Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja hafa vísað kjaradeilu sinni við bankana til ríkissáttasemjara. Þeir hafna þeim ramma sem Samtök atvinnulífsins hafa þröngvað upp á Starfsgreinasambandið, verslunar- og iðnaðarmenn. Í fyrsta lagi segja þeir 6,75% hækkun alltof lága, það séu í raun samningar um kjararýrnun. Og í annan stað hafna þeir að árangur fyrri samninga sé talinn með í nýjum, og eiga þar við hagvaxtaraukann sem samið var um 2019.
Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri SSF, bendir á í samtali við Morgunblaðið að umsamin hækkun í samningi verslunar- og iðnaðarmanna sé aðeins 5,5% á meðallaun sé hagvaxtaraukinn tekinn frá. Eins og eigi að gera, þar sem samið var um hann í tengslum lífskjarasamninginn 2019.
Eins og bankamenn benda á er það stórundarlegt, að verkalýðshreyfingin semji um 5,5% launahækkun þegar verðbólgan er um og yfir 9,5%. Nýju samningarnir eru til fimmtán mánaða. Ef bæta ætti verðbólguna á samningstímanum og auk þess þá kjararýrnun sem hefur orðið síðan laun hækkuðu síðast þyrftu laun að hækka um 11% ef bjartsýnar verðbólguspár ganga eftir. En um 16% ef verðbólgan lækkar ekki frá því sem nú er.
5,5% launahækkun í þessu umhverfi er augljóslega samningar um umtalsverða kjararýrnun. Og flutningur á verðmætum frá launafólki til fyrirtækjaeigenda.
Bankamenn benda á það sem ætti að vera augljóst, að hagvaxtaraukinn byggðist á bættum hag fyrirtækjanna en var ekki hugsaður sem verðbætur á laun. Samningar snúast um að bæta launafólki kjararýrnun vegna verðbólgu, tryggja að laun haldi í við verðbólguna, en líka að launafólk fái skerf af bættum hag fyrirtækjanna.