Þótt opinberar skuldir Ítalíu séu tvöfalt meiri en á Íslandi, þá er vaxtabyrði ríkissjóðs Ítalíu léttari en ríkissjóðs Íslands. Ástæðan er að vaxtakjör eru lakari fyrir ríkissjóðinn á Íslandi og stærri hluta lánanna í erlendum gjaldeyri, sem sveiflast og getur aukið vaxtabyrði bratt. Ríkissjóður Íslands þolir því verr að skulda mikið, skuldir leggjast með tvöföldu álagi á almenning og leiða frekar til samdráttar í opinberri þjónustu en í öðrum löndum.
Þrátt fyrir þessa hættu rekur Bjarni Benediktsson ríkissjóð með miklum halla. Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram var gert ráð fyrir 89 milljarða króna halla þrátt fyrir að áhrif cóvid-faraldursins séu horfin og muni ekki hafa nein áhrif á rekstur ríkissjóðs á næsta ári. Hagvöxturinn á þessu ári stefnir í að verði meiri en árið 2007.
Þetta varð enn ljósara í haust, eftir að frumvarpið var lagt fram. Það komu fram hagtölur sem sýndu að hagkerfið var búið að jafna sig og komið á fullt skrið. Samt jókst hallinn í meðferð fjárlagafrumvarpsins á þingi og í ríkisstjórn. Fjárlög fyrir næsta ár voru afgreidd með 118 milljarða króna halla.
Frá því að frumvarpið var lagt fram hækkuðu áætlaðar tekjur um 24 milljarða króna vegna aukins afls í hagkerfinu. En útgjöldin hækkuðu á móti um 53 milljarða króna. Kenning Bjarna Benediktssonar er að við munum vaxa út úr hallanum, að ekki þurfi að hækka skatta á hin ríku, þau sem hafa hagnast mest á undanförnum árum og þær atvinnugreinar sem búa nú við fordæmalaust góðæri, heldur muni hallinn hverfa sjálfkrafa með vexti hagkerfisins.
Það er ekki að gerast. Vandinn er ekki aðeins aukin útgjöld á tíma cóvid-faraldursins heldur langvarandi skuld vegna vanrækslu innviða og niðurbrots grunnkerfa samfélagsins. Það er sterk og vaxandi krafa í samfélaginu að þetta verði bætt. Á móti stendur Bjarni og Sjálfstæðisflokkurinn, með stuðningi Framsóknar og Vg, og hafnar því að leiðrétta skattabreytingar nýfrjálshyggjuáranna þar sem skattbyrði var létt af hinum auðugu, af fjármagni og fyrirtækjaeigendum, en aukin á almennu launafólki.
Í ímynduðum heimi þar sem almenningur sætti sig við niðurgrotnun grunnkerfa og innviða mætti sjá fyrir sér að gatið á ríkissjóði myndi lokast af sjálfu sér, með vaxandi hagvexti. Gjaldið væri þá áframhaldandi niðurbrot þeirra kerfa sem byggð voru upp fyrir nýfrjálshyggjuna. Ríkisstjórnin virðist lifa í þessum ímyndaða heimi.
Nema stundum. Þegar almenningur rís upp og mótmælir og ráðherrunum verður ljóst að þeir muni fórna pólitískri framtíð sinni ef þeir ætla að reka niðurbrotsstefnu gagnvart grunnkerfum samfélagsins þá gefast þeir upp og leggja fé inn í grunnkerfin, auka framlög til heilbrigðismála, hækka barnabætur, draga út tekjutengingu eftirlaunafólks og öryrkja og gefa með öðrum hætti eftir gagnvart almannaviljanum. Ekki að fullu, heldur aðeins nóg til að bjarga pólitískri framtíð sinni.
Og gjaldið fyrir það er vaxandi halli á ríkissjóði. Ráðherrarnir auka útgjöld en vilja ekki auka tekjurnar, af ótta við að baklandið snúist gegn þeim.
Og þetta er meinið sem veldur vaxandi halla á ríkissjóði og auknum skuldum sem hlutfalli af landsframleiðslu. Þær lækkuðu við skuldauppgjör þrotabúa bankanna, en hafa síðan vaxið aftur. Ráðherrarnir segja það vera vegna cóvid, en meginástæðan er sú að ráðherrarnir reka ríkissjóð í takt við sitt pólitíska fylgi og krafna baklandsins, vilja verja stöðu sína og ekki hætta neinu til pólitískt.
Þess vegna sker ríkisstjórnin ekki niður útgjöld umfram það sem almenningur sættir sig við. Og hún hækkar ekki skatta á hin ríku, fjármagn og fyrirtæki, þar sem baklandið vill það ekki. Og siglir áfram á götóttum ríkissjóði í miðju góðæri með vaxandi halla og fyrirsjáanlegum vaxandi vaxtagreiðslum ríkissjóðs sem dregur meira afl út ríkisvaldinu en mögulegur hagvöxtur getur gefið.
Þetta er ekki vegna cóvid, þótt það hafi enn ýtt undir ástandið. Ríkissjóður hefur verið rekinn með halla frá upphafi árs 2019. Hallinn er ekki síður tengdur samsetningu ríkisstjórnarinnar. Hægrið vill ekki hækka skatta en fær ekki að skerða niður eins og það vildi og uppsker halla. Vinstrið vill ekki skera of mikið niður en fær ekki að hækka skatta og uppsker halla. Hallinn er því gjaldið fyrir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, gjald sem skattgreiðendur þurfa að borga fyrir mörg næstu ár, jafnvel áratugi. Í formi vaxtagreiðslan sem grafa undan getu ríkissjóðs til að standa undir góðu samfélagi.
Í fyrra voru vaxtaútgjöld hins opinberra 3,7% á Íslandi og hvergi hærri innan OECD þótt þar séu lönd sem skulda miklu meira. Þetta sést vel á grafi sem Samtök atvinnulífsins birti um daginn:
Hér sést að Íslendingar missa meira af sínum tekjum í vaxtagreiðslur hins opinbera, sem er ríkissjóður og sveitasjóðir, en nokkur önnur þjóð. Ítalir og Grikkir sem skulda miklu meira, borga minna. Ef við miðum við 3.900 milljarða króna landsframleiðslu þá missa Íslendingar 144 milljarða króna í vexti, nærri tvo nýja landspítala á ári, á meðan sambærileg tala er aðeins 20 milljarðar króna eða minna á hinum Norðurlöndunum.
Í ljósi þessa er það nánast glæpsamlegt af ríkisstjórninni að keyra ríkissjóð áfram með miklum halla í miðju góðæri. Þessi halli bætist við skuldir ríkissjóðs og eykur enn vaxtabyrði. Sem dregur úr getu ríkissjóðs til að standa undir góðu samfélagi. Kemur í veg fyrir að vöxtur í hagkerfinu nái að stoppa í gatið. Og flytur gjaldið fyrir að halda þessari ríkisstjórn saman yfir á komandi ár. Þá þarf almenningur að borga fyrir þessa ríkisstjórn með vöxtum og vaxtavöxtum, eins og sagt er.