.704 |
9 | 37.452 | 39.545 | 43.712 | 50.061 |
10 | 37.806 | 39.864 | 44.033 | 50.403 |
11 | 38.116 | 40.165 | 44.341 | 50.726 |
12 | 38.405 | 40.449 | 44.628 | 51.030 |
13 | 38.679 | 40.713 | 44.897 | 51.314 |
14 | 38.934 | 40.960 | 45.147 | 51.581 |
15 | 39.170 | 41.187 | 45.377 | 51.827 |
16 | 39.386 | 41.393 | 45.587 | 52.052 |
17 | 39.583 | 41.581 | 45.776 | 52.258 |
18 | 39.760 | 41.747 | 45.945 | 52.444 |
19 | 39.915 | 41.893 | 46.095 | 52.606 |
20 | 40.050 | 42.018 | 46.220 | 52.747 |
21 | 40.165 | 42.120 | 46.323 | 52.866 |
22 | 40.256 | 42.200 | 46.406 | 52.962 |
23 | 40.325 | 42.259 | 46.464 | 53.035 |
24 | 40.373 | 42.293 | 46.500 | 53.084 |
Til að átta sig á hversu vel þessi hækkun dugar gegn verðbólgu sem hefur verið 4% frá síðustu hækkun og spáð er að verði 6,2% á samningstímanum, samtals þá 10,4%, er best að skoða prósentuhækkunina.
Flokkur | Byrjun | 1 ár | 3 ár | 5 ár |
---|---|---|---|---|
4 | 9,5% | 10,1% | 11,2% | 12,8% |
5 | 9,6% | 10,2% | 11,3% | 12,9% |
6 | 9,7% | 10,3% | 11,3% | 13,0% |
7 | 9,8% | 10,3% | 11,4% | 13,0% |
8 | 9,9% | 10,4% | 11,5% | 13,1% |
9 | 9,9% | 10,4% | 11,5% | 13,1% |
10 | 10,0% | 10,5% | 11,5% | 13,1% |
11 | 10,0% | 10,5% | 11,5% | 13,1% |
12 | 10,0% | 10,5% | 11,5% | 13,1% |
13 | 10,0% | 10,5% | 11,5% | 13,1% |
14 | 10,1% | 10,5% | 11,5% | 13,1% |
15 | 10,1% | 10,5% | 11,5% | 13,1% |
16 | 10,1% | 10,5% | 11,5% | 13,1% |
17 | 10,0% | 10,5% | 11,5% | 13,0% |
18 | 10,0% | 10,5% | 11,5% | 13,0% |
19 | 10,0% | 10,4% | 11,4% | 13,0% |
20 | 10,0% | 10,4% | 11,4% | 12,9% |
21 | 10,0% | 10,4% | 11,3% | 12,9% |
22 | 9,9% | 10,3% | 11,3% | 12,8% |
23 | 9,9% | 10,3% | 11,2% | 12,7% |
24 | 9,8% | 10,2% | 11,2% | 12,7% |
Þarna má sjá að öll byrjunarlaunin eru undir 10,4% markinu hluti af flokkunum eftir eins árs starfsreynslu. Og er þá hagvaxtaraukinn frá lífskjarasamningunum innifalinn.
Breyta þarf skattalögum til að koma hækkunum til skila
Að óbreyttum skattalögum er hækkunin minni ef miðað er við ráðstöfunarfé, það sem fólk fær útborgað. Ástæðan er að jaðarskatturinn er hærri en meðaltalið, þú borgar 37,95% skatt af hækkuninni þótt þú borgir kannski ekki nema 22,5% skatt af laununum í dag. Til að verja árangur samninganna þurfa stjórnvöld bæði að hækka persónuafslátt til að mæta skerðingum vegna verðbólgu þessa árs og þess næsta og hækka ránna í lægsta þrepinu.
Það hefur ekki komið fram hvort samið var um þetta. Ríkisstjórnin hefur nefnt hækkun barnabóta og húsnæðisbóta, en ætlar að bíða þess að fleiri félög og samtök ljúki samningum.
Útgerðin hækkar bónus
Fyrir utan almennar hækkanir var samið um hækkun orlofs- og desemberuppbótar en sú hækkun er rúm 5% og nær því ekki að halda verðgildi sínu að fullu.
Fyrir utan taxta munar mest um hækkun á bónus í fiskvinnslu. Þar var samið um 8% lágmarkshækkun en meiri hækkun í samningum við einstök fyrirtæki, mest í samningum við Samherja samkvæmt heimildum Samstöðvarinnar. Það er erfitt að meta þessar hækkanir þar sem þær eru misjafnar og vægi bónus í heildarlaunum er ólíkt. Það er hins vegar ljóst að útgerðin hefur efni á þessu, en verð á sjávarafurðum er um 25% hærri í ár en í fyrra samkvæmt kjaratölfræðinefnd.
Verður þessi samningur fyrirmynd annarra
Það er of snemmt að meta hvaða áhrif þessi samningur hefur. Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að almenni markaðurinn seti tóninn fyrir launahækkanir annarra. Á bak við þennan samning eru um 20% af félögum í Alþýðusambandinu, sem aftur er um 2/3 hlutar launafólks.
Miðað við viðbrögð annarra félaga er ljóst að mikið verður reynt til að komast hjá því að þessir samningar verði fyrirmyndin. Samtök atvinnulífsins hefur hins vegar lýst yfir að það ætli að halda öllum samningum innan þessa ramma og miðað við ánægju ráðherra með þennan samning má ætla að stjórnvöld séu sama sinnis.
Myndin er af vef Samtaka atvinnulífsins, tekin við undirritun samnings Starfgreinasambandsins við Samtök atvinnulífsins. Frá vinstri: Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA, Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari, Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS og Guðbjörg Kristmundsdóttir, varaformaður SGS og formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur.